06.05.1985
Efri deild: 64. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4811 í B-deild Alþingistíðinda. (4074)

146. mál, sjómannalög

Valdimar Indriðason:

Virðulegi forseti. Það kemur fram í nál., sem rétt er, að ég var ekki mættur á þeim fundi þegar gengið var frá þeim till. sem hér liggja fyrir um breytingar á þessu frv. Það kemur ekki til af því að ég hafi verið að víkjast undan þeirri ábyrgð að taka þar ákvörðun, heldur stóð þannig á hjá mér að ég gat ekki mætt á fundinn. Ég er sammála nm. að mestu leyti. Hins vegar er því ekki að leyna að um 36. gr. hefur mjög verið deilt allt frá því að hún var samþykkt 1980 og ég hef sömu tilfinningu fyrir því máli og ég hafði þá. Ég átti einmitt sæti á þingi sem varamaður þegar hún var samþykkt 1980.

Ég geri mér ljóst að þessu verður ekki breytt núna og mun því fallast á þá brtt. sem hér er gerð. En ég held að þarna sé ekki rétt að staðið með 36. gr. og menn ættu að gefa betur gaum þeim réttindum sem hún á að skapa þegar skipverjar forfallast vegna slysa eða veikinda. Það er mjög um það deilt hvort ekki eigi heldur að greiða þessu fólki, hvort sem það er karl eða kona, góða kauptryggingu eða slysatryggingu í lengri tíma, svo að það missi einskis í launum eins og kallað er, a. m. k. í tvo mánuði. Það hefur verið margbent á það og ég ætla að gera það hérna líka að þetta getur komið sér afskaplega illa fyrir þá sem gera út smærri skip og báta yfir 12 lestir sem heyra undir þessi lög. Þarna eru tveir og þrír menn á bát. Við getum nefnt rækjuveiðar, skelveiðar og annað. Ef sú óheppni verður að þar verði slys um borð eru hlutaskipti þannig að það getur bókstaflega kippt fótunum undan þeirri útgerð ef svo er að staðið. Hins vegar er jafnsjálfsagt að tryggja þá sem fyrir óhöppum verða vel fyrir slysum í því formi að þeir fái þá bætur lengur greiddar meðan þeir stríða við afleiðingar síns slyss eða sjúkdóms og finnst mér það nær en að hart sé á kveðið um að þeir skuli einskis í missa í launum. Ég er mótfallinn þeirri aðferð og teldi eðlilegra að þetta mál væri tekið upp í samningum en að lögbinda í þessa veru.

En ég leggst ekki á móti till. Hún var hér samþykkt 1980. Ég vil aðeins benda á að slík mál eru alltaf að koma upp og geta komið upp enn þá. Ég held að það sé ekki til neinna sérstakra bóta fyrir þann launþega sem á í hlut.