03.05.1985
Neðri deild: 63. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4775 í B-deild Alþingistíðinda. (4021)

455. mál, nýsköpun í atvinnulífi

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti. Hér eru tveir meginefnisflokkar til umræðu og þeir tengjast verulega mikið, þ. e. byggðamál og nýsköpun í atvinnulífi. Af því sem ég hef heyrt af þessari umr. finnst mér ekki hafa komið nógu glögglega fram, t. d. varðandi byggðamál, að þar eru tveir algerlega aðskildir þættir sem menn þurfa að horfa á. Í fyrsta lagi ýmsar almennar aðgerðir stjórnvalda. Almennar aðgerðir ríkisvalds á hverjum tíma hafa miklu stórvirkari áhrif á byggðir en einhvers konar byggðakontóristastefna hefur á einstök atriði. Það er svo hvort sem mönnum líkar betur eða verr að sú stefna sem hefur ríkt í efnahagsstjórn á undanförnum áratugum byggist á því að einhvers staðar inni sitja menn og halda í tauma og stýra efnahagslífi í stóru og smáu út í frá eftir ákveðnum forsendum. Við þekkjum þess dæmi. Menn gera heildarkjarasamninga, menn gera heildarfiskverðssamninga, menn taka heildarbúvöruverðsákvarðanir, menn taka heildarvaxtaákvarðanir, menn leggja stórar línur í peningamálum, menn leggja línur í húsnæðismálum og ýmsum þáttum sem oft og tíðum skilja eftir afskaplega lítið olnbogarými fyrir það fólk, hvar sem er í landinu, hvort sem er utan Reykjavíkur eða innan, sem á síðan að reyna að bjarga sér. Það er að mínu viti tómt mál að tala um einhverja sértæka byggðastefnu þegar málunum er stjórnað með hinum almennu stórvirku stjórnvaldsaðgerðum sem viðhafðar eru á hverjum tíma. Þess vegna hefur það miklu meiri áhrif á líf fólks hvar sem er á þessu landi hvaða húsnæðismálastefnu hæstv. félmrh. fylgir, hvaða menntamálastefnu hæstv. menntmrh. fylgir, hvaða atvinnumálastefnu er fylgt, hvaða peningamálastefnu er fylgt og hvað orkuverð er hátt í þessu landi. Það hefur miklu meiri áhrif á líf fólksins en einhver byggðapólitík við Rauðarárstíg. Ég held að áður en menn tala sig hérna máttlausa um hvernig Byggðastofnun þeir ætla að búa til, hvernig byggðasjóð þeir ætla að búa til og hvernig byggða- hitt og þetta þeir ætla að búa til eigi þeir að líta á hinar almennu stórvirku stjórnvaldsaðgerðir og huga að þeim fyrst. Ein röng gengisskráning í eitt ár hefur miklu stórtækari áhrif á líf fólks úti á landi en byggðakontóristarnir uppi við Rauðarárstíg geta nokkru sinni haft eða byggðastefna ríkisstj.

Þetta vildi ég láta koma fram í þessari umr. Menn skyldu huga að hinum almennu aðgerðum ríkisvaldsins fyrst. Ef menn hafa áhuga á því að fólk geti lifað á þessu landi án þess að þurfa að fara í gegnum póstlúgur þingmannanna í Reykjavík með allt smátt og stórt eiga þeir að tala um sjálfstjórn héraða. Þá eiga þeir að tala um að finna þann ramma utan um líf fólksins í þessu landi sem geri því kleift að bjarga sér sjálft, sem geri því kleift að ákveða vinnu sína, ákveða verkefni sín vitandi hvað því er sjálfu fyrir bestu. Það er byggðastefna. Byggðastefna er að búa þannig að fólki að það geti bjargað sér sjálft. Byggðastefna á ekki að byggjast á einhverjum aumingjabótum frá Alþingi eða Rauðarárstíg. Þess vegna eiga menn að velta fyrir sér hugmyndum um sjálfstjórn, sjálfsforræði.

Ég minni á þáltill., sem BJ lagði fram á þinginu í fyrra og hefur lagt aftur fram í vetur, sem fjallar um þróunarstofur landshluta. Hugmyndin er að framselja vald og framselja verkefni í atvinnu- og byggðamálum til fólksins úti á landi sem veit hvar skórinn kreppir hverju sinni og veit það miklu betur en þeir Rauðarárstígsbúar sem þó vafalaust reyna vel. Ég held að þetta sé mergurinn málsins hvað varðar byggðastefnuna. Byggðastefna er fundin upp af forsjárhyggjupostulum sem eru sannfærðir um að fólk hafi ekki vit fyrir sér sjálft og kunni ekki að ráða sínum málum. Það þarf enga byggðastefnu ef fólki er gert kleift að bjarga sér sjálft.

Varðandi nýsköpun í atvinnulífi má segja að þar gildi sömu almennu forsendur. Í fyrsta lagi skiptir höfuðmáli hver hinn almenni bakgrunnur efnahagslífsins er. Þar nefni ég atriði eins og stefnu í peningamálum, stefnu í vaxtamálum og þess háttar. Hins vegar eru sértækar aðgerðir til að styðja við, helst tímabundið, nýjungar í atvinnulífi sem geta hvort sem er verið í svokölluðum gömlum atvinnugreinum eða nýjum.

Þar skiptir höfuðmáli að menn leggi til grundvallar að koma fólki, koma fyrirtækjum þannig á legg að þau geti bjargað sér sjálf. Það gagnar ekki neitt að koma á fót einhverju fyrirtæki, koma á fót einhverjum atvinnurekstri sem síðan er því sífellt háður að vera á spena, fá sífellt styrki, fá sífellt bætur, fá sífellt einhverjar ívilnandi aðgerðir. Það er ekki til neinnar frambúðar. Út á það getur engin nýsköpunarstefna gengið, hvort sem er í byggðamálum eða atvinnumálum. Þess vegna þurfa menn líka í sambandi við nýsköpunina sjálfa í atvinnulífinu að hafa það í huga alveg eins og varðandi sjálfstjórn héraðanna að raunveruleg nýsköpun til bóta í atvinnuháttum verður ekki öðruvísi en að fólki sé hjálpað til þess að hjálpa sér sjálft. Það er grundvallaratriði. BJ flytur á þessu þingi þáltill. um stuðning við stofnun smáfyrirtækja. Þar er vikið á ýmsan hátt að málefnum sem þessu eru viðkomandi. Þar eru hugmyndir um hvernig hægt er að styðja fólk og fyrirtæki til þess að ná sjálfsbjörginni. Ég held að um það snúist þetta mál.

Við getum haldið áfram að breyta nafnspjöldunum inn við Rauðarárstíg alveg í það óendanlega. Við gefum kallað þetta Byggðastofnun, Byggðadeild, Byggðasjóð. Við getum hreyft til skrifborðin, hreyft til nafnspjöldin, skipt húsinu niður á ýmsa enda og kanta. En það breytir engu. Það sem breytir málinu á endanum er traust, að við treystum fólki á heimaslóð, að við treystum fólki, sem stendur í atvinnurekstri, til þess að sjá fótum sínum forráð. Við eigum að styðja það, en alls ekki gera það háð sífelldum ívilnandi aðgerðum. Um það held ég að byggðamál og nýsköpunarmál snúist. Stofnanirnar sjálfar, ytri búnaðurinn að þessu, eru í flestum tilfellum miklu minna atriði.