07.05.1985
Sameinað þing: 79. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4848 í B-deild Alþingistíðinda. (4119)

346. mál, hlunnindaskattur

Fyrirspyrjandi (Guðrún Agnarsdóttir):

Herra forseti. Nýlega var rætt hér á þingi frv. til laga um breytingar á lögum um tekjustofna sveitarfélaga. Var nánar tiltekið lagt til að fella niður heimildarákvæði fyrir sveitarfélög til að leggja 4% hlunnindaskatt á utansveitarmenn. Til að kynna mér nánar þetta mál hringdi ég í nokkrar opinberar stofnanir hér á höfuðborgarsvæðinu. Þær upplýsingar, sem mér þannig áskotnuðust, urðu kveikjan að þeim fsp. sem ég ber hér fram til hæstv. félmrh. Áður en ég vík að þeim vil ég fyrst reifa nokkur málsatriði. Til eru ýmsar aðferðir við að meta fasteign.

Söluaðferð dugar vel þar sem hlutirnir ganga kaupum og sölum og verðmæti má dæma af söluverði. Það á illa við um hlunnindi sem sjaldan ganga kaupum og sölum. Kostnaðaraðferð er ekki nothæf þar sem um er að ræða náttúruauðlind sem litlu hefur oft verið kostað til. Því hefur við fasteignamat á hlunnindum verið beitt svokallaðri tekjuaðferð. En þá er verið að reyna að gera sér í hugarlund verðmæti höfuðstóls með því að áætla gildi hans út frá þeim tekjum sem hann gefur af sér. Í því tilviki, sem hér um ræðir, er lögbundin sú reikningsaðferð að tífalda tekjurnar til að fá út verðgildi höfuðstóls. Þessi háttur hefur verið lögbundinn frá 1978 og tekur því engan veginn tillit til þeirra ávöxtunarkrafna sem nú gilda í þjóðfélaginu.

Ef við lítum á mat hlunninda á árinu 1984 kemur eftirfarandi í ljós: Það er þá eftir landshlutum, Reykjanes hefur 90 staði þar sem hlunnindamat er 199 millj. 752 þús., Vesturland og Vestfirðir hafa 798 staði þar sem hlunnindamat er 203 millj. 404 þús., Strandasýsla og Norðurland vestra og eystra með 1300 staði þar sem hlunnindamat er 107 millj. 979 þús., Austurland með 254 staði 16 millj. 623 þús. og Suðurland með 841 stað 84 millj. 98 þús. Þetta gerir á öllu landinu 3283 staði með hlunnindi að heildarmati 611 millj. 866 þús. Og þessar tölur gilda bæði um hlunnindi í eigu utan- og innansveitarmanna. Í heildarmat hlunninda, eins og áður gat, upp á 611 millj. 866 þús. þarf síðan að della með 10 til þess að fá út tekjurnar af hlunnindum á landinu öllu. Þá fæst talan rúmlega 61 millj. kr.

Þetta er ekki ýkja há tala ef tekið er tillit til þess að þarna er um að ræða landið allt og þarna er innifalinn jarðvarmi auk lax- og silungsveiði, dúntekju, malarnáms, rekaviðar, selveiða o. fl. Ef við snúum okkur nú að laxveiðinni eingöngu þá eru leyfðir laxveiðidagar á hverju sumri um 100. Gildir sú regla að öllum jafnaði að ódýrast er að veiða í byrjun og lok þess tímabils, þ. e. fyrri hluta júní og síðari hluta ágúst, en langdýrast er um miðbikið þegar mest er af laxi. Tilhneigingin undanfarin ár hefur verið sú að gjöfulustu og skemmtilegustu árnar hafa verið leigðar útlendingum, að sögn fyrir ærið fé, a. m. k. um hámarkstímann. Hafa reyndar nýlega birst tölur í blöðum um þau efni. Hafa erlendir aðilar verið viljugir að greiða svo háa leigu fyrir sumar árnar að langflestir Íslendingar geta ekki við slíkt verð keppt.

Reyndar er verð á veiðileyfum mjög breytilegt eftir árstíma, ám, veiðistað í á og svo eftirspurn eftir leyfum. Erfitt er að fá uppgefið verð á veiðileyfum í hinum dýrari ám, en þar heyrist fleygt ævintýralegum tölum. Hins vegar eru aðrar ár sem þykja miðlungi góðar eða ágætar en eru ódýrari og Íslendingum býðst að veiða í. Má þar nefna sem dæmi Leirvogsá sem kostar 7200 kr. fyrir eina stöng í einn dag í júlímánuði. Grímsá kostar 7200 fyrir eina stöng í einn dag í ágúst, en þar eru tíu stangir. Sú á gefur því 72 000 kr. á dag utan hámarkstíma eða rúmar 7 millj. kr., ef reiknað er með þessu lægra verði yfir alla 100 veiðidagana. Eins og áður sagði var reiknað með rúmlega 61 millj. kr. í tekjur af hlunnindum á landinu öllu á s. l. ári. Við þurfum því ekki nema tíu meðalgóðar laxveiðiár, ekki nærri því á hámarksverði, til að fá út rúmar 70 millj. kr. í hlunnindatekjur á ári af þeim eingöngu. Og þá skulum við ekki gleyma að undan er skilinn jarðvarmi allur.

Þetta dæmi gengur einfaldlega ekki upp. Og til þess að kanna þessa málavöxtu frekar hef ég leyft mér að spyrja hæstv. félmrh. á þskj. 554:

1. Hve miklar voru tekjur sveitarfélaga árið 1984 af 4% hlunnindaskatti skv. 5. mgr. 3. gr. laga nr. 73/1980, um tekjustofna sveitarfélaga?

2. Hvaða sveitarfélög hafa möguleika á að nýta þennan tekjustofn og hver þeirra hafa beitt heimild laganna og lagt hlunnindaskatt á utansveitarmenn?

3. Hve margir eigendur hlunninda á landinu eru búsettir utan þeirrar sveitar þar sem hlunnindaeign þeirra er?