06.05.1985
Neðri deild: 64. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4819 í B-deild Alþingistíðinda. (4098)

478. mál, tónlistarskólar

Menntmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Hér liggur fyrir lítið frv. sem ætlað er að sníða af nokkra annmarka sem komið hafa í ljós á núgildandi lögum um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla. Þegar þau lög voru sett árið 1975 var stigið stórt skref í átt til þess að efla tónlistarlíf og tónmennt í landinu. Fjárstuðningur hins opinbera var stóraukinn með þeim lögum og helmingaskipti urðu milli ríkis og sveitarfélaga á öllum launakostnaði vegna kennslu en það kom í stað styrkgreiðslna sem miðuðust við greiðslu á 1/3 hluta launakostnaðar frá hvorum aðila en þessar styrkgreiðslur náðu í reynd ekki þeim lögbundna kostnaði. Tilgangurinn með lögunum var sá að gera öllum kleift að stunda nám í tónlist án tillits til efnahags og stuðla að eflingu tónlistarkennslunnar sem víðast um landið.

Lögin hafa á ýmsan hátt náð þessum tilgangi. Tónlistarskólar eru nú starfandi liðlega 60 talsins með 8500 nemendum í stað 38 tónlistarskóla áður með 3500 nemendum. Framlög hins opinbera hafa þrefaldast að raungildi á sama tíma. En þeir annmarkar sem komið hafa í ljós eru eftirfarandi:

Það eru lítil takmörk sett fyrir því hve unnt er að stofna marga tónlistarskóla sem eiga rétt á styrkgreiðslu frá ríkissjóði og frá viðkomandi sveitarfélagi ef skilyrðum 1. gr. er fullnægt. Heimildin er m. ö. o. svo rúm að mjög örðugt er að hafa yfirsýn og gera áætlun í samræmi við hana. Skilyrðislaus ákvæði þess efnis að skólastjórar og kennarar verði starfsmenn sveitarfélaga án þess að sveitarfélög eigi aðild að stofnun skólans eru núna í lögum. Þetta ákvæði hefur ekki verið framkvæmt í reynd að öllu leyti.

Hið opinbera hefur mjög takmörkuð áhrif á námsframboð og kennslumagn en næstum ótakmarkaða greiðsluskyldu. Ákvæði skortir sem tryggir gæði kennslu og námseftirlit. Réttarstaða kennara og aðild að kjarasamningum er óviss skv. núgildandi lögum. Þessi atriði öll ásamt fleirum leiddu til þess að fyrirrennari minn, hæstv. forseti Nd. núv., þáv. menntmrh., skipaði nefnd til að endurskoða þessi lög 1980. Nefndin skilaði frv. eða áliti í formi lagafrv. síðar sama ár. Það gat ekki orðið þá að þetta frv. yrði flutt. Síðan hefur það verið tekið til umfjöllunar á nýjan leik í tengslum við viðræður fulltrúa ríkis og sveitarfélaga um verkaskiptingu þessara aðila á mörgum sviðum. Niðurstaða þeirra viðræðna hefur leitt til þess að frv. er nú lagt fyrir Alþingi og samkomulag er um það milli fulltrúa ríkis og sveitarfélaga í samráðsnefnd, sem starfar á vegum félmrn., en þar eru fulltrúar allra ráðuneyta.

Ég hygg, hæstv. forseti, að ekki sé ástæða til að fara frekari orðum um þetta frv. Það er í sjálfu sér afar einfalt og í því eru ekki róttækar breytingar. Það er einungis gert ráð fyrir að framkvæmd laganna verði greiðari og auðveldara að tryggja fagleg gæði þeirrar kennslu sem veitt er í tónlistarskólunum.

Ég leyfi mér, herra forseti, að leggja það til að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. menntmn.