03.05.1985
Neðri deild: 63. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4774 í B-deild Alþingistíðinda. (4020)

455. mál, nýsköpun í atvinnulífi

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég man ekki betur en það hafi verið yfirlýst stefna flestra flokkanna að það væri rétt að halda þannig á málum að reyna að færa eitthvað af þeim stofnunum sem ríkið ræður yfir út á land. Hins vegar er fleira umhugsunarvert í þessu sambandi, þ. e. til hvers það leiðir að gera það í sumum tilvikum, hvort þarna er þá um aukakostnað að ræða, verulegan aukakostnað. Það verður að líta á allt í því sambandi. Ég er þeirrar skoðunar að þó að það sé einhver aukakostnaður, sem af því leiðir, eigi að gera þetta í einhverjum mæli. Ég er ekki að segja að það eigi að fara mjög hratt í þetta vegna þess að reynslan mun sýna hvernig til tekst ef við förum að færa stofnanir út um land. Það eru mörg ár síðan talað var um þetta, en minna hefur verið að gert.

Ég vil taka undir það, sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði, að það er tilvalið tækifæri að gera þetta í sambandi við a. m. k. byggðasjóðinn og jafnvel fleiri þær stofnanir sem hér eru til umræðu. Ef það er svo skoðun þm. og stjórnmálaflokka á þessari stefnu, sem var mörkuð og allir lýstu sig sammála, að hverfa frá henni eiga menn að hafa mannskap í sér til að segja það og þá þarf ekkert að vera að þvæla um þetta meir, að það sé komin sú niðurstaða og auðséð sé að óhagræði sé í Afríku og aukakostnaður í mörgum tilfellum, að það sé ekki hægt. Menn eiga bara að segja það sem þeim býr í brjósti í þessu efni.

En ég ætla að endurtaka að ég tel að það eigi að reyna í þetta sinn að flytja eina eða tvær af þessum stofnunum norður á Akureyri t. d. þar sem samgöngur eru bestar bæði við Vestfirði og Austfirði og þrjár, fjórar ferðir á milli Reykjavíkur og Akureyrar daglega. Ef það gengur ekki þar gengur það hvergi. Það er alveg klárt. Ég vil að þetta komi fram.