06.05.1985
Efri deild: 64. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4811 í B-deild Alþingistíðinda. (4075)

146. mál, sjómannalög

Karl Steinar Guðnason:

Virðulegi forseti. Hv. samgn. lagði mikla vinnu í undirbúning nál. og brtt. og nutum við góðrar aðstoðar Páls Sigurðssonar, eins og reyndar kom fram hjá formanni nefndarinnar áðan. Margt var þar til bóta frá því sem var í frv. og fyrir okkur voru skýrð ýmis atriði sem óljós voru, enda er þetta mikill frumvarpsbálkur sem á margan hátt er flókinn.

Ég lýsi mig sérstaklega ósammála hv. síðasta ræðumanni, 3. þm. Vesturl., þar sem hann segist vera gegn staðgengilsreglu til handa skipverjum verði þeir fyrir vinnuslysi. Það er nú svo að slík regla tíðkast í landi og þykir sjálfsagt að menn missi einskis þegar þeir verði fyrir slysi. Ég tel það alveg nauðsynlegt að svo verði einnig hjá sjómönnum. Ég bendi á að þó tilgreint sé hér að viðkomandi missi einskis í tvo mánuði, þá kemur til eftir það aðstoð sjúkratrygginga og sjúkrasjóða verkalýðsfélaga sem eiga að geta bætt úr verstu erfiðleikum manna ef þeir forfallast meira en þessa tvo mánuði. Mér finnst undarlegt ef útgerðarmenn geta ekki keypt tryggingar gegn staðgengilsreglunni og held að það hljóti að vera að slíku sé hægt að koma á og bið viðkomandi að athuga hvort ekki hafi verið kostur á því. Ég lýsi undrun minni á því ef það hefur ekki verið hægt.

Enn á ný lýsi ég ánægju minni með nefndarstarfið. Menn voru mjög sammála þar og samstiga í því að koma frv. frá nefnd með samkomulagi og þetta var einn þátturinn í samkomulaginu að greinin um staðgengilsreglu skyldi vera inni og er það líka mikils virði.