03.05.1985
Neðri deild: 63. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4784 í B-deild Alþingistíðinda. (4037)

463. mál, kosningar til Alþingis

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Ég fylgi hér úr hlaði frv. til l. til breytinga á lögum um kosningar til Alþingis á þskj. 784.

Á síðasta þingi voru samþykkt lög um breytingar á kosningalögum. Voru lögin samþykkt í kjölfar breytinga á stjórnarskránni þar sem m. a. var breytt ákvæðum um skiptingu þingsæta milli kjördæma og kosningaraldur lækkaður. Frv. að lögum þessum var flutt af formönnum fjögurra stjórnmálaflokka og var það samþykkt nánast óbreytt.

Við meðferð þess frv. í þingnefnd var af hálfu dómsmrn. komið á framfæri við okkur aths. og ábendingum varðandi efni frv., þó ekki reiknireglur. Einnig var þar um að ræða ábendingar um lagtæringar á nokkrum atriðum í kosningalögum og ábendingar um atriði sem æskilegt væri að breyta eða ástæða til að athuga nánar.

Þessar aths. og ábendingar voru skoðaðar af þingnefnd og fulltrúum þingflokka og var gengið frá tillögum um breytingar á frv. Ekki vannst þó tími á þinginu til að afgreiða þessar tillögur úr nefnd, en gert var ráð fyrir að þær yrðu lagðar fyrir Alþingi þegar það kæmi saman að nýju. Er þetta frv. í samræmi við þær tillögur sem þannig voru undirbúnar.

Ég tel naumast þörf á að rekja brtt. við frv. Þær eru flestar lagtæringar til samræmis við breytingar sem samþykktar voru í fyrra eða til nánari glöggvunar, m. a. með tilliti til endurútgáfu laganna. Rétt er þó að nefna nokkur atriði.

Lagt er til að kosningarréttur þeirra sem ekki eiga lögheimili í landinu en hafa átt það á síðustu fjórum árum reiknist frá 1. des. næstum fyrir kjördag, en kjörskrárgerð er að öðru leyti miðuð við 1. des.

Lagt er til að framboðsfrestur renni út fjórum vikum fyrir kjördag í stað þremur vikum og þremur dögum eins og ákveðið var í fyrra. En það er gert til að unnt verði að lengja þann tíma sem kjósendur geta greitt atkv. utan kjörfundar. Er lagt til að sá tími verði fastákveðinn þrjár vikur, en skv. lögunum frá í fyrra getur hann farið niður í tvær vikur. Við þetta styttist í eina viku sá tími sem yfirkjörstjórnum og landskjörstjórnum er ætlað til að fjalla um framboð.

Þá er slakað á skilyrðum fyrir því að kjósandi megi greiða atkv. utan kjörfundar. Er lagt til að nægi að kjósandi geri ráð fyrir því að geta ekki sótt kjörfund á kjördegi þar sem hann er á kjörskrá.

Einnig er breytt ákvæðum er varða það atvik ef ráðgerð forföll reynast ekki fyrir hendi á kjördegi. Frv. þetta fjallar eins og áður sagði fyrst og fremst um lagfæringar á ýmsum ákvæðum kosningalaganna til samræmis við breytingar þær sem samþykktar voru á síðasta þingi. Frv. fjallar hins vegar ekki um reiknireglur laganna. Eru með frv. ekki lagðar til breytingar á þeirri aðferð sem samþykkt var á síðasta þingi. Rétt er þó að taka fram að við athugun á frv. komu fram ábendingar um að þörf væri að lagtæra ágalla á ákvæðum frv. að þessu leyti, miðað við þá reikniaðferð sem á var byggt. Við meðferð kosningalagafrv. á síðasta þingi kom skýrt fram að talið var að umfjöllun málsins væri ekki lokið. Samráð hafði verið haft við sérfræðinga um ýmsar breytingar sem til greina gátu komið og voru ræddar. Frv. var hins vegar byggt á samkomulagi fjögurra stjórnmálaflokka á þinginu árið áður og efnislegum breytingum varð ekki við komið þar sem samkomulag náðist ekki. Því var hins vegar lýst yfir í nál. í báðum þingdeildum að unnið yrði áfram að málinu milli þinga og niðurstöður lagðar fram á þessu þingi. Það var vegna þessarar yfirlýsingar sem dráttur hefur orðið á að þetta frv. væri lagt fram á þessu þingi þar sem þess var vænst að einhver niðurstaða yrði af fyrrnefndum yfirlýsingum.

Þá vannst á síðasta þingi ekki heldur tími til að ræða til þrautar tilhögun persónukjörs og var gert ráð fyrir að það yrði rætt með sama hætti milli þinga. Af þessum ástæðum var frv., sem þá var fyrir þinginu, samþykkt óbreytt.

Herra forseti. Frv. þetta fjallar um breytingar á ýmsum ákvæðum kosningalaganna. Ljóst er að í tengslum við athugun þess er líklegt, eins og fram kom við meðferð kosningalagafrv. á síðasta þingi, að önnur atriði kosningalaganna verði tekin til frekari skoðunar, þ. á m. sjálfar reiknireglurnar. Af þeirri ástæðu tel ég rétt að leggja til að kosin verði sérstök þingnefnd til að fjalla um frv. og önnur atriði kosningalaganna sem þar kunna að koma fram og að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og þeirrar nefndar.