07.05.1985
Sameinað þing: 79. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4854 í B-deild Alþingistíðinda. (4126)

420. mál, fiskeldi

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Einarsson):

Herra forseti. Ég þakka þau svör sem komu fram frá hæstv. landbrh. en þau voru náttúrlega afar þunn. Varla trúi ég að búið sé að semja heil drög að frv. til þess eins að leiða saman ýmsa sem hafa verið að föndra við fiskeldismál á undanförnum árum. Mér er þá raunar spurn, fyrst ekki er annað látið í ljós, hvort rn. sé hætt við að halda til streitu ýmsum atriðum sem menn þykjast hafa haft fréttir af að það muni hafa sett í drög sín að lögum um fiskeldi, svo sem það að skipuð verði sérstök nefnd til þess að gefa út leyfi handa mönnum til að reka fiskeldi, hvort landbrn. ætli að skipa sérstaka fisksjúkdómanefnd, hvort landbrn. ætli að setja sérstök lög um slátrun laxfiska, hvort landbrh. ætli sér það vald að staðfesta samþykktir frjálsra samtaka um fiskeldis- og hafbeitarstöðvar og hvort ráðh. ætli að leggja til að mynduð verði sölusamtök afurða fiskeldis sem hafi einokun á sölu afurða erlendis.

Það verður kannske lagt á eitthvert sérstakt fiskeldisgjald og ekki yrði maður hissa þó að því fylgdi kannske einhver fiskeldissjóður ríkisins. Maður veltir því þess vegna fyrir sér hvort þessi áform hafi einhvern tíma verið uppi og ef þau hafa verið uppi, hvort rn. sé þá hætt við að leggja þetta til. Af þessum upplýsingum var virkilega ástæða til að ætla að það hafi verið og sé kannske enn vilji rn. að koma upp einu af þessum gömlu, góðu, dæmigerðu kerfum sem við þekkjum svo vel, gamaldags bónbjargakerfi, þar sem fyrst á að beygja menn á hné til þess að fá leyfi til að reka fiskeldisstöð, síðan verða þeir beygðir á hnén til þess að fá lán hjá Fiskeldissjóði ríkisins, sem væntanlega verður kosin stjórn fyrir hér á hv. Alþingi, og loks bogna þeir meira og meira undan millifærslukerfi, einhvers konar meðalverði sem væntanlega verður reiknað út um allar laxaafurðir á Íslandi, og svo náttúrlega miðstýrðum sölusamningum sem verða líklega á hendi Sölustofnunar fiskeldisstöðva með einkaleyfi á söluafurðum erlendis.

Þessi áform eru kannske uppi á sama tíma og alls staðar er verið að reyna að breyta til annarrar áttar, að grisja reglugerða- og lagafrumskóg, og maður spyr sig hvort hér sé kannske bara ein vanhugsunin enn, hvort þetta sé gert í ógáti, menn hafi hreinlega bara fallið í þann gamla farveg að búa nú til eitt gamla, góða kerfið enn, eða hvort hér eigi að ná yfirráðum yfir þessari grein, færa hana undir landbrn., gera úr henni einhvers konar aukabúgrein milli mjalta. Og ef svo er, þá eru þetta fyrstu hættumörkin fyrir fiskeldi á Íslandi. Og miklu alvarlegri en þau að laxeldisstöðin í Kollafirði hafi ekki ráðfært sig við laxeldisbrautina á Hólum í Hjaltadal.