07.05.1985
Sameinað þing: 79. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4857 í B-deild Alþingistíðinda. (4132)

440. mál, öndunarfærasjúkdómar hjá starfsfólki álversins í Straumsvík

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Einarsson):

Herra forseti. Í skýrslu frá Vinnueftirliti ríkisins, sem ber heitið „Mengunarúttekt í kerskálum Íslenska álfélagsins í Straumsvík,“ og er birt í jan. 1984, kemur ýmislegt fram um mengun í þessu kompaníi. Með leyfi forseta vil ég lesa um hvernig ástandið var að mati rannsóknarmanna Vinnueftirlitsins í árslok 1983:

„Almennt má segja að rykmengun í kerskálum ÍSALs sé of mikil en hins vegar skapi flúoríðmengun, mengun flúorvetnis, brennisteinsdíoxíðs og kolmónoxíðs ekki alvarleg vandamál ef litið er á hvern þátt fyrir sig. Flúoríðmengun getur þó verið of mikil við einstök störf vegna þess að ryk, flúorvetni og brennisteinsdíoxíð hafa áhrif á öndunarfæri og lungu þeirra sem í snertingu við þessi efni komast. Má gera ráð fyrir að starfsmenn séu í nokkurri hættu við að fá öndunarfærasjúkdóma.

Af 185 ryk- og flúorsýnum reyndust 55.4%, þ. e. rúmur helmingur, yfir markgildi fyrir ryk og 15.1% yfir markgildi fyrir flúorinn. Af 111 þvagsýnum voru 9% yfir markgildi en í ljós kom að marktækt samband er milli flúoríðmengunar í andrúmslofti og þess flúoríðs sem mælist í þvagi starfsmanna.

Athygli vekur að ekki er marktækur munur á þeim niðurstöðum sem nú fengust og þeim ryk- og flúoríðmælingum sem gerðar voru 1977–1979 þrátt fyrir umfangsmiklar breytingar sem ætlað var að bæta vinnuumhverfið. En í ljós kom að flúoríðstyrkur í þvagi var meiri nú en 1977–1979 og að munurinn er tölfræðilega marktækur. Nauðsynlegt er því að reynt sé að draga úr þeirri mengun sem starfsmenn verða fyrir með víðtækum aðgerðum og tryggja að lokun kera skili þeim árangri sem að var stefnt í upphafi. Nauðsynlegt er að allir starfsmenn í kerskálunum noti rykgrímur til að verja sig gegn skaðlegum áhrifum þeirrar mengunar sem er til staðar.“

Síðan segir: „Mikilvægt er að gerð verði kerfisbundin athugun á því hvort sú mengun, sem þarna hefur verið til staðar um langt árabil, hafi í för með sér óeðlilega tíðni öndunarfærasjúkdóma.“

Síðar segir: „Þær ráðstafanir, sem til athugunar þurfa að koma nú þegar, þ. e. úrbætur til að draga úr mengun, eru eftirfarandi:“ — Og síðan er stungið upp á fjöldamörgum aðgerðum sem skoðunarmenn Vinnueftirlits telja að nauðsynlegt sé að gera í verksmiðjunni til að bæta umhverfi starfsmanna.

Þetta er athugun sem gerð er í byrjun nóvember 1983. Þarna kemur fram, ef ég tek til aðalatriðin, að í fyrsta lagi er rykmengun of mikil, í öðru lagi er flúoríðmengun of mikil við einstök störf, í þriðja lagi er gert ráð fyrir að starfsmenn séu raunverulega í hættu á að fá öndunarsjúkdóma, í fjórða lagi virðast breytingar í sambandi við hreinsibúnað á árunum 1979–1982 ekki hafa minnkað flúoríð, í fimmta lagi er sérstaklega óskað eftir kerfisbundinni rannsókn á heilsufari með tilliti til öndunarfærasjúkdóma og í sjötta lagi er bent á ákveðin atriði sem lagt er til að séu gerð þarna til úrbóta.

Ég hef í framhaldi af þessu beint fsp. til félmrh. um þessi atriði þar sem ég spyrst raunar fyrir um hvað hafi breyst, hvort eitthvað hafi breyst til batnaðar og hvort eitthvað hafi verið gert af því sem talað er um í lok ársins 1983. Fsp. hljóðar svo:

„1. Er sami háttur hafður á heilsugæslu hjá starfsfólki álversins og tíðkast hjá öðrum stórum efnaverksmiðjum á landinu?

2. Eru sérstakar hættur á öndunarfærasjúkdómum hjá starfsfólki álversins?

3. Eru vísbendingar um að þessir sjúkdómar séu óeðlilega algengir hjá starfsfólki álversins?

4. Hafa sérstakar kerfisbundnar rannsóknir verið gerðar á tíðni þessara sjúkdóma í álverinu?“