07.05.1985
Sameinað þing: 79. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4855 í B-deild Alþingistíðinda. (4127)

420. mál, fiskeldi

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Mér fannst dálítið erfitt að átta mig á því hver er vilji hv. 4. landsk. þm. Hann er að spyrjast fyrir um hvað líði lagasetningu og síðan þylur hann upp þær ógnir sem muni fylgja í kjölfar slíkrar lagasetningar. Eftir því að dæma virðist einna æskilegast að engin slík lagasetning færi fram. Ég held að engar hugmyndir hafi verið uppi um það í landbrn. að fara að leggja einhverja fjötra á þessa starfsemi. Þvert á móti er hugmyndin með lagasetningu að styðja þessa starfsemi og reyna að stuðla að sem bestri nýtingu á því fjármagni sem varið er til hennar. Þess vegna var á s. l. ári t. d. gerð áætlun um mjög aukna starfsemi stöðvarinnar í Kollafirði til þess að standa að tilraunastarfinu. Það virtist ætla að bera góðan árangur á þessu ári en því miður kom upp það óhapp þar sem ykkur öllum er kunnugt og því mun þar verða hlé á í bili. En vonandi verður þar tekið á af auknum krafti aftur strax á komandi vetri þegar sótthreinsun hefur farið fram í stöðinni.

Ég sé ekki ástæðu til þess að elta ólar við órökstuddar fullyrðingar, sem hv. fyrirspyrjandi hafði uppi hér áðan en ítreka það að tilgangurinn með slíkri lagasetningu er að styðja og efla þessa atvinnustarfsemi en ekki leggja hana í fjötra.