06.05.1985
Neðri deild: 64. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4841 í B-deild Alþingistíðinda. (4114)

86. mál, áfengislög

Frsm. minni hl. (Ólafur Þ. Þórðarson):

Herra forseti. Svo undarlega ber við að ég sakna hv. 10. landsk. þm. úr salnum og jafnframt sakna ég hv. 2. þm. Reykv. Hann var að ganga í salinn nú og það er vel. En ég hefði einnig gjarnan viljað leggja á það áherslu að hv. 4. landsk. þm. væri hér við.

Ástæðan er sú að til allshn. var vísað frv. til l. um breytingu á áfengislöggjöfinni. Niðurstaðan varð sú að allshn. var aðeins sammála um eitt, að frv. væri svo vitlaust að það væri ekki hægt að notast við það. Hins vegar klofnaði hún í tvo hópa. Annar hópurinn lagði til með brtt. að búa frv. í það form að hugsanlegt væri að það yrði að lagatexta og það er rétt hjá hv. frsm. meiri hl. að þann veg hefur verið gengið frá frv. að það er ekkert atriði í því sem kemur í veg fyrir að það geti orðið eðlilegur lagatexti. En það er dálítið hlálegt að þeir aðilar sem fluttu frv. skyldu ganga þannig frá þessu máli að þetta væri sem sagt fyrst niðurstaða nefndarinnar.

Ég sakna þess vegna hv. 10. landsk. þm. og þykir miður, herra forseti, ef ekki er hægt að tryggja að hann sé við þegar umræðan fer fram. (Forseti: Það er ekki hægt að tryggja að hv. 10. landsk. sé við vegna þess að hv. þm. Guðrún Helgadóttir er stödd í opinberum erindum erlendis.) Ég vona að ástæðan fyrir þeim erindagerðum sé ekki slæm áfengislöggjöf á Íslandi heldur önnur og brýnni verkefni. En það er skaði að málið skuli vera tekið til umræðu undir þeim kringumstæðum, sérstaklega þar sem viðkomandi þm. á einnig sæti í heilbr.- og trn. og hefur þar flutt mörg mál sem kosta þó nokkuð mikla peninga.

Ég ætla þá hér að gera grein fyrir nál. minni hl. og vil, með leyfi forseta, af því það kom nú nokkuð snemma fram og er orðið rykfallið miðað við nál. meiri hl., sem kom mun seinna fram, lesa það en það er mjög stutt:

„Samkvæmt ályktun Alþingis starfar nú stjórnskipuð nefnd að mörkun opinberrar áfengisstefnu. Markmið stefnunnar átti að vera að draga úr áfengisneyslu. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin telur að bjórdrykkja auki áfengisneyslu. Það er og álit þeirra lækna sem allshn. boðaði á sinn fund. Minni hl. leggur því til að frv. verði fellt.“

Undir þetta álit skrifa Ólafur Þ. Þórðarson og hv. þm. Friðjón Þórðarson.

Ég hygg að það sé fátítt að nefnd, sem kallar á sinn fund jafnmarga aðila og þarna var gert, taki ákvörðun í beinni andstöðu við það sem okkar hæfustu menn á þessu sviði telja rétt. Það má vel vera að við höfum viljað ganga frá því í eitt skipti fyrir öll að við teldum þá íslenska lækna, sem fjalla um þetta mál, algjörlega óhæfa. En það er dálítið stór ákvörðun að líta svo á.

Ég veit ekki hvort allt það sem ég segi hér á eftir getur flokkast undir beint álit minni hl. Ég hygg að þar muni ég að hluta til tala eins og mér býr í brjósti. Ég vil þá byrja á því að víkja örfáum orðum að því sem við höfum í þessu landi því að stundum, þegar menn telja að allt sé ómögulegt í íslenskri löggjöf og allt sé vitlaust sem við erum að gera, er gott að hugleiða örlítið hvernig staðan er.

Við eigum glæsilega æsku, Íslendingar, sennilega einhverja þá glæsilegustu í heiminum. Afrek hennar á sviði íþrótta eru svo stórkostleg að ef við gerðum sömu kröfu til þeirra sem fara með stjórn landsins, stjórn atvinnumála, væru engin vandamál til staðar hjá íslenskri þjóð. Ef prósentureikningurinn yrði notaður sem mælikvarði á þessi afrek er hætt við að margur verði hugsi og spyrji sjálfan sig: Búum við þá svo illa að þeirri æsku sem hér er? Hver er staðan á sviði heilbrigðismála hjá þessari fátæku þjóð norður við heimskaut?

Við erum með einhverja lengstu vinnuviku í heimi, við vinnum óhemju mikið, Íslendingar. Engu að síður er meðalaldur á Íslandi sá næsthæsti í heiminum. Óholl áfengisstefna, er hún ástæðan fyrir þessu? Er það óholl áfengisstefna sem hefur leikið okkur það grátt að við höfum náð þessum árangri? Menn tala hér um gróðann sem hugsanlega kemur til ríkissjóðs. En það er nú svo með þennan blessaðan gróða. Íslenskir kaupmenn eru dálítið þreyttir á því hvað það er algengt í reikningsbókum að skrá: Innkaupsverð vöru var þetta, útsöluverð hennar var þetta, hve mikill er gróðinn? Það er ekki spurt: Hvað kostaði að framkvæma það verk að selja vöruna? Alveg eins er ekki spurt: Hvað kostar þetta ævintýri, þessi tilraun sem hv. frsm. meiri hl., 1. þm. Norðurl. v., taldi rétt að stæði í tvö ár, til að rannsaka á þessum sjaldgæfa þjóðflokki hvaða áhrif þessi áfengisstefna hefði? Það er ekki hægt að notast við neinar niðurstöður erlendis frá í þessum efnum. Tilraunin skal framkvæmd á Íslendingum til að fá raunhæfa niðurstöðu. Merkilegt er þetta og sérstæður mannflokkur má það vera hér norður við heimskaut ef hann er svo frábrugðinn öllum öðrum að engar niðurstöður eru nothæfar erlendis frá á sviði áfengismála.

En ég ætla að vekja á því athygli að talið í þúsundum króna verjum við til heilbrigðis- og tryggingamála 10 096 962. En gjöld samtals eru 26 078 803. Inni í þessari tölu er hluti af áfengisvanda Íslendinga falinn. En hann er einnig falinn í tölunni um löggæslu í þessu landi. Hann er einnig falinn í tölunni um kostnað á vegum félmrn. og e. t. v. er hann líka falinn í tölunni sem birtist í erfiðri efnahagsstöðu hjá þessari þjóð.

En það var tvískinnungshátturinn í íslenskri löggjöf í dag sem knúði menn til að leggja þetta fram. Við eigum að setja lög sem hægt er að framfylgja, sem þjóðin virðir. Eru íslensku umferðarlögin þannig? Keyra menn á 70 km hraða eða fara þeir hraðar? Eigum við að afnema hámarkið? Hvað með hassið sem menn eru að neyta innanlands? Eigum við að samþykkja að það verði löglegt eða önnur eiturefni vegna þess að lögin eru brotin? Er enginn tvískinnungur í því hjá íslenskri löggjöf að íslenska ríkið selur brennivínið en þegar menn hafa neytt þess eru þeir færðir í tugthúsið ef þeir sjást á almannafæri? Er enginn tvískinnungur í þessu? Er enginn tvískinnungur í því að fullorðnir megi neyta þess en börn ekki? Hvar er þetta heilaga samræmi sem verið er að tala um?

Ég sé að hv. 2. þm. Reykv. vill leiða hugann frá þessari umræðu. Það blundar kannske örlítil rökhyggja eftir og honum sýnist að það verði hált á því svelli að verja það að nú sé komið samræmi. Smygl félli niðurfari það nú í logandi — tollstjórarnir yrðu sennilega atvinnulausir. Hver trúir því að smygl félli niður? Hvar í veröldinni hefur það gerst? smygla menn ekki ávallt áfengi? Auðvitað heldur smyglið áfram bara vegna hins mikla verðmunar sem verið er að tala um. Það má vel vera að menn bæru ekki jafnmikið með sér út úr Fríhöfninni í Keflavík eftir að þetta hefur verið gert og kannske forsendur fyrir stækkuninni ekki jafnmiklar. En ætli það yrðu ekki einhverjir sem mundu horfa í verðmuninn og bæru með sér eftir sem áður? Er ekki selt áfengi hér í landinu og samt bera menn með sér vín út úr Fríhöfninni? Ef seldur er bjór mundu menn þá ekki halda áfram að bera bjórinn með sér? Hvar er samræmið í þessari trú?

Svarti markaðurinn yrði úr sögunni. Það er nú svo með svarta markaðinn. Miklir bjartsýnismenn eru það sem trúa þessu. Hvenær munu menn ekki reyna að mynda verð fyrir neðan verð sem búið er til til að afla tekna til ríkisins og selja vöru á svörfum markaði? Auðvitað heldur það áfram.

Blöndun á bjórlíki minnkaði eða félli niður. Svo undarlegt sem það er, þá hvarflar það að mér að það sé nokkuð til í þessu, það yrði sennilega um minnkun að ræða. Sennilega er þetta rétt og þetta er trúlega úthugsaðasti punkturinn í þessu öllu saman. Þarna hafa menn legið yfir taflinu og komist að skynsamlegri niðurstöðu. Það verður sennilega um minnkun á þessu að ræða.

Upp yrði tekin fræðsla í skólum. Það er eins og ég hafi heyrt þessa setningu áður. En hvernig hefur ríkisvaldið leikið þessar frægu prósentur sem menn eru að setja inn? 0.5% á að fara í fræðslu. Ætli sama lögfræðingaliðið og reyndist svo liðtækt við að leiðbeina frsm. meiri hl. leiðbeini ekki fjmrh. um það hvernig eigi að komast fram hjá svona atriði í almennum lögum? Þeir eiga textann á blaði þarna niður frá og hann hljóðar eitthvað á þessa leið: Þrátt fyrir ákvæði umræddra laga, að svona miklu skuli varið til þessara hluta, er að þessu sinni ákveðið að ekki meira en ákveðin krónutala fari í þetta. — Auðvitað lítur þetta fallega út þarna, það er meira að segja hugsanlegt að einhverjir þm. noti þetta nú til að friða samviskuna, að þeir séu þó, þrátt fyrir allt, að leggja til að aukin verði fræðsla í skólum og leggja til þess peninga. Spurningin er: Ætli þeir verði ekki jafnhlýðnir þegar kemur að atkvæðagreiðslu um fjárlög að þeir fylgi tillögum lögfræðinganna og skeri till.?

Margþættur tvískinnungur yrði úr sögunni, fullkomin áfengislöggjöf fengin og eina landið í heiminum sem hefði slíka löggjöf væri Ísland. Hvar eru rökin fyrir því að ekki megi drekka áfengi sem er 2.7% en það megi drekka það ef það er 4%? Er þetta ekki tvískinnungsháttur? Eru menn virkilega svo rökheldir að þeir trúi því að þeir séu búnir að höndla sannleikann í þessu máli?

Eitt af því sem allir sem fást við löggjöf sitja uppi með er að lög eru brotin. sú sameiginlega reynsla hefur fylgt mannkyninu jafnlengi og menn hafa sett lög. Spurningin hefur aðeins verið: Hafa lögin verið til gagns gagnvart heildarstefnumörkun þjóðfélagsins þrátt fyrir það að þau voru brotin eða hafa þau ekki verið til gagns? Íslenskir læknar trúa því að sú löggjöf sem er til staðar núna sé góð löggjöf. Þeir vita að hún hefur verið brotin. Engu að síður eru þeir sannfærðir um að við séum með skynsamlega áfengislöggjöf.

Ég tel að allar hugmyndir um það að sú löggjöf, sem nú er verið að setja, verði frekar þjóðinni til sóma en hin sem var séu byggðar á ærnum misskilningi. Röksemdin að erlendir ferðamenn vilja hafa bjór hlýtur að falla um sjálfa sig þegar menn hugleiða að trúlega á aldrei nokkur einasti erlendur ferðamaður eftir að heimsækja þetta land vegna þess að hann telji að hér fái hann besta bjórinn. Menn heimsækja þetta land af allt öðrum ástæðum. Auðvitað eigum við að hafa tekjur af erlendum ferðamönnum.

Ég tel að hér sé verið að taka ákvörðun um nýja skattheimtu á íslenska þjóð, skattheimtu sem mun kosta okkur útgjöld í heilbrigðismálum, svo mikil útgjöld að ég efa að allir, sem eiga nú að greiða skattana sína, verði ánægðir með skattalöggjöfina og framkvæmd hennar. Er mönnum ekki ljóst að það hljóta að vera takmörk fyrir því hverju ein þjóð getur varið til heilbrigðismála? Vita menn ekki að hver einasta þjóð um alla Vestur-Evrópu hefur sett sér það markmið að reyna að auka fyrirbyggjandi aðgerðir? Auðvitað hljótum við Íslendingar að setja okkur það markmið að reyna að auka fyrirbyggjandi aðgerðir.

Ég hef áhuga á því, herra forseti, að vitna í grein eftir Tómas Helgason prófessor og vildi gjarnan fá að vita hversu lengi forseti hefur hugsað sér að halda áfram fundi. (Forseti: Þetta var góð spurning, eins og þar stendur, því að það var meining forseta að halda þessum fundi áfram í mesta lagi til kl. sjö, kannske nokkrar mínútur fram yfir ef þannig stæði á. En ef svo stendur á hjá hv. ræðumanni að hann getur ekki lokið ræðu sinni nema á mjög löngum tíma fer þessum fundi nú að ljúka.) Ræðumaður á ekki eftir mjög langan tíma en hann telur að það verði ekki staðið við það markmið að ljúka fundinum kl. sjö úr því sem komið er og spurning hvort ekki væri skynsamlegt að gera hlé.