03.05.1985
Neðri deild: 63. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4799 í B-deild Alþingistíðinda. (4054)

77. mál, byggingarlög

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Flm. þessa frv. eru hv. þm. Guðrún Helgadóttir, Kristín Halldórsdóttir og Kristófer Már Kristinsson. Þetta frv. var sent nokkuð mörgum aðilum til umsagnar og eins og ég mun hér rekja voru flestir sem um frv. fjölluðu því andvígir. Nefndin fjallaði um málið á nokkuð mörgum fundum.

Stjórn sambands ísl. sveitarfélaga sendi t. d. eftirfarandi umsögn um málið:

„Stjórnin hefur kynnt sér frv. og mælir ekki með samþykkt þess. Þótt vitanlega sé æskilegt að gengið sé fljótt frá lóðum umhverfis byggingar þá telur stjórnin að frv. komi þar ekki að gagni.“

Í umsögn skipulagsstjóra ríkisins segir m. a. að þegar lögin voru samin hafi menn verið sammála um að byggingarlög skyldu vera stuttorð og gagnorð rammalög en síðan yrðu öll minni háttar atriði sett í byggingarreglugerð. Niðurstaðan hafi því orðið sú að sjálf byggingarlögin eru aðeins 8 bls. og geyma aðeins þau ákvæði sem óhjákvæmilegt þótti að lögfesta. Byggingarreglugerðin er aftur á móti um 50 bls. og í henni eru m. a. ýmis ákvæði sem ekki var talið að þyrftu að vera í lögunum sjálfum.

Enn fremur segir skipulagsstjóri ríkisins:

„Það frv., sem þér hafið sent mér til umsagnar, virðist ekki þess eðlis að það eigi heima í byggingarlögum. Miklu fremur ættu þessi ákvæði heima í reglugerð.“

Það kemur fram í umsögn skipulagsstjóra að 4. gr. geti vart staðist. Hugsanlegt væri að setja ákvæði þessu líkt í byggingarreglugerð á Reykjavíkursvæðinu en það er eina svæðið þar sem landslagsarkitektar finnast hér á landi. — Í heild leggst skipulagsstjóri ríkisins eindregið gegn því að þessi ákvæði verði tekin inn í byggingarlög.

Vinnuveitendasamband Íslands segir í umsögn sinni: „Vinnuveitendasamband Íslands mótmælir því mjög ákveðið að sérstakar hömlur séu með löggjöf lagðar á byggingu atvinnuhúsnæðis.“

Vinnuveitendasambandið mótmælir þeim áformum, sem í frv. felast, að veita fámennum hópi manna einkarétt til þess að ákveða hvernig haga skuli fyrir

komulagi á lóðum atvinnufyrirtækja og stofnana. Sérþekking á þessu sviði standi forsvarsmönnum atvinnufyrirtækja og stofnana þegar til boða og ekki verði séð hvaða nauðsyn er á að tryggja umræddum aðilum einokunaraðstöðu hvað varðar skipulagningu og frágang lóða atvinnufyrirtækja og stofnana.

Enn fremur segir Vinnuveitendasambandið í umsögn sinni:

„Að endingu skal á það bent að frv. þetta er óskýrt í ýmsum mikilvægum atriðum er augljóslega hlytu að leiða til vandkvæða í framkvæmd ef að lögum yrðu. Þá er einnig ljóst að frv. þetta skerðir stórlega atvinnumöguleika fjölmennra starfstétta, svo sem garðyrkjumanna og verkafólks, og að auki skerðir það eðlilegt forræði atvinnufyrirtækja á því hvernig nýtingu lóða þeirra og lands er háttað.“

Mælir Vinnuveitendasamband Íslands eindregið gegn samþykkt frv.

Verslunarráð Íslands fékk frv. til umsagnar og bendir á “að samþykkt þessa frv. hefði í för með sér óeðlilegar hömlur á byggingu atvinnuhúsnæðis. Er það því andvígt samþykkt þessa frv.“

M. a. með skírskotun til þessara umsagna er það skoðun nefndarinnar að ekki beri að lögfesta ákvæði frv.

Nefndin telur þó að þau efnisatriði, sem fram koma í 1. og 2. gr. frv. og kveða á um ítarlegri ákvæði til að tryggja að frá lóð verði gengið svo fljótt sem kostur er og aðrar framkvæmdir leyfa, þurfi hugsanlega að taka til sérstakrar athugunar í því skyni að tryggja að skýrari ákvæði um frágang lóða við opinberar stofnanir og atvinnufyrirtæki verði sett í reglugerð.

Með vísan til þess sem fram hefur komið leggur nefndin til að frv. verði vísað til ríkisstj.

Undir þetta skrifa Friðrik Sophusson, Jóhanna Sigurðardóttir, Stefán Valgeirsson, Guðmundur J. Guðmundsson, Stefán Guðmundsson, Eggert Haukdal og Halldór Blöndal með fyrirvara.