07.05.1985
Sameinað þing: 79. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4853 í B-deild Alþingistíðinda. (4125)

420. mál, fiskeldi

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ekki ætla ég að efna til kapphlaups hér í ræðustólinn um þetta mál. En ég kveð mér hljóðs til að vekja athygli á því að ég spurðist fyrir nánast um alveg sama mál hér fyrir fáum vikum og þá bæði hæstv. landbrh. og sjútvrh., innti eftir því hvað gert hefði verið á grundvelli þál. um fiskeldi, klak og eldi sjávar- og vatnadýra, fiskirækt, en það er þál. sem vísað var til ríkisstj. á s. l. vori. Við höfðum flutt um þetta sérstaka þáltill., nokkrir þm. Alþb., og till. þessari var vísað til ríkisstj. Hæstv. ráðherrar báðir viku að þessu máli í svörum sínum hér fyrir skemmstu í Sþ. og þar kom raunar efnislega fram svipað og hér kom fram í máli hæstv. landbrh. Þó vantaði það kannske á að hæstv. sjútvrh. upplýsti að á hans vegum hefði á síðustu tveimur árum verið nokkuð að þessum málum unnið. Ljóst er að það hefur verið veruleg togstreita á milli sjútvrn. og landbrn. um þessi mál og á þann hnút hefur verið reynt að höggva með skipun sérstakrar nefndar á vegum hæstv. forsrh.

Ég tel allan áhuga hv. alþm. á fiskeldismálum og fiskirækt vera góðra gjalda verðan. Hér liggja fyrir Sþ. ein þrjú mál, nr. 427, 449 og 478, um fiskeldi og fiskirækt, hvert með sínum hætti, en öll taka þau til atriða sem komu fram í þáltill. okkar Alþb.-manna á síðasta þingi sem vísað var til ríkisstj. Það er raunar ekkert efnislega nýtt í þessum þáltill. sem ekki kom fram þá. Ég vil vekja athygli á þessu en jafnframt taka það fram að ég tel allan eftirrekstur af hálfu hv. alþm. í sambandi við fiskeldi góðra gjalda verðan. Því miður hefur ekki verið af framkvæmdavaldsins hálfu staðið að málum sem skyldi á undanförnum misserum og því er ekki að vænta þess árangurs af því starfi sem þegar hefur verið reynt að efna til af ýmissa hálfu eins og ella hefði getað orðið.