03.05.1985
Neðri deild: 63. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4800 í B-deild Alþingistíðinda. (4055)

77. mál, byggingarlög

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Nál. það sem hér liggur fyrir á þsk,1 . 748 er svo langt frá því að vera sæmandi Alþingi Íslendinga að undrum sætir. Vitnað er í umsagnir sem ýmist eru svo illa unnar og óvandaðar að þær eru bein móðgun fyrir hið háa Alþingi eða svo augljóslega hlutdrægar þeim meinta hagsmunaaðila, þ. e. atvinnurekendum og ríkisvaldi, að umsögn er ekki marktæk. Nefndin ákveður síðan að fara að ráðum þessara umsagnaraðila, sem vilja vísa málinu frá, en samt sem áður segir nefndin að lokum, með leyfi forseta, því ég held að hv. frsm. hafi ekki lesið það atriði nál.:

„Nefndin telur þó að þau efnisatriði, sem fram koma í 1. og 2. gr. frv. og kveða á um ítarlegri ákvæði til að tryggja að frá lóð verði gengið svo fljótt sem kostur er og aðrar framkvæmdir leyfa, þurfi hugsanlega að taka til sérstakrar athugunar í því skyni að tryggja að skýrari ákvæði um frágang lóða við opinberar stofnanir og atvinnufyrirtæki verði sett í reglugerð.“

Þar hefur þó nefndin ályktað að kannske sé þetta frv. ekki alveg út í hött.

Byggingarreglugerð gerir umhverfismálum lítil skil. Í byggingarlögum frá 1978 segir ekki annað um frágang lóða en að um hann skuli vera ákvæði í byggingarreglugerð. Í henni, en hún er alls 49 bls. í Stjórnartíðindum, er þetta að finna, með leyfi forseta, um frágang lóða.

„5.12. Frágangur lóða.

5.12.1. Skylt er byggjanda að setja lóð hússins í rétta hæð og fjarlægja þann uppgröft, sem ekki þarf til jöfnunar lóðar, eigi síðar en húsið er fokhelt.

5.12.2. Skylt er húseiganda að ganga snyrtilega frá lóð sinni með gróðri eða á annan hátt í samræmi við samþykktar teikningar.

5.12.3. Ef nefndin telur að hæðarlega og frágangur lóðar sé óviðunandi, eða hætta, óþrifnaðar eða óþægindi stafi af, og eigandi sinnir ekki áskorun nefndarinnar um úrbætur, getur hún látið framkvæma á hans kostnað þær úrbætur er hún telur nauðsynlegar.

5.12.4. Ef gróður á lóð veldur óþægindum eða hættu fyrir umferð getur byggingarnefnd krafist þess, að hann sé fjarlægður, eftir því sem með þarf. Sama gildir ef gróður veldur óþægindum með því að skerða verulega birtu í íbúð eða á lóð. Óheimilt er að breyta gróinni lóð í bílastæði nema að fengnu samþykki byggingarnefndar. Ekki má fella tré sem eru 40 ára eða eldri eða 4 metrar á hæð eða hærri nema með leyfi byggingarnefndar.“

Þetta er það sem 49 bls. byggingarreglugerð segir um umhverfi húsa. Og eftir þessum ákvæðum er sjaldnast farið eins og alkunna er. Frv. okkar flm. er til þess flutt að skylda þá sem fá oft verðmætar lóðir undir fyrirtæki sín á sem bestum stað í byggðarlagi til að ganga frá lóðum þessara fyrirtækja. Slíkt ætti auðvitað að vera sjálfsögð tillitssemi við samborgarana en langt er frá að sú tillitssemi sé okkur sýnd. Þvert á móti hirða fæstir þessara húsbyggjenda hætis hót um að ganga svo frá umhverfinu að sæmandi sé. Þetta telur hv. félmn. óþarft að lagtæra. Og lítum nú á með hvaða rökum.

Umsögn sambands ísl. sveitarfélaga, sem hv. frsm. nál. las hér, hljóðar svo:

„Stjórnin hefur kynnt sér frv. og mælir ekki með samþykkt þess. Þótt vitanlega sé æskilegt að gengið sé fljótt frá lóðum umhverfis byggingar þá telur stjórnin að frv. komi þar ekki að gagni.

Þetta tilkynnist hv. þingdeildarnefnd hér með.

Virðingarfyllst. Magnús E. Guðjónsson, framkvæmdastjóri.“

Eru þetta rök? Er þetta umsögn um þingmál? Umsögn á borð við þetta er einber ókurteisi við Alþingi og ekki birtingarhæf í þskj. Tali framkvæmdastjórinn hér fyrir hönd stjórnarinnar, sem full ástæða er til að efast um þar sem engin rök fylgja afstöðu hennar, ætti umræddur framkvæmdastjóri að undirbúa mál, sem lögð eru fyrir stjórnina, betur.

Þess má reyndar geta að Magnús E. Guðjónsson var sjálfur í nefndinni sem samdi byggingarlögin. Nefndin hefur e. f. v. ekki vitað það og það er hin raunverulega ástæða fyrir afstöðu „stjórnarinnar“. Þvílíkt grín — og eftir þessu dansar hv. félmn.

Skipulag ríkisins fékk málið til umsagnar. Zóphónías Pálsson skipulagsstjóri leggst gegn frv. en telur að flest atriði þess ættu að koma inn í reglugerð. Hann leggur mesta áherslu á að landslagsarkitektar fái einkarétt á að gera uppdrætti að umræddum lóðum. Í frv. er ekkert sem gerir ráð fyrir því, hafi skipulagsstjóri nennt að lesa frv. Þau rök hans eru því ruglið eitt. 3. gr. frv. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Rétt til að gera uppdrætti af lóðum óopinberra stofnana, annarra þjónustustofnana og atvinnufyrirtækja, sbr. síðasta málsl. 11. gr., hafa landslagsarkitektar eða aðrir þeir sem sérmenntun hafa í garðyrkju og skógrækt fáist ekki landslagsarkitekt til starfans.“

Mér er fullkunnugt um að það eru einungis til 11 menntaðir landslagsarkitektar í landinu, aðrir 11 að vísu erlendis við nám. Skipulagsstjóri bendir á að landslagsarkitektar finnist einungis á Reykjavíkursvæðinu og þess vegna geti þeir ekki áritað uppdrætti að lóðum nema í Reykjavík. Víst er samgöngukerfi landsmanna ekki eins og það gæti best verið, en dæmi eru um að reykvískir arkitektar hafi teiknað hús utan Reykjavíkur. En þetta eru rök að skapi hv. félmn. Í nál. er þó mest mark tekið á umsögn Vinnuveitendasambandsins. Fyrstu rökin sem nefndin grípur til í álitinu hljóða svo, með leyfi forseta:

„Vinnuveitendasamband Íslands mótmælir því mjög ákveðið að sérstakar hömlur séu með löggjöf lagðar á byggingu atvinnuhúsnæðis.“

Vinnuveitendasambandið mótmælir þeim áformum, sem í frv. felast, að veita fámennum hópi manna einkarétt til þess að ákveða hvernig haga skuli fyrirkomulagi á lóðum atvinnufyrirtækja og stofnana. Sérþekking á þessu sviði standi forsvarsmönnum atvinnufyrirtækja og stofnana þegar til boða og ekki verði séð hvaða nauðsyn er á að tryggja umræddum aðilum einokunaraðstöðu hvað varðar skipulagningu og frágang lóða atvinnufyrirtækja og stofnana.“

Þetta er bull, herra framsögumaður hv. félmn. (Gripið fram í.) Þetta er hreint bull. Í fyrsta lagi lítur nú ekki umhverfi atvinnufyrirtækja svo út að þeir ráði yfir mörgum mönnum með sérþekkingu og í öðru lagi er ekkert í frv. sem krefst þess. Því síður einokunarrétt. En Vinnuveitendasamband Íslands mælir eindregið gegn samþykkt frv.

Verslunarráð Íslands fékk frv. til umsagnar og bendir á „að samþykkt þessa frv. hefði í för með sér óeðlilegar hömlur á byggingu atvinnuhúsnæðis. Er það því andvígt samþykkt þessa frv.“

Í grg. segir: „M. a. með skírskotun til þessara umsagna er það skoðun nefndarinnar að ekki beri að lögfesta ákvæði frv.“

Þess skal þó getið að Samband ísl. samvinnufélaga rekur teiknistofu og þar er ekki talin ástæða til athugasemda við frv. Óli Hertervig á teiknistofu Sambandsins veit eflaust allt of vel um þann subbuskap sem viðgengst umhverfis atvinnufyrirtæki og opinberar stofnanir um allf land.

Afgreiðsla þessa frv. er dæmigerð um slæleg og óvirðuleg vinnubrögð Alþingis. Frv. þetta er til þess flutt að opinberar stofnanir og atvinnufyrirtæki séu skyldaðar til að ganga þannig frá umhverfi sínu að til ánægju sé fyrir samborgarana. Byggingarreglugerðin tryggir þetta atriði augljóslega ekki og því þótti flm. rétt að setja þetta atriði inn í sjálf lögin. Og til þess er Alþingi að setja lög þó að mestur tími þess fari í skammtímaúrlausnir og pólitískt pex. Formlega er ekkert við þetta frv. að athuga og því er óskiljanlegt að ekki skyldi vera hægt að samþykkja það. Illa trúi ég því að svo standi nú á að þingið skipi eingöngu hirðulausir menn um umhverfi sitt. (Gripið fram í: Er nefndin sammála um þetta?) Nefndin er sammála um það nál. sem hér var lesið.

Ég gat þess í framsöguræðu minni að vel kynni svo að fara að starfsheiti þeirra manna sem sérstaklega hafa lært til garðyrkju og skipulags stæði frv. fyrir þrifum.

Orðið landslagsarkitekt er óttalegt orðskrípi, það er aldeilis rétt. En nám þessa fólks kemur að miklu gagni og tekur á engan hátt fram fyrir hendur garðyrkjufólks eða verkafólks. Það bætir skipulagskunnátta þeirra einungis við þekkingu á garðrækt og ég hef aldrei heyrt að garðyrkjufólk kvartaði yfir samvinnu við landslagsarkitekta, því síður verkafólk. (Gripið fram í: Skrifaði fulltrúi Alþb. undir nál?) En formaður Verkamannasambandsins getur eflaust skýrt þessar áhyggjur Vinnuveitendasambandsins nánar. Það er sorglegt til þess að vita að fordómar á borð við þetta ráði úrslitum mála á hinu háa Alþingi. Það er ekki að undra þó æska landsins, fólk 18–25 ára, kjósi ekki gömlu flokkana lengur. Mikið skil ég það. Og það er sannarlega þversagnakennt að þekking einstakra hópa, sem margra ára háskólanám stendur að baki, skuli valda hv. þm. hugarangri, einkum er þeir hyggjast jafnframt gera íslenska þekkingu og hugvit að útflutningsvöru, en fordómar byggjast ævinlega á vanþekkingu. Og afgreiðsla nefndarinnar ber öll merki hennar. Í stað þess að nefndin skoði málið sjálf og taki afstöðu er frv. fleygt til aðila sem hvorki vilja, nenna né geta kynnt sér það. Og á grundvelli beinlínis heimskulegra umsagna hefur nú nefndin tekið afstöðu. Þessi vinnubrögð harma ég, ekki síst fulltrúa Alþb. í nefndinni.

En þm. geta enn bjargað þessu frv. sem ég er viss um að engin getur verið andvígur sé málið skoðað. Út um allt land getur að líta óþrif og sóðaskap kringum annað hvert atvinnufyrirtæki í landinu. Þetta vita menn og enginn þm. getur haft á móti því að úr þessu sé bætt. Hæstv. félmrh. veit mætavel að þó að hann veifi allri byggingarreglugerðinni, 49 bls., þá hefur honum ekki hingað til tekist að fá menn til að fara að ákvæðum hennar.

Ég vil minna hæstv. félmrh. á, eins og ég hef gert áður, að aðgengi að opinberum fyrirtækjum og atvinnufyrirtækjum, hvort sem þau eru í einkaeign eða ríkisins, skiptir t. d. fatlaða ekki litlu máli. Það er einfaldlega auðveldara fyrir alla samborgara að koma að húsum ef umhverfi þeirra er sæmilega hirt. Eins og ég hef áður sagt hér í þingræðu: Aðlaðandi aðgengi fyrir fatlaða er aðlaðandi aðgengi fyrir okkur öll. Það eru sameiginlegir hagsmunir okkar allra.

Ég skora á hv. Nd. að hafa að engu umsagnir fyrrnefndra aðila og samþykkja frv. í stað þess að vísa því til ríkisstj. Ríkisstj. á ekki að setja lög heldur Alþingi sjálft. Alþingi getur með engu móti verið andvígt því að vinnustaðir verði gerðir manneskjulegri, að fötluðum verði gert auðveldara að komast að opinberum stofnunum, að viðskiptavinum fyrirtækja verði gert ánægjulegra að koma að þeim og að umhverfi landsmanna og umgengni við það verði bætt. Því trúi ég ekki.