07.05.1985
Sameinað þing: 79. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4858 í B-deild Alþingistíðinda. (4133)

440. mál, öndunarfærasjúkdómar hjá starfsfólki álversins í Straumsvík

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Svar við þessum fsp. á þskj. 749 frá hv. 4. landsk. þm. byggi ég á upplýsingum frá Vinnueftirlitinu og er í stórum dráttum þannig:

Fyrsta spurning: „Er sami háttur hafður á heilsugæslu í álverinu og tíðkast hjá öðrum stórum efnaverksmiðjum í landinu?“ Heilsufarseftirlit starfsmanna álversins hefur verið í höndum trúnaðarlæknis þess, en álverið hefur haft á sínum vegum trúnaðarlækni allt frá því að verksmiðjan hóf störf. Trúnaðarlæknirinn kemur í álverið einu sinni í viku og hefur opna móttöku þar.

Við aðrar stórar verksmiðjur í landinu er heilsugæslu starfsmanna sinnt af næstu heilsugæslustöð. Heilsugæslulæknar á Akranesi sinna þannig heilsufarseftirliti starfsmanna Járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga og Sementsverksmiðju ríkisins. Heilsugæslustöðin á Húsavík annast heilsugæslu starfsmanna Kísiliðjunnar við Mývatn. Starfsfólk Áburðarverksmiðjunnar í Gufunesi er undir heilsufarseftirliti læknis við heilsugæslustöðina í Árbæ.

Ekki hefur verið gerð formleg athugasemd við fyrirkomulag þessara mála hjá álverinu, m. a. af því að ekki hefur verið stofnuð heilsugæslustöð í Hafnarfirði. Í lögum nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, og lögum nr. 49/1983, um heilbrigðisþjónustu, er kveðið á um það að heilsuvernd starfsmanna skuli falin þeirri heilsugæslustöð eða sjúkrahúsi sem næst liggur og/eða auðveldast er að ná til. Slík framkvæmd heilsufarseftirlits með starfsmönnum á vinnustöðum hefur verið í undirbúningi en framkvæmd er ekki hafin. Fyrirkomulag þessara mála við Kísiliðjuna, Járnblendiverksmiðjuna, Sementsverksmiðjuna og Áburðarverksmiðjuna er þó mjög nærri því sem lögin gera ráð fyrir.

Önnur spurning: „Eru sérstakar hættur á öndunarfærasjúkdómum hjá starfsfólki álversins?“ Svar: Við framleiðslu áls myndast ýmsar gastegundir og ryk sem valdið geta ertingu öndunarfæra og jafnvel leitt til sjúkdóma. Þau efni, sem helst er rætt um í þessu sambandi, eru flúorvetni, flúoríð, kolmónoxíð, brennisteinsdíoxíð, áloxíð, sótagnir og svonefnd fjölhringakolvetnasambönd. Fyrirtækið hefur sjálft framkvæmt reglubundnar mælingar á flúor í þvagi starfsmanna og flúor og ryki í andrúmslofti á undanförnum árum. Fylgst hefur verið með þessum mælingum af heilbrigðis-, hollustu- og öryggisnefnd fyrirtækisins og af Vinnueftirliti ríkisins.

Haustið 1983 voru gerðar umfangsmiklar mengunarmælingar af hálfu Vinnueftirlitsins í samvinnu við Íslenska álfélagið og fulltrúa starfsmanna þess. Skýrsla varðandi niðurstöður þessara mælinga kom út 1984, en í henni segir m. a.:

„Helstu niðurstöður eru að rykmengun sé allt of mikil í kerskálunum, en að flúoríðmengun sé of mikil við sum störf. Mengun flúorvetnis ein sér, kolmónoxíðs og brennisteinsdíoxíðs er yfirleitt vel undir markinu. Mengun í andrúmslofti í kerskálunum er því það mikil að það skapar hættu á að starfsmenn geti fengið öndunarfærasjúkdóma og veldur þeim óþægindum og skapar óþrif. Í ljós kom að ekki hafði dregið úr ryk- og flúoríðmengun frá því sem mælingar sýndu áður en lokun kera hófst og að flúoríðsstyrkur í þvagi var meiri nú en þá.“

Enn fremur segir í skýrslunni: „Nauðsynlegt er að sem fyrst verði gerðar úrbætur til að draga úr mengun og tryggja að lokun kera skili þeim árangri fyrir starfsumhverfið sem að var stefnt í upphafi og unnt er að ná skv. reynslu í öðrum verksmiðjum.“

Í framhaldi af mælingum þessum gerði Vinnueftirlitið kröfu til fyrirtækisins um úrbætur. Unnið hefur verið að úrbótum en ekki liggja fyrir að mati Vinnueftirlitsins fullnægjandi upplýsingar um það hvort þær hafi skilað viðunandi árangri. Álverið hefur látið gera eftirlitsmælingar á andrúmsloftsmengun síðan. Þær mælingar voru ekki eins umfangsmiklar og því ekki að fullu sambærilegar við úttektina frá haustinu 1983. Niðurstöðurnar sýna þó að mati Vinnueftirlitsins að enn er þörf frekari úrbóta.

Þriðja spurning: „Eru vísbendingar um að þessir sjúkdómar séu óeðlilega algengir hjá starfsfólki álversins?“ Svar: Vinnueftirliti ríkisins berast tilkynningar um meinta atvinnusjúkdóma frá læknum. Fjöldi tilkynntra atvinnusjúkdóma hefur frá upphafi verið lítill og er talið að miklu fleiri séu haldnir atvinnusjúkdómum en fjöldi tilkynninga segir til um. Upplýsingum úr þessari skráningu ber því að taka með varúð. Vinnueftirliti ríkisins hafa frá 1981 borist sex tilkynningar um meinta atvinnusjúkdóma varðandi starfsmenn ÍSALs og er þá ekki talið með heyrnartjón af völdum hávaða. Í flestum atvikum er hér um að ræða öndunarfærasjúkdóma og einnig aðra sjúkdóma, svo sem exem.

Fjórða spurning: „Hafa sérstakar kerfisbundnar rannsóknir verið gerðar á tíðni þessara sjúkdóma í álverinu?“ Svar: Hingað til hafa engar kerfisbundnar athuganir verið gerðar á tíðni öndunarfærasjúkdóma við álverið. Slíkar athuganir hafa verið gerðar á starfsmönnum álvera erlendis og þykir sýnt að óhreinindi í andrúmslofti þessara vinnustaða geti haft áhrif á öndunarfæri þeirra sem þar vinna. Lýst hefur verið bráðum, einnig meira hægfara öndunarfærakvillum og einnig astmaköstum með mæðihósta, slímuppgangi og surgi fyrir brjósti. Þessi einkenni geta komið nokkru eftir að farið er af vinnustað. Þekking varðandi eðli þessara sjúkdóma og við hvaða mengun er óhætt að vinna er hins vegar takmörkuð.

Undanfarnar vikur hafa farið fram undirbúningsviðræður milli Vinnueftirlits ríkisins, hollustu-, heilbrigðisog öryggisnefndar ÍSALs, lækna frá Heilsugæslu Hafnarfjarðar og lungnasérfræðinga með það fyrir augum að gera sérstaka rannsókn á tíðni og útbreiðslu öndunarfæraeinkenna og sjúkdóma hjá starfsmönnum álversins. Ætlunin er að þessi rannsókn verði samhæfð við norrænar rannsóknir sem þegar eru hafnar á þessu sviði. Þar sem til eru umfangsmiklar athuganir á andrúmsloftsmengun í álverinu ættu að fást mikilsverðar niðurstöður úr fyrirhugaðri könnun. Slíkar athuganir þjóna því langtímamarkmiði að tryggja heilsusamlegt starfsumhverfi.

Ég vil aðeins bæta því við að ég hef sérstaklega óskað eftir því við Vinnueftirlit ríkisins að það sé vel á verði í þessu máli og fylgi eftir þeim undirbúningi og þeim rannsóknum til úrbóta sem ráðgert er að hefja í málinu.