03.05.1985
Neðri deild: 63. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4806 í B-deild Alþingistíðinda. (4062)

50. mál, ríkisábyrgð á launum

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Aðeins örfá orð í sambandi við þá brtt. sem kom fram við 2. umr. á þskj. 724 frá hv. þm. Karvel Pálmasyni og fleirum. Mér þykir rétt við lok 2. umr. að skýra frá því að strax þegar þessi brtt. kom fram fór ég þess formlega á leit við Gest Jónsson lögmann, sem hefur fjallað mikið um þessi mál, að gefa mér umsögn um þessa brtt. Mér þykir hlýða að lesa álit hans hér upp.

„Efnið er brtt. Karvels Pálmasonar og fleiri við frv. til laga um ríkisábyrgð á launum.

Samkvæmt lagafrv. hljóðar b-liður 4. gr. þannig: „Ábyrgð ríkissjóðs tekur til eftirfarandi krafna í bú vinnuveitenda sem viðurkenndar hafa verið sem forgangskröfur í búið skv. 84. gr. laga nr. 3/1878, sbr. 1. gr. laga nr. 23/1979, sbr. þó 9. gr."

Og síðan er a-liður og b-liður.

„b. kröfu um orlofsfé sem fallið hefur til vegna launa launþega síðustu tólf starfsmánuði hjá vinnuveitenda, að því leyti sem það tímabil fellur innan tímamarka þeirra sem orlofsfjárkröfu fylgir forgangsréttur í búið.“

Um þennan lið er sérstaklega fjallað í grg. með frv. en þar segir:

„Skv. b-lið 4. gr. nær ríkisábyrgð til orlofsfjárkrafna sem tilkomnar eru vegna launa launþega síðustu tólf starfsmánuði hans hjá vinnuveitanda. Starfsmánuðir þessir þurfa að falla innan þeirra tímamarka að forgangsréttur fylgi kröfunni skv. lögum nr. 3/1878. Tekið skal fram að með frv. er ráðgert að einungis launþegi sjálfur geti gert kröfur skv. því. Hafi launþegi fengið greidda orlofsfjárkröfu á hendur vinnuveitanda hjá Póstgíróstofunni, án þess að vinnuveitandi hafi staðið skil á fénu til hennar, með stoð í reglugerðum nr. 150/1972 og nr. 202/1979 á Póstgíróstofan ekki tilkall til greiðslu úr ríkissjóði. Ákvæði þetta nær því aðeins til þeirra tilvika er önnur tilhögun orlofsgreiðslna hefur verið ákveðin með kjarasamningi eða á viðlíka hátt og launþegi fer sjálfur með fyrirsvar fyrir kröfu sinni.“

Fram komin brtt. er um að við b-liðinn bætist: „Ríkisábyrgðin er óháð því hver fer með kröfuna.“

Hugsanlegt er að skilja tillöguna þannig að ríkisábyrgðin sé óháð því hver fari með kröfuna, skilyrði sé einungis að launþeginn sé eigandi hennar. Sé þetta ætlun tillögumanna felst í tillögunni engin breyting á frv. og tillagan er því óþörf. Líklegra þykir mér að ætlan tillögumanna sé önnur, þ. e. sú að orlofsfjárkrafa verði tryggð með ríkisábyrgð óháð því hver sé eigandi hennar. Sé þetta ætlunin er ljóst að um meiri háttar breytingar er að ræða. Þá hlyti Póstgíróstofan, bankar eða aðrir, sem kynnu að hafa eignast orlofsfjárkröfu launþega fyrir framsal eða innlausn, ríkisábyrgð á kröfunni. sú var einmitt ekki ætlunin samkvæmt frv. samkvæmt því áttu launþegarnir einir að njóta ríkisábyrgðarinnar en ekki innheimtuaðilar orlofsfjár.

Ég vil að lokum benda á eftirfarandi atriði sem útiloka að mínu mati það að samþykkja brtt. óbreytta:

1. Upphaf og endir b-liðar 4. gr. frv. eftir framkomna brtt. stangast á. Í upphafinu er talað um kröfu launþega en í lokin skiptir eignarréttur að kröfunni ekki máli.

2. Mér þykir erfitt að samrýma brtt. ákvæði 10. gr. frv. Þar segir að við framsal kröfu glatist tiltekin réttindi. Í brtt. er þessu öfugt farið.

3. Með brtt. er dregið úr gildi skilgreiningar 3. gr. á því hvað teljist vinnulaun og njóti þar af leiðandi verndar laganna. Sé pólitískur vilji á Alþingi fyrir því að ríkið ábyrgist öðrum en launþegum kröfur á hendur gjaldþrota vinnuveitendum tel ég óhjákvæmilegt að gera aðrar breytingar á frv. en þær einar sem tillaga Karvels Pálmasonar o. fl. fjallar um.

Virðingarfyllst,

Gestur Jónsson hæstaréttarlögmaður.“

Ég taldi rétt, herra forseti, að láta þetta koma hér fram svo að það sé komið í þingtíðindi hvernig þessi brtt. snýr við þeim sem mest fjalla um þessi mál. Ég vænti þess að það skýri málið fyrir öðrum hv. þm. áður en gengið verður frá þessu frv. sem ég legg enn á ný mikla áherslu á að verði lögfest á þessu þingi.