07.05.1985
Sameinað þing: 79. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4849 í B-deild Alþingistíðinda. (4120)

346. mál, hlunnindaskattur

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Samkvæmt upplýsingum, sem liggja fyrir í félmrn., hafa um 70 sveitarfélög á Íslandi möguleika á að nýta sér tekjur af hlunnindaskatti skv. lögum nr. 73/1980, um tekjustofna sveitarfélaga. Það sem er ábótavant við upplýsingar af þessu tagi er það að sveitarfélögin hafa á undanförnum árum ekki skilgreint þetta nægjanlega vel í sínum ársreikningum þannig að aðgengilegt væri til þess að fá svör við slíkum spurningum sem hér voru lagðar fram. Hins vegar ritaði rn. öllum þessum 70 sveitarstjórnum og óskaði eftir upplýsingum frá þeim í samræmi við efni þessarar fsp. á þskj. 554.

Svör bárust frá 48 sveitarstjórnum. Í svörunum kemur fram að 35 af þessum 48 sveitarfélögum, sem sent hafa svör, hafa beitt heimild laganna og lagt hlunnindaskatt á utansveitarmenn. Upphæð hlunnindaskatts í þessum 35 sveitarfélögum er samtals 1 533 755 kr. á árinu 1984 og skv. svörunum hefur þessi skattur verið lagður á 209 utansveitarmenn sem eru eigendur hlunninda í þessum sveitarfélögum.

Mér þykir rétt að lesa upp þessi 48 sveitarfélög sem hafa svarað formlega þessari fsp. Þau eru Hvalfjarðarstrandarhreppur, sem hefur lagt hlunnindaskatt á 3 utansveitarmenn, Andakílshreppur á 9, Lundarreykjadalshreppur á 7, Reykholtsdalshreppur á 5, Stafholtstungnahreppur á 8, Borgarhreppur, þar er ekki tilgreindur fjöldi en þeir hafa lagt á um 90 440 kr. skatt, Hraunhreppur á 8 utansveitarmenn, Álftaneshreppur á 4, Kolbeinsstaðahreppur á 6, Eyjahreppur á 3, Miklaholtshreppur á 2, Staðarsveit á 3, Helgafellssveit á 2, Haukadalshreppur á 9, Fellsstrandarhreppur á 2, Klofningshreppur á 10, Mosvallahreppur á 1, Ögurhreppur á 3, Reykjarfjarðarhreppur, þar er ekki lagður neinn skattur á en gefnar upplýsingar um það, Nauteyrarhreppur á 5, Árneshreppur á 5, Hrófbergshreppur á 4, Hólmavíkurhreppur hefur ekki lagt á hlunnindaskatt en gefur upplýsingar um það, Kirkjuhólshreppur á 1, Bæjarhreppur á 9, Fremri-Torfustaðahreppur á 6, Þverárhlíðarhreppur á 8, Þorkelshólshreppur á 3, Torfalækjarhreppur á 6, Vindhælishreppur hefur ekki lagt á skatt en gefur upplýsingar, Skagahreppur á 2, Staðarhreppur hefur ekki lagt á skatt, Sketilsstaðahreppur á 12, Lýtingsstaðahreppur hefur ekki lagt á skatt en gefur upplýsingar, Viðvíkurhreppur á 1, Svarfaðardalshreppur hefur ekki lagt á, Skútustaðahreppur ekki heldur, Reykjahreppur á 2, Tjörneshreppur hefur ekki lagt á skatt, Presthólahreppur ekki heldur, Svalbarðshreppur á 12, Skeggjastaðahreppur á 7, Vopnafjarðarhreppur á 22, Hjaltastaðarhreppur á 5, Kirkjulækjarhreppur hefur ekki lagt á, Leiðvallarhreppur á 7, Eyrarbakkahreppur á 2 og Hraungerðishreppur á 5. Samtals eru þetta um 35 sveitarfélög sem hafa lagt þessi gjöld á 209 utansveitarmenn. Ég mun svo afhenda fyrirspyrjanda skrá yfir þau 70 sveitarfélög sem hafa möguleika skv. lögunum að leggja á þennan skatt.

Eins og fram kom í máli fyrirspyrjanda er hér um allháar upphæðir að ræða miðað við fasteignamat og ættu þess vegna að koma fram hærri fjárhæðir í skatttökunni en raun ber vitni. Ég vil geta þess að nú er hafin endurskoðun á tekjustofnum sveitarfélaga. Það er mín skoðun, og ég veit að það hefur þegar komið fram í endurskoðunarnefndinni, að nauðsynlegt sé að taka alla þessa þætti til vandlegrar endurskoðunar miðað við þá þróun sem hefur orðið í þessum hlunnindamálum á síðari árum og færa þá að minnsta kosti í það form að auðveldara sé að fylgjast með og fá upplýsingar um raunverulega skatttöku sem er vissulega mikilvægt í þessum málum.