07.05.1985
Sameinað þing: 79. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4855 í B-deild Alþingistíðinda. (4129)

425. mál, stofnútsæði

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Jónsdóttir):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að leggja fram fsp. til hæstv. landbrh. varðandi stofnútsæði. Stofnútsæði er ræktað við Eyjafjörð undir sérstöku eftirliti til þess að komast hjá sjúkdómum í kartöflum. Ekki er þörf að tíunda hversu mikilvægt er að nægilegt framboð sé af heilbrigðu útsæði til þess að koma í veg fyrir sjúkdóma. Því vakti það furðu mína þegar ég heyrði að tugir tonna af stofnútsæði hafi skemmst vegna gáleysis í flutningum. Hér mun hafa verið um að ræða 80–90 tonn af stofnútsæði sem flutt var með Drangi frá Norðurlandi til Reykjavíkur. Ef satt er að kartöflurnar hafi verið fluttar á opnum bíl í 12 stiga gaddi til skips nær kæruleysið og vanþekking á meðferð þessarar vöru hámarki. Til þess að varpa skýrara ljósi á þetta mál hef ég leyft mér að leggja fram eftirfarandi fsp. til hæstv. landbrh.:

1. Hve mörg tonn af stofnútsæði skemmdust vegna frosta í flutningum með Drangi nú nýverið frá Norðurlandi til Reykjavíkur?

2. Hvað er þetta stór hluti af því stofnútsæði sem til er í landinu?

3. Hve hátt er þetta tjón metið?

4. Hver ber beinan fjárhagslegan skaða af þessu tjóni?

5. Hver tók ákvörðun um þennan flutningsmáta?

6. Mun það stofnútsæði sem enn er til í landinu fullnægja eftirspurn eða þarf að auka innflutning vegna þessa tjóns?