06.05.1985
Neðri deild: 64. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4845 í B-deild Alþingistíðinda. (4116)

86. mál, áfengislög

Gunnar G. Schram:

Herra forseti. Ég vildi hér með segja nokkur orð þar sem ég skrifa undir þetta nál. sem hér liggur fyrir, um frv. til l. um breytingu á áfengislögunum nr. 82/1969, með fyrirvara og vildi gjarnan mega fá tækifæri til þess að gera í stuttu máli grein fyrir því í hverju sá fyrirvari felst.

Í því frv., sem hér hefur verið á dagskrá, er gert ráð fyrir því að áfengislögunum verði breytt á þá lund að heimilað verði að selja í Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins sterkt öl af ákveðnum styrkleika og lúti sala þess og dreifing í einu og öllu ákvæðum laga um meðferð annars áfengis.

Það er ljóst að þótt hingað til hafi ekki verið heimild í lögum til almennrar sölu áfengs öls hérlendis hefur engu að síður verið um allnokkra sölu og neyslu þess að ræða á undanförnum árum. Það er í ljósi þess sem ég held að við verðum að líta á þessar brtt. sem hér liggja fyrir þegar fjallað er um þetta mál og um það er tekin ákvörðun.

Skv. opinberum skýrslum voru seldir 600 þús. lítrar öls í Fríhöfninni á Keflavíkurflugvelli árið 1984, en það samsvarar tæpum tveimur milljónum flaskna. Skv. upplýsingum framleiðenda óáfengs öls hér á landi var á því sama ári, þ. e. í fyrra, selt sama magn, eða um 600 þús. lítrar, til veitingahúsa til gerðar hins svonefnda bjórlíkis. Samtals er hér um að ræða u. þ. b. 8 lítra af áfengu öli á mann 20 ára og eldri. Þessu til viðbótar kom fram á fundi þeirrar þingnefndar Nd. sem um málið fjallaði að talið er að ólöglegur innflutningur öls til landsins að bruggi viðbættu sé um 10 lítrar á mann á ári. En ekki er af eðlilegum ástæðum unnt að staðreyna þá tölu. Skv. þessum tölum má því telja líklegt að heildarneysla áfengs öls í dag hér á landi sé einhvers staðar á bilinu 15–20 lítrar á mann.

Þetta sýnir að um allverulega sölu áfengs öls er að ræða í landinu í dag í ýmiss konar mynd. Hlýtur því sú spurning að vakna hvort við slíkt óbreytt ástand eigi að búa eða hvort ekki sé æskilegt, eins og málum er nú komið, að leyfa sölu sterks öls í verslunum Áfengisverslunarinnar með þeim takmörkunum sem gert er ráð fyrir í till. allshn. Það er raunverulega kjarni málsins hér og til þess atriðis verður að taka afstöðu í þessu máli.

Ef af því yrði að slík sala yrði leyfð, eins og frv. og brtt. gera ráð fyrir, má þá búast við nokkurri aukningu á heildarmagni selds áfengis í landinu þrátt fyrir að um allmikla sölu á áfengu öli sé að ræða þegar í dag eins og ég gat um. Jafnframt má einnig búast við nokkurri breytingu á neysluvenjum í þessum efnum. Af þessum sökum er augljóslega mjög mikilvægt að ekki sé rasað um ráð fram við slíka breytingu heldur gaumgætilega athugað hvernig að slíkri breytingu skuli staðið. Er það ekki síst með tilliti til þess sem lýtur að sölu annarra áfengra drykkja í landinu. Þar hlýtur sú spurning m. a. að koma upp hvort ekki sé þá ástæða jafnframt til þess að endurskoða að einhverju leyti þær reglur sem um veitingu þeirra og sölu gilda með það markmið í huga að um sem minnsta heildaraukningu selds áfengismagns í landinu verði að ræða. Það þýðir m. ö. o. að sala áfengs öls verði ekki hrein viðbót við það áfengismagn sem nú er seli í landinu. Ég held að þetta sé mjög mikilsvert atriði. Á það var bent af mörgum þeim sem komu til viðræðu við allshn. Nd. og ég held að það sé full ástæða til að gefa þessu atriði sérstakan gaum.

Þann 19. maí 1983 skipaði ríkisstj. að tilmælum Alþingis nefnd til þess að marka opinbera stefnu í áfengismálum. Eiga sæti í henni fulltrúar ýmissa félagssamtaka, læknar og aðrir þeir sem starfa sinna vegna hafa afskipti af áfengismálum. Nefndin skilaði tillögum um átak í áfengismálum í nóvember 1983 en það hafði henni verið sérstaklega falið af ríkisstj. Í febr. í fyrra, 1984 skilaði nefndin síðan öðrum sérstökum till. og þá um átak gegn neyslu og útbreiðslu vímuefna. Að mínu mati hefði verið sjálfsagt og eðlilegt þegar um svo viðamikla breytingu á áfengislöggjöfinni er að ræða, eins og heimild til sölu sterks öls, að fá um það mál allítarlega álitsgerð þessarar nefndar og einnig till. hennar um það hvernig staðið skuli að framkvæmd málsins ef ölið verður leyft með það fyrir augum að sala þess verði ekki hrein viðbót við sölu annars áfengis. Bar ég þess vegna fram eftirfarandi till. í allshn. um meðferð þessa máls, með leyfi hæstv. forseta:

Allshn. Nd. samþykkir að vísa frv. til hinnar stjórnskipuðu nefndar um mörkun opinberrar stefnu í áfengismálum og óska eftir álitsgerð hennar um efni frv. og jafnframt till. um það hvernig staðið skuli að sölu og dreifingu áfengs öls, verði það heimilað. Skal álitsgerð nefndarinnar liggja fyrir í upphafi næsta þings.“

Að mínu mati hefði verið sjálfsagt og eðlilegt að fara þessa leið í þessu máli. Hér er um það að ræða að leita álits og ráða þeirra manna sem sérfræðiþekkingu hafa í þessum efnum í stað þess að láta meðferð þessa máls í n. í þinginu eina nægja áður en til lokaafgreiðslu þess kemur. Í öðru lagi sýnist það nokkuð sérkennileg vinnubrögð, svo ekki sé meira sagt, að ríkisstj. setur á laggirnar að tilhlutan Alþingis sérstaka nefnd um mótun opinberrar stefnu í áfengismálum en síðan sé engin ástæða talin til þess að leita leiðsagnar nefndarinnar þegar fjallað er um það mikla álitamál hvort leyfa eigi sölu áfengs öls hér á landi eða ekki.

Af þessum sökum og vegna þess að þessi till. hlaut ekki stuðning í n., eins og frsm. allshn. Nd. gat um áðan, hef ég ritað með fyrirvara undir álit meiri hl. n. sem hér liggur fyrir. Það er ljóst að framkvæmd þessarar till. minnar hefði kostað það að málið hefði tafist í meðferð hér í þinginu um nokkra mánuði en af þeim ástæðum sem ég nefndi hefði það ekki átt að koma að sök.

Í öðru lagi vil ég gera fyrirvara við 2. gr. brtt. sem hér eru lagðar fram á þskj. 733. Þar er raunverulega farið út fyrir ramma þessa máls, ef svo mætti að orði komast. Hér er verið að fjalla um áfengt öl, spurninguna um heimild til þess að leyfa bruggun þess. En í 2. brtt. segir að 7. gr. laganna skuli orðast svo að bannað er án leyfis dómsmrh. brugg á Íslandi eða að búa til áfenga drykki o. s. frv. Hér er ekki aðeins verið að tala um að brugga öl heldur einnig að búa til áfenga drykki. Það er m. ö. o. verið að heimila það hverjum og einum, að vísu með leyfi dómsmrh., að fara að stunda hér gerð áfengra drykkja en ekki aðeins öls. Slík heimild hefur ekki verið í lögum á Íslandi til þessa. Í núverandi 7. gr. áfengislaganna segir að bannað sé að brugga á Íslandi eða búa til áfenga drykki en í 2. málsgr. þessarar sömu 7. gr. er síðan heimilt að gera á þessu undantekningu til þess að brugga öl fyrir varnarliðið og til útflutnings.

Ég tel að við hefðum átt að halda 7. gr. í sjálfu sér sem minnst breyttri, fjalla þar aðeins um heimildina til bruggunar áfengs öls en ekki útfæra hana yfir alla drykki og þá jafnt sterka drykki sem aðra. Ég held að þetta sé óþörf viðbót og sé hér til óþurftar að blanda þessu tvennu saman. Satt að segja finnst mér dómsmrh. hafa fengið æði mikið vald í hendurnar ef hann getur nú skv. þessari brtt. heimilað hverjum sem er að hefja hér framleiðslu sterkra drykkja. Það er ekki í lögum. Ég held að það hafi í raun ekki vakað fyrir flm. Um það hefur ekkert verið rætt, þetta kemur eins og skollinn úr sauðarleggnum og ég vil gera við það athugasemd.

Að lokum, herra forseti, ég ætla ekki að lengja þennan fund sem þegar hefur staðið alllengi en ég vil þó að lokum víkja örfáum orðum að brtt. frá Kristínu Halldórsdóttur sem var dreift hér í deildinni í dag á þskj. 849. Þar leggur hún til að það framlag, sem um er rætt í 6. tölul. brtt., þ. e. að varið skuli árlega'/2% af skatttekjum ríkissjóðs vegna framleiðslu og sölu áfengs öls til fræðslu um skaðsemi áfengis, verði hækkað upp í 1%.

Ég held að hér sé skynsamleg till. á ferðinni. Það veit enginn hve há þessi upphæð muni raunverulega verða ef sterkt öl verður leyft en það má reikna með að 1% geti numið kannske 6–7 milljónum króna og þó í mesta lagi. Ég held að hér sé skynsamleg brtt. á ferðinni og lýsi fylgi við hana vegna þess að alveg burt séð frá því hvort sterka ölið kemur eða verður ekki samþykkt er það hin mesta nauðsyn, nákvæmlega eins og á sviði vímuefna, að auka og efla fræðslu í áfengismálum, í skólum kannske fyrst og fremst en einnig á öðrum sviðum, ekki síður en fræðslu um skaðsemi tóbaksreykinga. Þess vegna tel ég að þessi brtt. hv. þm. horfi til bóta.

Þetta eru þau atriði sem ég vildi gera sérstaklega að umtalsefni að þessu sinni.