30.10.1984
Sameinað þing: 12. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 617 í B-deild Alþingistíðinda. (412)

100. mál, þingnefnd vegna rekstrarvanda í sjávarútvegi

Björn Dagbjartsson:

Herra forseti. Ég er út af fyrir sig ekki mótfalinn því að sérstakri þingnefnd verði falið að fjalla um og skoða grannt rekstrarvanda sjávarútvegsins sem ég hygg að sé hvergi orðum aukinn og á þó að líkindum eftir að vaxa mjög á næstunni ef svo heldur fram sem horfir nú í launamálum í þjóðfélaginu. Ég get tekið undir það að ekkert sé á móti því að einir sjö þm. bætist í hóp þeirra sérfræðinga sem um þennan margfræga rekstrarvanda sjávarútvegs hafa fjallað og fjalla með þeim árangri sem flm. benda á með þessari till. Hitt get ég efast um, að árangur af starfi þeirra verði mjög mikill eða áþreifanlegur, a.m.k. ekki á næstunni.

Það eru þó nokkrar hliðstæður um nefndir sem slíkar. Það var sérstök nefnd send til þess að kanna og bera saman rekstur loðnuútvegs í nágrannalöndunum, Danmörku, Færeyjum og Noregi, árið 1978. Sú nefnd kom reynslunni ríkari, efast ég ekki um, en út úr þeirri athugun kom ekkert sérstakt að því er ég best veit. Það var sérstök nefnd skipuð sumarið 1979 til þess að athuga sölukostnað í útflutningsverslun með fiskafurðir. Sú nefnd safnaði mörgum og gagnlegum upplýsingum, henni dapraðist síðan starfið æ meir og hætti síðan. Fyrrv. hv. þm. Kjartan Ólafsson var formaður þeirrar nefndar. Þar sem ég var í nefndinni ásamt honum og fleiri góðum mönnum þá, þ. á m. fjórum þm. ef ég man rétt, margítrekaði ég við hann fyrirspurnir um hvort nefndarstörfum væri lokið. Hann átti við því sárafá svör. Síðan hef ég ekkert af nefndinni heyrt, en hún hefur ekki opinberlega verið leyst frá störfum svo ég viti.

Það hafa margar nefndir athugað rekstrarvanda togaraútgerðar. Ég endurtek það að að ætla þessari nefnd, nú þegar í hönd fer mesti annatími þingsins, að koma með grundvallarsvör við grundvallarspurningum fyrir áramót er mikil bjartsýni. Fyrir utan alla þessa samanburðarliði, 1-8, sem taldir eru upp, virðist nefndinni ætlað að skapa að miklu leyti fiskveiðistefnu fyrir næsta ár eða næstu ár. Maður hlýtur að spyrja: Til hvers höfum við sjútvrh. ef þessari nefnd er ætlað að sjá fyrir þessu, einu af meginhlutverkum hans?

Það er tekið fram að nefndin skuli leita eftir því við sjútvrh. sem segir, með leyfi forseta, í niðurlagi till.: „Nefndin skal strax í upphafi fara þess á leit við sjútvrh. að hann beiti sér fyrir því að opinberir sjóðir grípi ekki til aðgerða sem leiða mundu til stöðvunar skipa meðan unnið er að fyrsta áfanga nál.“ — Þá spyr ég hvort rétt sé yfirleitt og hverjum sé greiði gerður með því að stöðva framgang mála af þessu tagi.

Það er oft leitast við að kenna einhverjum óþekktum ráðgjöfum í bankakerfinu um það að á árunum sem liðin eru síðan 1977–1978 hafi þessir ráðgjafar nánast skipað útvegsmönnum að taka lán með afarkostum og þeir hafi nánast skrifað undir þær gerðir grátandi eins og Árni Oddsson lögmaður fyrrum tíð. Ég ætla ekki að fara að nafngreina einstaka útvegsmenn eða togara eins og hér hefur verið gert. Þeir eru þó nokkuð margir og það væri sjálfsagt hægt að telja þá í tugum. En ég held að það stríði gegn réttarvitund hins almenna þjóðfélagsborgara að beita hér einhverri pennastriksaðferð sem upp var fundin á s.l. ári.

Að lokum finnst mér að allt þetta mál beri nokkurn keim af hinum gömlu úrræðum Alþb. Reyndar segir með skýrum stöfum í fskj., sem þessu frv. fylgir, að Aþb. telur að ekki eigi að láta köld markaðslögmálin ráða úrslitum um atvinnuþróun, heldur beri að mæta framleiðslusamdrætti og fjármagnskostnaði sjávarútvegsins á skipulegan hátt á grundvelli félagslegra sjónarmiða. Ég bið menn að taka eftir þessu, að það beri að mæta framleiðslusamdrætti og fjármagnskostnaði á grundvelli félagslegra sjónarmiða. Það er alltaf verið að benda á einhverja svindlara. Það eru útvegsmenn, það eru frystihús, það eru söluaðilar. Það var fundið upp hér á árunum af hæstv. fyrrv. sjútvrh., núverandi formanni bankaráðs Landsbankans, — að vísu ekki fundið upp en notað mikið af honum, — hugtakið framleiðni. Framleiðni átti að verða allra meina bót, átti að leysa öll mál. Síðan þá hefur í stjórnarmyndunarviðræðum sem ég hef fylgst með ætíð verið reynt að finna hugtök sem hafa átt að leysa allan vanda. Safnast hefði auður hér og þar í hendur örfárra manna. En það hefur aldrei verið gerð tilraun til þess að lita á það að þeir sem reksturinn stunda verða að bera ábyrgð á honum og það eru þeir sjálfir sem hafa komið sér í þessi vandræði að miklu leyti.