06.05.1985
Efri deild: 64. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4816 í B-deild Alþingistíðinda. (4081)

470. mál, Þroskaþjálfaskóli Íslands

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Virðulegi forseti. Út af aths. eða ábendingum hv. síðasta ræðumanns vil ég varðandi 3. gr. aðeins benda á að ég tel sjálfsagt að nemendur svo og aðstandendur eigi aðild að skólastjórn en ég tel ekki rétt að þeir skipi meiri hluta skólastjórnarinnar. Þar sem hv. þm. minntist á 4. gr. þá get ég fellt mig við þá breytingu að sérkennarapróf falli þarna niður og hef ekkert við það að athuga.

Þar sem talað er um í 5. gr. b-lið „stúdentspróf eða hliðstætt nám“ má kannske segja að orðalagið sé ekki rétt. En hér er verið að rýmka á þann veg að stúdentspróf sé ekki alveg skýlaust skilyrði, því að ég vil líta svo á að fólk, sem vinnur að þessum störfum, finni hjá sér köllun til að starfa við það. Þannig er þetta hugsað. En hvort það eigi að breyta orðalaginu getur verið álitamál. Það er fyrst og fremst verið að orða þetta með það fyrir augum að setja ekki umrætt próf sem skýlaust skilyrði. Það er nú eiginlega það eina sem ég breytti persónulega þegar mér var sýnt frv.

Ég endurtek það, ég legg áherslu á að hv. n. hraði störfum og ræði eðlilega við þessa aðila. Ég held að þetta frv. sé það einfalt í sniðum að hægt eigi að vera að afgreiða það á mjög skömmum tíma.