03.05.1985
Neðri deild: 63. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4783 í B-deild Alþingistíðinda. (4034)

364. mál, jöfnun og lækkun hitunarkostnaðar

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Það er vitað að Helga Þórðardóttir skipaði þriðja sæti á framboðslista Alþb. í Norðurl. v. 1974 og í ljósi þess er það þeim mun athyglisverðara að hún hefur nú tekið upp bréfaskriftir við hæstv. iðnrh., en látið hjá líða að senda fyrrv. iðnrh. nein bréf.

En ég ætlaði að varpa fram til iðnrh. einni spurningu þar sem umræða um jöfnun og lækkun húshitunarkostnaðar er á dagskrá. Ég er sammála efni frv., að það sé eðlilegt að þetta heyri allt undir eitt rn., en framkvæmd þeirra laga sem í gildi eru á að vera á þann veg að hver sveitarstjórn fari yfir íbúafjölda, merki við hverjir fái olíustyrk og sendi svo þær merkingar suður. Jafnframt er ætlast til þess að orkufyrirtæki það sem selur á viðkomandi svæði, hvort sem það eru Rafmagnsveitur ríkisins og Orkubú Vestfjarða eða einhver annar aðili, veiti einnig hliðstæðar upplýsingar. Hafi þetta verið trassað eða vísvitandi falsað hefur að sjálfsögðu verið auðvelt að fara í kringum þetta kerfi, en það byggist engu að síður á því að tveir aðilar verða að hafa brugðist þeim trúnaði sem var sýndur.

Það sem ég ætlaði að gera að umræðuefni er hvað liði framkvæmd þess að fá hlutlausa úttekt á því hver sé ástæðan fyrir hinu háa orkuverði á Íslandi. Það er hvimleitt að hlusta á núv. hæstv. iðnrh. og fyrrv. iðnrh. kasta þessum bolta á milli sín, en sannleikurinn er sá að alþýðu þessa lands er selt rafmagn á hæsta hugsanlega verði. Ef raforka yrði hækkuð verulega frá því sem hún er núna mundi það einfaldlega leiða til þess að menn mundu færa sig yfir í aðra orkugjafa. Á því verði er búið að selja raforkuna að undanförnu og það hlýtur að vera eðlilegt í þessari umræðu að leita eftir upplýsingum um hvað líði þeirri framkvæmd, að fá upplýst hver er ástæðan fyrir hinu gífurlega háa raforkuverði á Íslandi.