03.05.1985
Neðri deild: 63. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4778 í B-deild Alþingistíðinda. (4024)

455. mál, nýsköpun í atvinnulífi

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Aðeins örstutt athugasemd vegna ummæla hv. 2. þm. Reykv. hér áðan. Hv. þm. hefur greinilega misskilið þetta illilega þegar hann ætlar að skjóta sér á bak við það að vegna þess að ríkið hyggist vera minnihlutaaðili í þessu hlutafélagi geti það engin áhrif haft á það hvar það á heima og hvernig það verður. Ríkið hefur þegar í þessu frv. bundið þátttöku sína í þessu félagi ákveðnum skilyrðum og það segir í fskj. að það muni beita sér fyrir ákvæðum í stofnsamningi hlutafélagsins. Það er því ekkert, nákvæmlega ekkert því til fyrirstöðu, virðulegur 2. þm. Reykv., að eitt af þeim skilyrðum verði t. d. það að hlutafélagið eigi heimili og varnarþing á Akureyri.

En ég tel eðlilegt, og ég vil láta það koma fram, að ekki bara eitt heldur t. d. þrjú af þessum fjórum nýju hlutafélögum eða fyrirtækjum virðulegrar ríkisstj., sem Framkvæmdastofnun er að klofna upp í, verði úti á landi. Og ég er tilbúinn að ræða það hvert á að vera hvar og hvernig á að standa að því. En aðalatriðið er það að hér gefst ríkisstj. tækifæri til að sýna hug sinn til þessara mála í verki og það verður eftir því tekið hvernig sá hugur birtist í framkvæmdum.