03.05.1985
Neðri deild: 63. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4803 í B-deild Alþingistíðinda. (4056)

77. mál, byggingarlög

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Já, það gengur nú nokkuð mikið á. Ég kom nú bara hér upp í ræðustól til að mótmæla því, sem síðasti ræðumaður sagði, að það hefðu verið viðhöfð óvönduð vinnubrögð. Hins vegar ætlaði ég að hlífast við að hafa orð á því að það eru óvönduð vinnubrögð að flytja svona frv. eins og það er úr garði gert. Öll nefndin var sammála um það, ég vona að þm. taki eftir því, að það væri ekki hægt að lögfesta þetta frv. eins og það úr garði gert og það passaði alls ekki inn í þau byggingarlög sem eru nú í gildi. Hins vegar get ég líka upplýst það að flestir nm. voru tilbúnir að leggja það til og í raun og veru búnir að samþykkja að leggja það til að frv. yrði fellt, blátt áfram fellt. En þetta varð niðurstaðan.

Ég held að það sé sá háttur sem þingnefndir hafa og eigi að hafa að senda frv. til umsagnar. Til hvers sendum við frv. til umsagnar? Er það ekki til þess að vita hvernig menn líta á viðkomandi mál og heyra rök þeirra aðila sem best þekkja til um það málefni sem við sendum hverju sinni?

Ég þarf ekki að segja meira um þetta mál. Ég hljóp hér í skarðið fyrir formann hv. félmn. til þess að þetta frv. gæti fengið þinglega meðferð. Ég sé ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri. Ég vil aðeins endurtaka það að félmn. eyddi verulegum tíma að athuga þetta mál og allar umsagnir um það þannig að það er alveg út í hött, sem hv. 10. þm. landsk. sagði áðan, að vinnubrögðin hefðu verið óvönduð. Hins vegar tók nefndin við óvönduðu frv.