03.05.1985
Neðri deild: 63. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4780 í B-deild Alþingistíðinda. (4031)

364. mál, jöfnun og lækkun hitunarkostnaðar

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég tel að það frv. sem hér er flutt horfi til réttrar áttar. Þannig var mál með vexti þegar lög voru sett sem hér er verið að breyta að það var tillaga mín sem iðnrh. í þann tíð að meðferð olíustyrkja yrði lögð til iðnrn. með þeim hætti sem hér er lagt til. Það hafði verið að forgöngu iðnrn. samið frv. til l. um þessi efni og það rn. eitt um það fjallað, látið þó viðskrn. fylgjast með og ákveðið samstarf við viðskrn. um þau efni. En um það leyti sem málið var fullbúið og lá fyrir þingflokkum hér, komið frá ríkisstj., þá hrökk hæstv. þáv. viðskrh. við eða hans flokksmenn og óskuðu eindregið eftir því að við haldið yrði hinni gömlu skipan frá 1974 og olíustyrkjaúthlutuninni haldið hjá viðskrn. og öllu því sem henni tengdist. Um þetta var nokkur strekkingur í ríkisstj. þá og málinu vísað til úrskurðar þáv. hæstv. forsrh. sem fól viðskrh. að flytja þetta frv. hér í þinginu, en ákveðnir kaflar laganna, sem ég man ekki að nefna ákveðið nú, voru lagðir framkvæmdalega undir iðnrn., það sem snertir orkusparnað og þá þætti.

Mér þótti mjög miður að svona skyldi til takast og tel að það hafi í rauninni verið eitthvað annað en efnisrök sem lágu að baki að svona var lagst í málið af þáv. hæstv. viðskrh. og ég tel að þessi skipan hafi orðið til að tefja fyrir eðlilegri þróun þessara mála, þ. e. að skipt yrði frá olíuhitun yfir á innienda orkugjafa. Ég reyndi eftir að þessi lög voru sett að ýta á eftir því að fá haldbærar upplýsingar um það hvar væri hægt að skipta yfir á innlenda orkugjafa eins og reglugerð varðandi þau lög sem hér er verið að leggja til breytingu á kvað á um. Reglugerðin skuldbatt í rauninni þá sem gætu framkvæmt þetta, hefðu möguleika á því, og viðkomandi veitur til þess að gefa þar um upplýsingar og gerðu ráð fyrir því að menn misstu innan tiltekins tíma þennan styrk til að létta olíuhitunina. Um það leyti sem ríkisstjórn dr. Gunnars Thoroddsens fór frá hafði loks tekist eftir mikla fyrirhöfn að fá um það upplýsingar frá Rafmagnsveitum ríkisins og Orkubúi Vestfjarða hvar væri á þeirra veitusvæðum hægt að breyta frá olíuhitun yfir á rafhitun. Það var held ég eitt síðasta málsgagnið sem ég lagði fram í þeirri ríkisstjórn, upplýsingar um þetta efni, og þeim var raunar haldið til haga sem fskj. með þáltill. um jöfnun og lækkun hitunarkostnaðar sem ég hef flutt tvisvar ásamt flestum þm. Alþb. í hv. Sþ. Þar er að finna þetta yfirlit og það lá þá fyrir að mati þessara aðila að fyrir árslok 1983 væri tæknilega hægt að breyta hjá 80% þeirra íbúðareigenda sem höfðu olíukyndingu yfir á rafhitun. Það kom raunar fram að allmikil brögð væru að því að menn hefðu hvort tveggja, nytu niðurgreiddrar rafhitunar og einnig olíustyrks, en vissulega hafa sumir þannig blandað kerfi sér til hagsbóta.

Ég ætla ekki að orðlengja þetta frekar að þessu leyti, en bendi á að mjög hægt hefur gengið í þessum málum síðan, miklu hægar en tæknileg tök hefðu verið á, og ég tel að það hefði verið skynsamlegt að hverfa að því ráði mjög ákveðið að taka upp beinar styrkveitingar til þess að örva þessa breytingu, en nú hygg ég að samkvæmt reglum um orkusparnaðarlán sé um lánveitingar að ræða og e. t. v. ekki nógu hvetjandi. En allt er það til bóta sem fram miðar í þessum efnum. Og það sem hæstv. ráðh. sagði hér um þetta, að til stæði að koma á skiptum hjá 1000 íbúðareigendum og 1000 á næsta ári og þá væru menn væntanlega komnir langleiðina í þessu sjálfsagða verki að hagnýta okkar innlendu orkugjafa, rafmagnið og jarðvarmann, hvarvetna þar sem það er hægt til upphitunar íbúðarhúsnæðis, þetta er auðvitað þeim mun sjálfsagðara mál þegar ástandið er nú eins og menn þekkja í okkar raforkukerfi að þar er yfirfljótandi af orku og þess vegna þjóðhagslega séð hægt að gefa mönnum hana og hverfa frá olíunni, gefa mönnum hana tímabundið ef það mætti verða til þess að greiða fyrir þessari breytingu. Ég er nú ekki með beinar tillögur um það efni.

Ég vil svo nefna það hér í tengslum við þetta frv. að það er um ár, rétt rúmt ár, síðan hæstv. iðnrh. lagði fram í þinginu, raunar í hv. Ed., frv. um jöfnun og lækkun hitunarkostnaðar. Það sofnaði með samkomulagi allra aðila í iðnn. Ed., þar sem nm. þar töldu að það frv. horfði til engra bóta og skilaði ekki þeim markmiðum sem fyrirheit höfðu verið gefin um af ríkisstj. um jöfnun og lækkun húshitunarkostnaðar, og nefndin skoraði á hæstv. ráðh. og sendi honum sérstakt erindi þar sem óskað var eftir því að hann léti yfirfara þetta frv. og sæi til þess að það kæmi með breytingum til þingsins að hausti. Af því hefur síðan ekkert frést. Raunar er öll þessi saga í sambandi við fyrirheitin um jöfnun og lækkun húshitunarkostnaðar orðin dálítið kynleg svo að ekki sé meira sagt. Þau mál hafa verið rædd hér einkum í tengslum við fjárlagaafgreiðslu nú um tveggja ára skeið og ég ætla ekki að fara að bæta í það orðasafn. Þar liggja fyrir margar staðreyndir varðandi þetta mál og m. a. orð hæstv. iðnrh. í sambandi við það að honum þyki að miður hafi gengið en hann vonaði, miklu skemmra en hann vonaði, og hann hefur greint sjálfur frá ágreiningi sem uppi hefur verið í röðum ríkisstjórnarflokkanna í sambandi við þetta mál. Það hefur einnig gert þingbróðir okkar, hv. þm. Egill Jónsson, nýlega í Ed., að ég hef séð í umræðuþætti Alþingistíðinda, svo að þetta hefur einnig verið þar á dagskrá og er það raunar ekki að undra.

En ég tel sem sagt, herra forseti, að þetta frv. horfi til réttrar áttar, hafði sjálfur staðið að sams konar tillögu 1980 þótt ég fengi því þá ekki framgengt.