06.05.1985
Efri deild: 64. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4814 í B-deild Alþingistíðinda. (4080)

470. mál, Þroskaþjálfaskóli Íslands

Helgi Seljan:

Virðulegi forseti. Ég fagna því að fram er komið frv. um þennan skóla, svo þýðingarmiklu og nauðsynlegu hlutverki sem hann hefur að gegna. Ég fagna því sömuleiðis að með samþykkt frv. um skólann eru í raun horfnar síðustu leifar laganna um fávitastofnanir, sem blessunarlega hurfu að mestu eða nær öllu leyti með lögum um málefni þroskaheftra og öryrkja og síðar heildarlöggjöfinni um málefni fatlaðra eins og hæstv. ráðh. kom inn á. Tími var til þess kominn.

En við lestur þessa frv. vakna spurningar sem við hljótum að reyna að svara í nefndinni og ég vil glöggva mig frekar á. Mér eru þessi mál býsna hugleikin frá stofnun Styrktarfélags vangefinna á Austurlandi og síðar með stofnun Þroskahjálpar, landssamtaka sem sannað hafa gildi sitt. Við sem þar völdumst til forustu fyrst vorum með menntunarmálin ofarlega á blaði, menntun þeirra skjólstæðinga sem við bárum fyrir brjósti, svo og menntun þeirrar stéttar sem gegnir svo þýðingarmiklu hlutverki í allri þjálfun og auknum þroska þessa fólks.

Að mínu viti — eins og reyndar kom fram hjá hæstv. ráðh. — væri menntmrn. réttari aðili til að fara með yfirstjórn þessa skóla, en ég veit mætavel vandkvæðin þar á, enda eru þau rakin í grg. og kom hæstv. ráðh. þar inn á einnig. Vissulega er þetta eitt dæmi um það hversu illa tekst til um þessi mál og þau geta farið á misvíxl ef við mönnum okkur ekki upp í að setja samræmd lög um framhaldsskóla á landi hér, eins og brýna nauðsyn ber til, af því að þá yrði bein afleiðing þess að allir þessir skólar og allir þessir þættir féllu undir menntmrn. og væri stjórnað frá einu rn.

Hitt tek ég fram að ég veit að heilbrrn. hefur hlúð að Þroskaþjálfaskóla Íslands og gert í mörgu vel við hann og kannske er þetta ekki meginatriði á þessu stigi málsins. Af viðtölum mínum fyrr og nú við þroskaþjálfa og þroskaþjálfanema hef ég ýmsar aths. við nokkur atriði þessa frv., án þess að ég hafi á því staðfestingu hvernig þau mál standa í dag. Ég nefni nokkur sem ég vil að við skoðum saman í heilbr.- og trn.

Í aths. með 1. gr. frv. segir svo, með leyfi forseta: „skólinn hefur staðið fyrir símenntun og haft um hana samráð við Félag þroskaþjálfa.“

Ég vildi gjarnan sjá þetta inni í lagatextanum í gr., þ. e. að við bættist að haft yrði samráð um þessa símenntun við Félag þroskaþjálfa.

Varðandi 3. gr., sem fjallar um skólastjórn, vildi ég gjarnan sjá gert ráð fyrir aðila frá samtökunum Þroskahjálp, þ. e. frá aðstandendum og velunnurum þess fólks sem þarna á mestra hagsmuna að gæta. Þar segir einmitt á bls. 2 í aths. með frv. að viðhorfsbreyting hafi orðið hér á sem hafi endurspeglast ekki síst í lögunum um aðstoð við þroskahefta sem sett voru árið 1979 og þar kemur auðvitað fyrst og fremst til, eins og segir hér orðrétt, með leyfi virðulegs forseta:

„Krafa foreldra og forráðamanna um þjálfun og kennslu fyrir börn sín varð æ háværari og aðstandendum skólans ljós þörf á að mennta nemendur skólans meir en áður hafði verið til uppeldis- og þjálfunarstarfa.“

Þannig að á þessu er greinilegur skilningur og um leið er þarna að finna rökstuðning fyrir aðild þessara samtaka að skólastjórn.

Varðandi 4. gr. hef ég uppi efasemdir um það orðalag sem fjallar um skólastjóra, þar sem segir annars vegar að skólastjóri skuli hafa lokið háskólaprófi í uppeldisog sálarfræði eða hafa lokið sérkennaraprófi frá viðurkenndum háskóla. Þetta vil ég kanna betur, þ. e. síðari hluta í þessari mgr. Sérkennarapróf getur verið í ýmsu formi. Það getur tekið til ýmissa þátta sem eru alls óskyldir þessu sérsviði gagnvart þroskaheftum. Hér vildi ég því athuga um breytingu í raun og veru á efnisinnihaldi.

Í 5. gr. um inntökuskilyrði kemur hin mikla spurning um stöðu skólans í menntakerfinu eða „status“ eins og menn segja nú á góðu máli. Það er annað hvort stúdentspróf eða hliðstætt nám. Ég set spurningarmerki við hliðstætt nám skv. skilgreiningu í aths., þar sem segir, með leyfi virðulegs forseta: „ ... og hafi lokið a. m. k. tveggja ára námi í framhaldsskóla í þeim námsgreinum sem skólinn gerir kröfur til eða hliðstæðu námi.“ Hér er varla um hliðstæða menntun að ræða, þó viðurkenna beri að stúdentspróf af t. d. viðskipta- eða náttúrufræðibraut geti varla verið undirbúningur sem teljast verður betri varðandi þetta afmarkaða sérsvið sem skólinn á að þjóna. Allt eru þetta atriði sem ég vil átta mig betur á og kanna í nefndinni. Ég skal ekki hafa um þetta fleiri orð. Við getum áreiðanlega náð heildarsamkomulagi um skynsamlega lausn á hverju einu sem lýtur að þessu litla frv., en þýðingarmikla í leiðinni. Og þrátt fyrir athugasemdir vil ég sannarlega stuðla að því sem hæstv. ráðh. kom inn á hér í lokaorðum sínum, stuðla að skjótum frágangi frv.