30.10.1984
Sameinað þing: 12. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 609 í B-deild Alþingistíðinda. (408)

11. mál, lækkun á gjaldtöku fyrir lyfja- og lækniskostnað

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um lækkun á gjaldtöku fyrir lyfja- og læknisþjónustu og er það till. á þskj. 11. Markmið þáltill. er að Alþingi feli heilbr.- og trmrh. að lækka verulega hlut sjúklinga í lyfja- og lækniskostnaði. Sú leið sem hér er lögð til er að Alþingi feli heilbr.- og trmrh. að fella þegar í stað úr gildi í fyrsta lagi reglugerð um greiðslu almannatrygginga í lyfjakostnaði frá 25. maí 1984, í öðru lagi reglugerð um greiðslur sjúkratryggðra til samlagslækna frá 25. maí 1984 og í þriðja lagi reglugerð um greiðslu sjúkratryggðra á sérfræðingahjálp í rannsóknum og röntgengreiningu frá 25. maí 1984.

Í þáltill. er þess í stað gert ráð fyrir að Alþingi feli heilbrmrh. að gefa út nýjar reglugerðir um lyfja- og lækniskostnað sjúklinga sem miðist við eftirfarandi.

1. Hlutur sjúklinga í áætluðum heildarlyfjakostnaði verði aldrei hærri en 25%.

2. Hlutur sjúklinga verði aldrei hærri en sem nemur 50% af lægstu gjaldskrárgreiðslu samlagslæknis eða sérfræðinga.

3. Greiðslur vegna röntgengreininga og annarra rannsókna verði þær sömu og til annarra sérfræðinga. 4. Elli- og örorkulífeyrisþegar skulu þó aldrei greiða meira en sem nemur helmingi af þeirri greiðslu sem gildir hverju sinni.

Auk þess skal í reglugerð kveða á um að gjald elli- og örorkulífeyrisþega til sérfræðinga falli niður sé um ítrekaðar vitjanir sérfræðinga að ræða.

Þær stórfelldu hækkanir sem urðu á lyfja- og lækniskostnaði í maí s.l. hafa að vonum verið mjög umdeildar og þykir mörgum að með þessari ráðstöfun höfum við færst áratugi aftur í tímann að því er varðar heilbrigðisþjónustu við sjúka. Þeirri stefnu hefur í öllum megindráttum verið fylgt á undanförnum árum og áratugum að tryggja öllum sem á þurfa að halda sem besta læknisþjónustu óháð efnahag fólks. Það felur auðvitað í sér mikla stefnubreytingu í heilbrigðisþjónustunni þegar svo er komið að efnalítið fólk getur ekki nýtt sér þá heilbrigðisþjónustu sem í boði er nema í ýtrustu neyð. Það er ekki einasta þessi stefnubreyting sem umdeild hefur orðið og misboðið hefur réttlætiskennd fólksins í landinu, heldur og það að hæstv. ríkisstj. skuli í kjölfar mikilla kjaraskerðinga og mikillar skerðingar á lífeyri elli- og örorkulífeyrisþega finna það helst ráð við efnahagsvanda ríkissjóðs að leggja stórfelldar gjaldtökur á þá sem síst skyldi í þjóðfélaginu, þannig að efnalítið sjúki fólk þarf að hugsa sig tvisvar um áður en það leitar sér læknisþjónustu.

Hækkanir á lyfja- og lækniskostnaði hafa orðið gífurlegar á undanförnum 1–2 árum. Við getum tekið sem dæmi að á tímabilinu 1. júní 1983 til 1. júní 1984 hefur lyfja- og lækniskostnaður sjúklinga hækkað um 300–400% á sama tíma og grunnlífeyrir almannatrygginga hefur einungis hækkað um 13%. Á sama tíma má benda á að á einu ári, frá 1. ágúst 1983 til 1. ágúst 1984, hafa kauptaxtar til að mynda ASÍ-félaga aðeins hækkað um 13.3% að meðaltali.

Það segir sig vitaskuld sjálft að sú stórfellda hækkun sem hefur orðið á lyfja- og lækniskostnaði hefur bitnað með fullum þunga á þeim sem síst skyldi, þ.e. láglaunafólkinu, elli- og örorkulífeyrisþegum, ekki síst þegar þessi hækkun bætist ofan á mikla skerðingu á launum og lífeyri.

En hver var hlutur sjúklinga í lyfja- og lækniskostnaði fyrir þá stórfelldu hækkun sem varð í maí og hver er hann nú? Nærri lætur að með breytingunni sem gerð var í maí s.l. hafi hlutur sjúklinga hækkað úr 13% í yfir 50%. Ef tekið er til að mynda meðaltal á s.l. 10 árum, þá hefur hlutur sjúklings verið um 21–22%. Ég vil, herra forseti, fá að vitna orðrétt í grg. með þessari þáltill. eða þann kafla sem skýrir hve gífurleg aukning hefur orðið á hlut sjúklings í lyfja- og lækniskostnaði og þær stórfelldu byrðar sem lagðar voru á sjúklinga með þeirri reglugerðarbreytingu sem gerð var í maí s.l. Í grg. segir, með leyfi forseta:

„Apótekarafélag Íslands gerði könnun vikuna 2.–6. apríl s.l. á greiðsluskiptingu lyfja milli sjúklinga og sjúkrasamlaga. Þar kemur í ljós að af heildarlyfjasölunni skiptust greiðslur þannig að sjúklingar greiða 13.8% og sjúkrasamlög 86.2%. Jafnframt kom fram að til þess að aðrir en aldraðir og öryrkjar yrðu látnir greiða um 25% af lyfjakostnaði þyrfti að hækka hlut sjúklings fyrir erlend lyf úr 100 kr. í 122 kr. og fyrir innlend lyf úr 50 kr. í 61 kr. Í reglugerðarbreytingunum frá því í maí s.l. hefur hlutur sjúklings hins vegar hækkað um nálega tvöfali meira og nemur nú ca. 50% af heildarlyfjakostnaði.

Lyfjakostnaður sjúkratrygginga í apríl og maí, þ.e. fyrir reglugerðarbreytingu, var rúmlega 52 millj. að meðaltali á mánuði. Ef tekið er meðaltal júlí- og ágústmánaðar, þ.e. eftir reglugerðarbreytinguna, er lyfjakostnaður sjúkratryggingadeildar tæplega 39 millj. að meðaltali á mánuði. Miðað við þessar forsendur má ráða að á ári sé um að ræða milli 150 og 160 millj. í auknum lyfjakostnaði fyrir sjúklinga.

Lækniskostnaður sjúkratrygginga var að meðaltali í apríl- og maímánuði s.l., eða fyrir reglugerðarbreytingu, rúmar 18 millj. kr. Eftir breytingu á reglugerð var meðaltal lækniskostnaðar í júlí- og ágústmánuði s.l. um 13 millj. kr. Miðað við þessar forsendur má áætla að reglugerðarbreyting heilbrrh. frá 26. maí s.l. hafi í för með sér um 60 millj. kr. viðbótarkostnað á ári fyrir sjúklinga vegna læknishjálpar.

Samtals er því aukinn lyfja- og lækniskostnaður, sem lagður hefur verið á sjúka, um 210–220 millj. kr.“ Margir hafa orðið til þess að mótmæla þessum aukna kostnaði á sjúka í þjóðfélaginu. Nýlega sendu 15 félög, m.a. félög fatlaðra og aldraðra, alþm. eftirfarandi bréf sem ég sé ástæðu til að lesa, með leyfi forseta:

„Þar sem svo er komið að aðgerðir stjórnvalda eru farnar að hafa áhrif til hins verra á heilsu og afkomu skjólstæðinga okkar, svo og annarra sjúklinga með langvarandi sjúkdóma, viljum við leita liðsinnis yðar til að hindra áframhald þessara aðgerða.

Að loknum þingtíma í vor gerðust mikil ótíðindi fyrir sjúklinga þessa lands. Settar voru nýjar reglugerðir um hlut sjúklinga í greiðslu vegna sérfræðiþjónustu lækna og meðferðar á göngudeildum og kostnaður vegna lyfjakaupa var einnig stóraukinn. Auk þess var sjúkrahúsum í reynd uppálagt að loka deildum yfir sumarmánuðina. Alli var þetta samt gert í sparnaðarskyni og hjó þar sá er hlífa skyldi. Afleiðingar þessa eru skelfilegar.

Greiðslugetu langtímasjúklinga er ofboðið og heilsu þeirra og afkomu stefnt í voða. Það segir t.d. sína sögu að stórlega dregur úr aðsókn á göngudeildir sjúkrahúsanna eftir 15. dag hvers mánaðar. Lokanir deildanna og þær tafir sem þær valda á því að sjúklingar fái viðhlítandi meðferð veldur ekki síður gífurlegri röskun á högum og afkomu sjúklinga og heimila þeirra. Það er okkur einnig mikið áhyggjuefni að hækkun göngudeildagjalda og greiðslna sjúklinga vegna sérfræðiþjónustu veldur því að fólk leitar ekki aðstoðar fyrr en í óefni er komið vegna þeirra útgjalda sem slíkt veldur. Þetta hlýtur óhjákvæmilega að hafa fleiri innlagnir á sjúkrahús í för með sér í stað meðferðar á göngudeildum. Þess vegna viljum við óska liðsinnis yðar til þess að þessi mál verði öll tekin til endurskoðunar í upphafi þings nú í haust og færð til betri vegar til hagsbóta fyrir landslýð allan. Að sjálfsögðu erum við reiðubúin að veita yður frekari upplýsingar ef þér óskið þess.“

Undir þetta bréf skrifa eftirfarandi félög: Blindrafélagið, Samtök blindra og sjónskertra á Íslandi, Foreldrasamtök barna með sérþarfir, fyrir hönd Krabbameinsfélags Íslands: sjúklingasamtökin Ný rödd, Samhjálp kvenna og Stomasamtökin; Landssamtökin Þroskahjálp, MS-félag Íslands, Samtök gegn astma og ofnæmi, Samtök sykursjúkra, Félag heyrnarlausra, Gigtarfélag Íslands, Landssamtök hjartasjúklinga, Migrenesamtökin, Samtök aldraðra, samtök psoriasis- og exemsjúklinga, Sjálfsbjörg, félag fatlaðra í Reykjavík.

Það hlýtur að vera alvarlegt mál þegar 15 félög, sem ég hef hér greint frá, lýsa því yfir að aðgerðir stjórnvalda séu farnar að hafa áhrif til hins verra á heilsu og afkomu skjólstæðinga sinna svo og annarra sjúklinga með langvarandi sjúkdóma.

Það er auðvitað ljóst að lyfja- og lækniskostnaður getur verið stór útgjaldaliður í framfærslu heimilanna, eins og þær tölur sem fram koma í grg. bera reyndar með sér. Þó upphæð fyrir hverja vitjun virðist ekki vera ýkjahá í krónum talið getur læknisvitjun haft miklu meiri kostnað í för með sér en ein ferð til sérfræðings kostar. Það er t.d. ekki óalgengt að ef leita þarf til sérfræðings fylgi því sá kostnaður að greiðsla til sérfræðings er 270 kr., síðan fylgir því gjarnan röntgenmyndataka 270 kr., blóðrannsókn 270 kr. og lyfjakostnaður a.m.k. 240 kr. eða samtals á annað þúsund krónur. Kostnaðurinn getur því orðið ærinn þegar upp er staðið, ekki síst fyrir þá sem eru á stöðugum lyfjagjöfum og ítrekað þurfa að leita til sérfræðinga svo og hjá barnmörgum láglaunafjölskyldum.

Af þessu er líka hægt að gefa aðra mynd. Ótrúlega stór hópur aldraðra hefur ekki úr neinu að spila nema lífeyri almannatrygginga. Því til staðfestingar get ég vitnað til þess að í sept. s.l. voru greiðslur tekjutryggingar til aldraðra með eftirfarandi hætti. 5202 aldraðir fengu skerta tekjutryggingu, 5888 fengu enga tekjutryggingu og 8198 fengu óskerta tekjutryggingu. Og hvað segja þessar tölur okkur? Samkvæmt upplýsingum Hagstofu var fjöldi 67 ára og eldri í árslok 1983 20 796. Ef litið er á fyrrgreindar tölur Tryggingastofnunar, þar sem fram kemur að tæplega 8200 aldraðir fá óskerta tekjutryggingu, þá má ráða að tæplega 40% 67 ára og eldri á Íslandi hafa einungis sér til framfæris lífeyri almannatrygginga.

Nú þegar miklar umræður standa yfir um nauðsyn kjarabóta til launafólks, þá vil ég spyrja: Hvað á að gera fyrir þennan hóp aldraðra og reyndar öryrkja einnig sem engu eða litlu öðru hefur úr að spila en lífeyri almannatrygginga? Hefur hæstv. heilbrmrh. leitt hugann að því eða hæstv. forsrh. eða hæstv. fjmrh.? Eru þessir hæstv. ráðh. tilbúnir að lýsa því yfir hér og nú að lífeyrir almannatrygginga muni strax og um semst á vinnumarkaðinum taka ekki minni hækkun en samið verður þar um? Það er nauðsynlegt að fá svar við því frá hæstv. heilbrmrh. og hvort þessi mál hafi verið rædd í ríkisstj. Ég beini þessu hér með til hæstv. heilbrmrh. og vænti þess að hann svari því hvort þessi mál hafi verið rædd í ríkisstj.: Má vænta þess, hæstv. ráðh., að lífeyrir almannatrygginga verði hækkaður strax og samið verður og að elli- og örorkulífeyrisþegar fái ekki minni kjarabætur en um semst á almenna vinnumarkaðinum?

Það er ekki að sjá á fjárlögum að gert sé ráð fyrir neinni hækkun. Á fjárlögum 1984 var gert ráð fyrir að 685 millj. færu til greiðslu tekjutryggingar. Samkv. upplýsingum ríkisendurskoðunar er gert ráð fyrir að greiðslur lífeyristrygginga vegna tekjutryggingar verði komnar í 796 millj. í árslok eða 111 millj. fram yfir áætlun fjárlaga 1984 miðað við óbreyttan lífeyri eins og hann er í dag. Ég spyr því aftur: Hverju mega elli- og örorkulífeyrisþegar eiga von á og hvaða ráðstafanir verða gerðar til að tryggja þeim ekki lakari kjarabætur en um semst á vinnumarkaðinum? Ég tel, herra forseti, nauðsynlegt að fá þetta upplýst nú því það er ekki síður ástæða til að hafa áhyggjur af högum aldraðra og öryrkja í þjóðfélaginu en annarra launþega sem lifa við þröngan og óviðunandi kost í dag.

Þegar þessi þáltill. er rædd vaknar spurningin: Var þetta nauðsynlegt? Var nauðsynlegt að leggja aukinn kostnað á sjúklinga um 210 til 220 millj. á ári? Er efnahagsástandið orðið þannig að vega þurfi með þessum hætti að hagsmunum og velferð sjúkra í þjóðfélaginu? Er helst að finna í þeim hópi þá sem hrifsað hafa til sín meir en skyldi af þjóðarkökunni? Það hefur verið talað um að hér búi tvær þjóðir í einu landi. Það er ekki ofsagt. Óréttlát tekjuskipting, sem vaxið hefur ár frá ári, og gífurleg skattsvik eru einkum það sem skipt hefur þjóðinni í tvær þjóðir. Og hvor þjóðin er það sem axla hefur þurft meginþungann af efnahagsaðgerðum ríkisstj.? Kjaraskerðingin hefur auðvitað bitnað með miklum þunga á þeim sem lifa þurfa af litlu meira en strípuðum kauptöxtum verkalýðsfélaganna eða 12 til 16 þús. kr. og leggja þurfa á sig langan vinnudag til að eiga fyrir brýnustu nauðsynjum frá degi til dags og sköttum til samneyslunnar, en samt ná endar ekki saman. Hvor þjóðin skyldi það vera sem hefur að verulegu leyti fengið kjaraskerðinguna bætta með launaskriði í formi yfirborgana, duldra greiðslna og fríðinda? Hve stór er sá hópur í raun í þessu þjóðfélagi sem getur ekki einasta skammtað sér laun sjálfur heldur og ákvarðað sjálfur hvað hann greiðir til samneyslunnar? Hefur ríkisstj. virkilega ekkert að sækja í þennan hóp? Hvað hefur orðið um þá miklu fjármuni sem á undanförnum mánuðum hafa verið færðir frá launþegum, öryrkjum og öldruðum yfir til fyrirtækjanna og atvinnurekenda? Hafa þeir skilað sér í því að treysta undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar og til að skapa ný atvinnutækifæri og bæta lífskjörin í landinu? Ég fæ ekki séð það.

Ríkisstj. sagði við launafólk í upphafi starfsferils síns að launafólk yrði að færa tímabundnar fórnir fyrir betri framtíð, en sér launafólk fram á betri framtíð eftir að það hefur fórnað á stuttum tíma a.m.k. þriðjungi af launum sínum? Varla, því enn krefst ríkisstj. áframhaldandi kjaraskerðingar af launafólki. Og enn má spyrja: Er framfærslan launþegum léttbærari í dag, nú þegar verðbólgutölur sýna í septembermánuði 19% verðbólgu miðað við 12% síðustu mánuði, en þegar verðbólga var 130%, þegar ríkisstj. tók við? Ekki er hægt að sjá það þegar til þess er litið að síaukinn fjöldi þarf að leita til Félagsmálastofnunar eða sífellt þarf fleiri og fleiri vinnustundir til að standa undir matarreikningi og nauðsynjum heimilanna.

Það er óneitanlega hart til þess að vita að þegar allt í kringum okkur blasir við misrétti og ranglæti í tekjuskiptingu og lífskjörum skuli ríkisstj. sjá það ráð helst að leita í vasa hinna sjúku. Það ákvæði í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar sem kveður á um að vernda og tryggja lífskjör þeirra sem þyngst framfæri hafa hljómar eins og argasta öfugmæli þegar til þess er litið að sú gífurlega hækkun á lyfja- og lækniskostnaði bitnar á þeim sem þyngst framfæri hafa og síst skyldi. Og ekki er úr vegi að vitna í kosningastefnuskrá Sjálfstfl. frá síðustu kosningum, sem birtist í Morgunblaðinu 23. mars 1983, ekki síst þar sem það hefur komið í hlut sjálfstæðismanna eða hæstv. heilbrmrh. Matthíasar Bjarnasonar að setja reglugerðir sem fela í sér svo þungar byrðar á sjúka í þjóðfélaginu. Í stefnuskrá Sjálfstfl. segir að áhersla verði lögð á að hagsmuna aldraðra og öryrkja sé gætt. Það er erfitt að sjá að hagsmuna aldraðra og öryrkja sé gætt þegar lyfja- og læknisþjónusta hafa hækkað um 3–400% á örfáum mánuðum. Og maður spyr: Er virkilega ekki í önnur hús að venda fyrir ríkisstj.? Af hverju ræðst ríkisstj. ekki með sömu hörku að skattsvikurum eins og sjúkum í þjóðfélaginu eða milliliðum sem maka krókinn eða bruðli og sóun í rekstri ríkisstofnana og óarðbærum fjárfestingum í verslunarhöllum og bönkum, svo eitthvað sé nefnt, eða sker duglega niður það gífurlega fjármagn sem fer í milliliði og óarðbæra fjárfestingu í landbúnaði? Fleiri dæmi mætti auðvitað taka. Hvað með sjálftökustéttirnar í þjóðfélaginu, eins og t.a.m. tannlækna sem geta skammtað sér laun og tekjur sjálfir? Hvar er harka ríkisstj. gagnvart þessum aðilum? Af hverju sér ríkisstj. ástæðu til að veita bönkum og fyrirtækjum skattfríðindi á sama tíma og hún leggur gjald á sjúka í þjóðfélaginu sem ekki fá undir því risið?

Í fjárlögum fyrir árið 1985 er tekjutap vegna skattaívilnana til banka t.a.m. 75 millj. kr. á næsta ári — bankastofnana sem virðast eiga nóg fjármagn til að fjárfesta í óþarfa bankaútibúum hér og þar eins og þær lystir. Hvað er í raun að ske í þessu þjóðfélagi þegar stöðugt er verið að flytja fjármagn til þeirra betur settu á sama tíma og stöðugt er þrengt að launafólki og mannréttindi sjúkra skert í þjóðfélaginu? Og ég spyr: Var nauðsynlegt að leggja aukinn lyfja- og lækniskostnað á sjúka í þjóðfélaginu fyrst ríkisstj. taldi sig aflögufæra til að veita bönkum skattfríðindi? Hefði þeim peningum ekki verið betur varið til að greiða lyfja- og lækniskostnað fyrir aldraða og öryrkja eða láglaunafjölskyldur í landinu? Eða skattaívilnanir fyrirtækja. Hvað þýða í tekjutap á næsta ári þær skattaívilnanir sem voru samþykktar til fyrirtækja á Alþingi vetur, lækkun skattprósentu og auknar afskriftir eða fyrningarhlutfall til fyrirtækja? Það væri fróðlegt að hæstv. fjmrh. upplýsti Alþingi um tekjutap ríkissjóðs á næsta ári vegna skattfríðinda fyrirtækja.

Ég hef heyrt svimandi háar fjárhæðir nefndar í því sambandi. Ég skal fara langt niður fyrir þær tölur sem nefndar eru. Ég hygg að það sé ekki fjarri sanni að tekjutap ríkissjóðs á næsta ári vegna skattfríðinda fyrirtækja sé nálægt þeirri upphæð sem lögð var í auknum lyfja- og lækniskostnaði á sjúka í þjóðfélaginu eða kringum 200 millj. kr. Nei, manngildið hefur svo sannarlega vikið fyrir auðgildinu og mannúðar- og mannréttindasjónarmið eru svo sannarlega á undanhaldi fyrir auðhyggju- og gróðasjónarmiðum síðan þessi ríkisstj. tók við. Þegar litið er til þeirrar sóunar, bruðls og óréttlætis í tekjuskiptingu og misskiptingu á lífsgæðum í þessu þjóðfélagi hlýtur að blasa við að hægt sé að koma festu á íslenski efnahagslíf án þess að vega að mannréttindum sjúkra í þjóðfélaginu. Það eru til peningar í þjóðfélaginu sem ná má í galtóman ríkissjóð ef ríkisstj. tekur af hörku á því misrétti og þeim skattsvikum sem hvarvetna blasa við.

Herra forseti. Ég skal fara að ljúka máli mínu. Það er langur vegur í réttlæti hér á landi þegar svo er komið að efnalítið fólk þarf hvað eftir annað að standa frammi fyrir því að eiga hvorki fyrir læknishjálp né lyfjum sem það nauðsynlega þarf á að halda og ríkisstj. sér það ráð eitt að leita í vasa þessa fólks á sama tíma og hún virðist ekki sjá það misrétti sem hvarvetna blasir við í þjóðfélaginu eða telur a.m.k. ekki ástæðu til að ráðast gegn því með hörku.

Um leið og ég legg til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. allshn. vil ég leyfa mér að vænta þess að ríkisstj. sjái að sér í þessu máli og fallist á þá leið sem hér er lögð til, auk þess sem ég ítreka þær spurningar sem ég hef lagt fyrir hæstv. ráðh.

Þegar ég hóf mál mitt, herra forseti, voru þrír eða fjórir ráðh. í salnum. Þeir hafa af einhverjum sökum séð ástæðu til þess að ganga úr salnum undir þessari umr.

Herra forseti. Ég óska eftir því að þessari umr. ljúki ekki fyrr en hæstv. heilbrmrh. hefur fengið tækifæri til að svara þeim spurningum sem ég hef hér lagt fyrir hann. Ég beindi því til hæstv. ráðh. hvort rætt hafi verið í ríkisstj. hvort elli- og örorkulífeyrisþegar fái einnig hækkaðan lífeyri sem eigi verði lakari kjarabætur en þær sem um semst á vinnumarkaðinum. Ég tel einnig nauðsynlegt að fá fram afstöðu hæstv. heilbrmrh. til þess bréfs sem 15 félög, m.a. samtök aldraðra og fatlaðra, hafa sent alþm. Málið er vissulega orðið alvarlegt þegar þessi félög, félög fatlaðra og aldraðra í þjóðfélaginu, lýsa því yfir að aðgerðir stjórnvalda, sem fólust í gífurlegri hækkun á lyfja- og læknisþjónustu, séu farnar að hafa áhrif til hins verra á heilsu og afkomu fólks í landinu, afleiðingarnar séu skelfilegar, greiðslugetu langtímasjúklinga sé ofboðið og heilsu þeirra og afkomu stefnt í voða, eins og segir í þessu bréfi.

Ég vil ítreka þær óskir mínar, herra forseti, að þó að hæstv. heilbrmrh. sé hér ekki til að svara þeim spurningum sem ég hef beint til hans ljúki þessari umr. ekki fyrr en hann hefur fengið tækifæri til að svara þeim spurningum.