06.05.1985
Neðri deild: 64. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4820 í B-deild Alþingistíðinda. (4101)

5. mál, útvarpslög

Frsm. meiri hl. (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Eins og fram kom við 2. umr. málsins var beðið með að afgreiða þann kafla sem lýtur að fjármálum Ríkisútvarpsins til 3. umr. Ástæðan var sú að Ríkisútvarpið hafði það í sérstakri athugun með hvaða hætti væri hægt að koma betra horfi á innheimtumál afnotagjalda. Sú hafði verið hugmynd margra í menntmn. að fella afnotagjöld niður vegna erfiðleika á innheimtu og taka þess í stað upp nefskatt.

Ríkisútvarpið kom að máli við nefndina eins og þá kom fram og vakti athygli á því að tækni fleygir nú mjög fram í sambandi við útvarpsrekstur og þykjast forráðamenn Ríkisútvarpsins hafa það í sjónmáli að auðvelt verði að selja bein afnot af viðtækjum þannig að unnt verði að leggja afnotagjöldin niður í þeirri mynd sem þau eru nú, en láta menn á hinn bóginn greiða fyrir notkun t. d. með því að taka upp það sem kallaðir hafa verið „truflaðir geislar“ þannig að menn þurfi að hafa lykil eða einhvers konar gíróspjald til þess að geta notið sendinga frá viðtækjum. Forráðamenn Ríkisútvarpsins töldu að það mundi torvelda það að taka slíkt fyrirkomulag upp síðar ef horfið yrði frá afnotagjaldinu nú og nefskatturinn tekinn upp í staðinn. Með hliðsjón af því að gert er ráð fyrir því að útvarpslögin verði endurskoðuð innan þriggja ára taldi meiri hl. nefndarinnar rétt að verða við þessum tilmælum. Eru brtt. þær sem við Ólafur Þ. Þórðarson, hv. 5. þm. Vestf., flytjum á þskj. 843 í stórum dráttum í samræmi við ábendingar Ríkisútvarpsins um þessi efni.

Ég þarf ekki að hafa um þetta fleiri orð. Þetta eru einungis tæknilegar breytingar sem ekki varða þann kjarna málsins að áfram verður fylgt þeirri innheimtuhefð sem verið hefur. Ég vek athygli á því að í greininni er gert ráð fyrir því í fyrsta lagi að þeir sem aðeins geta nýtt sér svart/hvítt sjónvarp fái sérstakan afslátt svo og þeir sem ekki hafa sjónvarp en einungis hljóðvarp. Þá er gert ráð fyrir því að heimilt sé að veita fyrirtækjum og stofnunum afslátt vegna fjölda tækja á sama stað. Þetta er háttur sem er í nágrannalöndum og sýnist sjálfsagt. Er hægt að nefna sem dæmi hótel og ýmsa aðra aðila sem koma undir þetta ákvæði greinarinnar.

Við 2. umr. málsins voru teknar aftur af tillögum meiri hl. menntmn. tvær brtt. Annars vegar sú brtt. sem lýtur að Menningarsjóði útvarpsstöðva. Það hefur orðið að samkomulagi innan meiri hl. nefndarinnar að leggja til að sá kafli verði samþykktur óbreyttur eins og hann kemur fyrir á þskj. 505. Það liggur að vísu fyrir að stjórnarflokkarnir hafa nokkurn áherslumun varðandi Menningarsjóðsgjaldið en ekki náðist samkomulag um að hafa þennan kafla öðruvísi en hann er þar orðaður. Þá leggjum við til að ákvæði til bráðabirgða verði orðað svo sem segir á þskj. 505.

Eins og fram kom við umr. drógu ýmsir stjórnarandstæðingar ýmsar brtt. sínar til baka og er óþarfi að fjalla um þær öðru sinni. Á þskj. 660 er brtt. frá hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni, Kristínu S. Kvaran og Maríönnu Friðjónsdóttur. Leggjum við hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson til að 1. brtt. verði samþykkt, en þar er því bætt við í 10. gr., eins og hún er á þskj. 602, að þess skuli gætt sérstaklega að hafa á boðstólum fjölbreytt efni við hæfi barna, jafnt í hljóðvarpi og sjónvarpi. Mér finnst sjálfsagt að þessi viðbót komi inn og geri ráð fyrir að hv. þdm. séu mér sammála um það.

Það hefur vakið nokkra athygli að langur dráttur hefur orðið á því að frv. kæmi til 3. umr. eftir að það var afgreitt úr menntmn. Ástæðan fyrir því er ekkert launungarmál. Þm. Sjálfstfl. hafa lagt áherslu á það og Sjálfstfl. frá öndverðu að útvarpsstöðvum verði gert frjálst að auglýsa hvort sem um þráðlausar útsendingar er að ræða eða útvarp um kapal. Á hinn bóginn hefur ekki náðst samkomulag um þetta við samstarfsflokk okkar. Við sjálfstæðismenn vitum ekki betur en um það hafi verið gert samkomulag að þm. stjórnarflokkanna hefðu frjálsar hendur um það hvernig þeir greiddu atkvæði um auglýsingamálin. Það er skilningur okkar og af þeim sökum munu þm. Sjálfstfl. greiða atkvæði með því að auglýsingar verði gefnar frjálsar, að ég ætla, þó að ekki liggi fyrir um það flokksleg samþykkt. Ég hef ekki spurt hvern einstakan að því en hef skilið það svo.

Þessu til grundvallar liggur að við teljum að orðið eigi að vera frjálst. Við teljum það grundvallarmannréttindi að hver maður hafi sem frjálsastan kost á því að láta í ljós skoðanir sínar og sjónarmið og við teljum að fjölmiðlar, hvort tveggja dagblöð sem útvarpsfjölmiðlar, eigi að hafa sem frjálsastar hendur til að koma því á framfæri sem efni standa til þó að við um leið viðurkennum að nauðsynlegt sé um svo áhrifamikinn fjölmiðil sem útvarpsstöðvar eru að hafa þar nokkra gæslu á, eins og ákvæði 3. gr. frv. bera með sér.

Ég held að þetta gamla þjóðþing hljóti að fallast á það að rétt sé að alþm. standi vörð um tjáningarfrelsið hvort sem það er á síðum dagblaða eða tímarita, hvort sem það er á fundum eða í samtölum manna á milli eða sé flutt á öldum ljósvakans. Það eru mikil tíðindi að útvarpsrekstur skuli vera orðinn svo auðveldur og ódýr að ætla megi að æ fleiri aðilar sjái sér fært að standa undir slíkum rekstri. En ég vil um leið leggja áherslu á að gagnslaust er að gefa útvarp frjálst ef þeim sem það vilja reka er ekki um leið gefið tækifæri til að standa undir rekstrarkostnaði.

Ég vil vekja athygli á því að víða úti um land og raunar einnig hér í Reykjavík eru nú starfandi sérstök kapalsjónvörp. Um þetta urðu miklar umræður við 1. umr. málsins. Ýmsir þm. héldu því þá fram að þetta væri ólögleg starfsemi og vítaverð jafnvel þótt þeir sjálfir hefðu komið fram í slíkum stöðvum og ekkert séð athugavert við það vegna þess að þeir vissu að með þeim hætti næðu þeir til fleiri manna. Sérstaklega var málflutningur af þessu tagi viðloðandi Alþfl. sem hefur orðið sannheilagur upp á síðkastið.

Ég reyndi frá öndverðu að koma þeim sjónarmiðum áleiðis að hvað sem almennum reglum um auglýsingar liði hefði reynslan sýnt að þessi litlu kapalkerfi úti á landi hefðu verið mjög nauðsynlegir fjölmiðlar til að koma áleiðis tilkynningum og auglýsingum á hinum smærri stöðum. Ég er enn þeirrar skoðunar að það yrði mikill sjónarsviptir og til mikils óhagræðis fyrir íbúa á slíkum stöðum ef blátt bann yrði lagt við því. Ég legg sem sagt, herra forseti, áherslu á það í sambandi við 4. gr. málsins, að auglýsingar séu heimilaðar í öllum útvörpum. Hvort sem það er kallað hljóðvarp eða sjónvarp, hvort sem það fer um loft eða þráð, leggjum við til grundvallar þau almennu mannréttindi að orðið sé frjálst, mismunandi sjónarmið eigi að fá að koma fram og það sé óþolandi með öllu að útvarpsfjölmiðlarnir séu einungis opnir fyrir þeim sem annað tveggja starfa í skjóli einokunar eða hafa ráð til þess með öðrum hætti að afla tekna til slíkrar starfsemi en af starfseminni sjálfri. Ef auglýsingarnar verða gefnar frjálsar mun það m. ö. o. að minni hyggju örva frjáls skoðanaskipti og verða til upplýsingar og ánægju fyrir alla landsmenn.