03.05.1985
Neðri deild: 63. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4793 í B-deild Alþingistíðinda. (4043)

424. mál, erfðalög

Frsm. (Gunnar G. Schram):

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. sérstaklega. Ég held að það þjóni ekki miklum tilgangi á þessari stundu að fara að ræða um frv. efnislega. Ég vil hins vegar minna á að meiri hl. allshn., þó að hann væri algjörlega andvígur upprunalega frv., gekk mjög til móts við flm. þess og þau sjónarmið sem þar komu fram, eins og frv. sem hér liggur fyrir sýnir.

Þar er opnuð greið leið fyrir eftirlifandi maka til áframhaldandi setu í óskiptu búi. Hér hefur af báðum síðustu hv. ræðumönnum verið lögð sérstök áhersla á það réttlætisatriði sem slík seta getur verið. Það hefur hins vegar ekki verið undirstrikað nema af hv. 5. þm. Vestf. Ólafi Þ. Þórðarsyni að það eru fleiri hliðar á þessu máli sem alveg ástæðulaust er að ganga á svig við. Það eru hagsmunir barnanna. Vitanlega eru mál ætíð einstaklingsbundin, en það gefur auga leið að það geta verið miklum mun ríkari og meiri hagsmunir barnanna að fá erfðahlut sinn leystan úr búinu en eftirlifandi maka að sitja þar áfram. Ekki síður er fjárhagsvandi á ferðum hjá ungu fólki og yngra fólki og þörf þar á fjárhagsaðstoð, svo ekki sé talað um að þau geti heimt til sín eign sem þau eiga að lögum.

Ég ætla ekki að fjölyrða um málið efnislega. Ég vil þó lýsa algjörri andstöðu við brtt. á þskj. 740 sem er þess efnis að stjúpbörn eru svipt þeim rétti sem þau hafa skv. lögum til þess að krefjast erfðahlutar eftir kynforeldri sitt úr búinu. Stjúpfaðir eða stjúpmóðir geta m. ö. o. skv. þessari brtt. setið yfir hlut stjúpbarna sinna og meinað þeim að fá erfðahlut sinn úr búinu. Það tel ég vera hið mesta ranglætismál, enda hefur slíkt ákvæði aldrei verið í íslenskum erfðalögum.

Að lokum, herra forseti, get ég ekki látið hjá líða að andmæla sem ósönnum og fullkomlega rakalausum þeim fullyrðingum, sem komu fram í máli hv. þm. Guðrúnar Helgadóttur áðan, að ástæðan fyrir andstöðu meiri hl. allshn. gegn hinu upphaflega frv. hafi verið af tvennum toga spunninn. Í fyrsta lagi vegna þess að það var flutt af þm. stjórnarandstöðunnar og í öðru lagi vegna þess að nm. hefðu ekki kynnt sér frv. til hlítar. Hvort tveggja er alrangt.