06.05.1985
Neðri deild: 64. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4818 í B-deild Alþingistíðinda. (4089)

463. mál, kosningar til Alþingis

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Hér er verið að greiða atkvæði um það til hvaða nefndar fer stjfrv. til l. um breytingu á lögum um kosningar til Alþingis með áorðnum breytingum. Þegar þetta mál var tekið hér fyrir til 1. umr. var ég ekki hér í salnum. En ég hefði þá gjarnan viljað koma á framfæri athugasemd við málsmeðferð af hálfu hæstv. ríkisstj.

Hér er um að ræða breytingu á kosningalögum sem voru samþykkt hér á síðasta þingi, kosningalögum sem voru undirbúin af formönnum flokkanna á þinginu 1982–83. Ég hefði því talið eðlilegt að við meðferð þessa máls hefði áfram verið þannig unnið að fulltrúar allra flokka hér á þingi hefðu verið kallaðir til áður en frv. var lagt hér fram. Ég tel þessi vinnubrögð af hálfu ríkisstj. ekki heppileg. Ég tel þau óeðlileg miðað við forsögu málsins.

Þegar þessi mál voru til meðferðar á síðasta þingi var þeim vísað til sérstakrar nefndar sem fjallaði um breytingar á kosningalögum. En nú er væntanlega gerð tillaga um það, herra forseti, að málinu verði vísað til — (Forseti: Sérstakrar nefndar.) — til sérstakrar nefndar, sem ekki hefur verið kosin, skilst mér, (Forseti: Ekki er enn til.) sem ekki er enn til. Er þá ekki rétt, herra forseti, að nefndin verði kosin áður en málinu verður vísað til nefndar? Það voru ábendingar sem ég vildi koma á framfæri. Ég hef ekki verið aðili að samkomulagi um þetta mál.