03.05.1985
Neðri deild: 63. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4796 í B-deild Alþingistíðinda. (4050)

465. mál, skipti á dánarbúum

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um breytingu á lögum um skipti á dánarbúum og félagsbúum o. fl. sem ég flyt ásamt hv. þm. Guðmundi Einarssyni, Guðrúnu Helgadóttur og Gunnari G. Schram. Frv. þetta hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Skiptarétti er heimilt að skipta búi við slit á óvígðri sambúð. Ef sambúðarfólk verður ekki á eitt sátt um skiptin getur hvort um sig krafist þess að skiptaréttur fjalli um fjárskipti þeirra. Skiptarétti ber við skiptin að hafa hliðsjón af fjárhag aðila, hve lengi sambúð hefur staðið og öðru sem varðar hag aðila, m. a. framlagi hvors um sig til sameiginlegs heimilis á sambúðartíma með vinnu, fé til framfærslu eða á annan hátt.

Sömu reglur skulu gilda við skipti á búi sambúðarfólks við andlát annars aðilans.

Það telst óvígð sambúð skv. þessum lögum ef karl og kona stofna til sambúðar og hafa átt barn saman eða konan er þunguð af hans völdum eða ef sambúðin hefur varað samfleytt í tvö ár.“

Eins og fram kemur í grg. með þessu frv. er markmið þess að tryggja réttarstöðu fólks í óvígðri sambúð að því er snertir fjármálauppgjör við slit á óvígðri sambúð. Eins og nú er vantar alla lagavernd við slit á óvígðri sambúð og því hafa oft risið upp mörg vandasöm ágreiningsmál, ekki síst við fjármálauppgjör, við slit á óvígðri sambúð.

Fjöldi þeirra sem kjósa að búa í óvígðri sambúð hefur vaxið ár frá ári og nú er svo komið að fjöldi þeirra sem eru í óvígðri sambúð er 10 594. Sá fjöldi er efalítið mun meiri því að hér er einungis um að ræða óvígða sambúð sem skráð er hjá Hagstofu Íslands, en þar kemur fram að í ársvinnslu þjóðskrár 1980 og síðar hefur ný sambúð ekki verið skráð nema það lægi fyrir að hlutaðeigandi ættu barn saman eða tekið væri fram í aðsetursskiptatilkynningu að um óvígða sambúð væri að ræða.

Í erindi sem Guðrún Erlendsdóttir dósent flutti á fundi Dómarafélags Íslands í október 1984 kemur fram að þingfest mál varðandi fjárskipti við slit óvígðrar sambúðar í bæjarþingi Reykjavíkur voru milli 80 og 90 árið 1982 og milli 90 og 100 á árinu 1983. Þessar tölur sýna ljóslega hvað brýnt er að tryggja með lögum réttarstöðu fólks við fjármálauppgjör ef til slita á óvígðri sambúð kemur.

Alþingi hefur áður látið þetta mál til sín taka, en það var á árinu 1980. Þá var lögð fram þáltill. af þm. Alþfl. um réttarstöðu fólks í óvígðri sambúð. Þessi þáltill. var samþykkt í febrúar 1981 og hljóðaði svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að láta nú þegar fara fram könnun á réttarstöðu fólks í óvígðri sambúð. Í því skyni skipi viðkomandi ráðh. nefnd er geri tillögur um hvernig réttindum þess verði best fyrir komið, sérstaklega með tilliti til eigna og eignaréttar. Nefndin skal hraða störfum svo sem kostur er og skila álitsgerð og tillögum áður en næsta reglulegt Alþingi kemur saman.“

Þó að fimm ár séu liðin frá samþykkt þessarar till. situr allt við það sama í þessu hagsmunamáli fólks í óvígðri sambúð. Tvívegis hefur hér á hv. Alþingi verið spurst fyrir um framkvæmd þessarar þáltill., en ljóst er af svörum ráðh. við þeim fsp. að lítið virðist þoka til að tryggja réttarstöðu fólks í óvígðri sambúð.

Til þess er vísað að málefni fólks í óvígðri sambúð hafi verið til meðferðar í laganefndum, bæði á Norðurlöndum og innan Evrópuráðs. Hefur norræna sifjalaganefndin, sem Ísland á aðild að, m. a. haft viðfangsefnið til meðferðar. Þó ekki liggi fyrir sameiginleg niðurstaða þessarar norrænu sifjalaganefndar er engu að síður ljóst að sum Norðurlandanna hafi stigið ákveðið skref til að tryggja réttarstöðu fólks í óvígðri sambúð að því er fjármálauppgjör varðar. Norrænar sifjalaganefndir, bæði í Danmörku og Noregi, hafa lagt til svipaða leið og þetta frv. gerir ráð fyrir, þ. e. að skiptarétti sé heimilt að skipta búi við slit á óvígðri sambúð, og liggur frv. um það fyrir sænska þinginu.

Ég tel, herra forseti, að ekki þurfi að fara um það mörgum orðum hve brýnt er að Alþingi taki á þessu máli og að löggjöf verði um það sett með hvaða hætti fjármálauppgjör við slit á óvígðri sambúð skuli vera. Ég vil, með leyfi forseta, vitna í stuttan kafla í grg. með þessu frv. þar sem glögglega kemur fram hvernig framkvæmdin hefur verið á þessu og hve brýnt er orðið að Alþingi taki af skarið með löggjöf í þessu máli. Þar segir, með leyfi forseta:

„Eignamyndun er oftast sameiginlegt framlag beggja sambúðaraðila, ýmist beint, t. d. þegar bæði hafa haft atvinnutekjur, eða þá óbeint þegar kona vinnur á heimili og stuðlar þannig að bættri aðstöðu karlmannsins til tekjuöflunar.

Nefna má að stundum stendur sambúð svo áratugum skiptir og allar eignir búsins hafa orðið til á þeim tíma. Ef um eignamyndun í húsnæði er að ræða á sambúðartímanum geta risið upp mikil vandamál við sambúðarslit þegar aðeins annar aðilinn er skráður eigandi fasteigna. Í hæstaréttardómum má sjá að oft hefur verið farin sú leið, til að draga úr mesta óréttlætinu, að dæma konunni þóknun fyrir störf hennar í þágu heimilisins. Það liggur þó í augum uppi, ef eignamyndun hefur verið mikil á sambúðartímanum, að slík þóknun getur verið hverfandi í samanburði við eignirnar. Hin síðari ár hefur þó niðurstaða dómstóla um slit óvígðrar sambúðar í auknum mæli verið sú til að koma í veg fyrir ósanngjarna niðurstöðu, að farið er að dæma um hlutdeild í eignamyndun á sambúðartímanum eða viðurkenna sameign aðila. Með þeirri stefnubreytingu er að nokkru leyti tekið tillit til framlags beggja til eignamyndunar sem orðið hefur á sambúðartímanum. Ljóst er þó að dómstólaleiðin er bæði erfið, dýr og oft seinvirk. Það getur því tekið nokkur ár að fá niðurstöðu um fjárskipti við slit á óvígðri sambúð. Með þeirri leið, sem hér er lögð til í þessu frv., — að skiptarétti verði heimilt að skipta búi sambúðarfólks, — yrði komið í veg fyrir löng og erfið málaferli fyrir almennum dómstólum.“

Herra forseti. Það er skoðun flm. þessa frv. að mikið sé í húfi og að Alþingi eigi að taka þegar af skarið til að tryggja eignarrétt í óvígðri sambúð. Verði skiptarétti heimilt að skipta búi sambúðarfólks yrði hvort tveggja í senn hægt að koma í veg fyrir þann málarekstur sem oft verður við slit á óvígðri sambúð og — það sem ekki er minna um vert — að hindra að annar sambúðaraðilinn verði fyrir miklu fjárhagslegu tjóni þegar upp úr sambúð slitnar.

Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa orð mín fleiri við 1. umr. um þetta mál, en vil leyfa mér að benda hv. þm. á þau fskj. sem fylgja með þessu frv., sem ég tel að séu mjög gagnleg aflestrar fyrir þá sem vilja kynna sér betur þetta mál. Það er í fyrsta lagi útdráttur úr grein í Tímariti lögfræðinga frá 1981, en það er erindi Guðrúnar Erlendsdóttur dósents um fjármál hjóna og sambúðarfólks. Er greint frá norrænni samvinnu á þessu sviði og umfjöllun dönsku og norsku sifjalaganefndarinnar um þetta mál svo og dómum um sameign. Sérstaklega skal bent á álit dönsku sifjalaganefndarinnar sem telur mikilvægt að fjárskipti við slit óvígðrar sambúðar geti komið fyrir skiptarétt. Að auki vil ég benda sérstaklega á kafla í fskj. með frv. sem ber heitið „Er þörf á lagareglum um fjármál sambúðarfólks?“ Þar kemur fram sú skoðun Guðrúnar Erlendsdóttur dósents, sem á sæti í íslensku sifjalaganefndinni, að hún telur nauðsyn að breyta skiptalögum á þann veg að skiptaréttur geti skipt búi sambúðarfólks.

Herra forseti. Að lokinni þessari umr. óska ég eftir að málinu verði vísað til hv. allshn.