03.05.1985
Neðri deild: 63. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4776 í B-deild Alþingistíðinda. (4022)

455. mál, nýsköpun í atvinnulífi

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég skal ekki gegnumlýsa þá einföldu mynd sem hv. 4. landsk. þm. dró hér upp. Það er greinilegt að hann hefur mótað sér mjög glöggar skoðanir og hefur allt á hreinu í sínum huga.

Skal ég ekki við þetta tækifæri gera athugasemdir við hans sjónarmið sem við þekkjum af hvaða rótum eru runnar og vitum að hafa ekki mikla athugun að baki.

Ég vil aðeins segja út af þeim hugmyndum, sem uppi eru varðandi staðsetningu Byggðasjóðs á Akureyri, að ég er fylgjandi þeirri hugmynd. Ég hef talið að það sé réttur vettvangur að sú hugmynd verði tekin upp í nefnd hér á Alþingi og að það verði Alþingi sjálft sem skeri úr um það hvort þm. treysti sér til þess að stíga þetta skref. Ég álit að það sé eðlilegt. Í þessari stofnun eru saman komnir fulltrúar hvaðanæva af landinu og það verður að ákvarðast í þeirra hópi hvort þetta mikilvæga skref verður stigið eða ekki. Ég tel að ef svo fer að alþm. treysti sér ekki, gegn von minni, til þess að stíga þetta skref hljóti það að koma til álita varðandi framhaldsendurskoðun á sjóðakerfinu að einum af stofnlánasjóðunum verði valinn þar staður. Það er eðlilegt þar sem Akureyri er annað mesta þéttbýlissvæði landsins og hlýtur að geta gert sanngjarnar kröfur til þess að nokkurt tillit sé tekið til þess hér í þessari stofnun.