07.05.1985
Sameinað þing: 79. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4861 í B-deild Alþingistíðinda. (4135)

441. mál, brunavarnir

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Einarsson):

Herra forseti. Ég hef á þskj. 750 beint eftirfarandi fsp. til félmrh. um brunavarnir:

„Telur ráðh. tjón af völdum eldsvoða í atvinnuhúsnæði hér á landi óeðlilega mikið? Ef svo er, hverjar telur ráðh. helstu orsakir þess og hvaða leiðir telur hann helst til úrbóta?“

Þarna er sem sagt spurt um þrennt, hvort tjón af völdum eldsvoða sé óeðlilega mikið, hverjar séu orsakir og hverjar séu þá hugsanlegar úrbætur. Ástæðan til þess að ég spyr hvort þetta sé óeðlilega mikið tjón er að í Morgunblaðinu fimmtudaginn 21. mars 1985 er viðtal við Inga R. Helgason sem er forstjóri Brunabótafélags Íslands — sem sumir kalla nú „brunabyggðasjóð“ — og hann er líka formaður stjórnar Brunamálastofnunar Íslands. Þar segir Ingi R. Helgason, með leyfi forseta:

„Tjón af völdum eldsvoða í atvinnuhúsnæði eru óeðlilega mikil hér á landi miðað við þá fækkun sem orðið hefur á brunatjónum í íbúðarhúsnæði á sama tíma.“

Það er vissulega ástæða til að spyrja sig hvort maður, sem er svo nákominn þessum brunamálum, bæði forstjóri Brunabótafélagsins og formaður stjórnar Brunamálastofnunarinnar, hljóti ekki að hafa fulla ástæðu til þess að segja svo alvarlega hluti sem raun ber vitni.

Þegar að því kemur að velta fyrir sér hverjar séu hugsanlegar orsakir þessara miklu bruna vil ég áfram vitna í téð viðtal við Inga R. Helgason, en þar segir, með leyfi forseta:

„Það sem verra er, rannsóknir sérfróðra skoðunarmanna á vettvangi ýmissa helstu eldsvoða hérlendis síðustu þrjú árin benda iðulega ýmist til stórfelldrar vanrækslu og gáleysis eða hreinlega íkveikju.“ — Eða hreinlega íkveikju. Þetta er niðurstaða Inga R. Helgasonar.

Hann segir áfram, með leyfi forseta, að skoðunarmenn, þ. e. sérstaklega tilkvaddir skoðunarmenn og sérfræðingar, „kvarti iðulega yfir því að búið sé að hreinsa til í brunarústunum þegar þeir komi á staðinn og eyðileggja mikilvæg rannsóknargögn. Engu að síður sé það niðurstaða þessara skoðunarmanna í mörgum helstu eldsvoðum síðustu ára að upptök eldsins séu íkveikja eða stórfellt gáleysi, en í lögreglurannsóknum á upptökum þessara eldsvoða takist sjaldnast að fylgja þessum niðurstöðum eftir.“ Þetta eru mjög alvarleg ummæli manns sem ætti að þekkja allra manna best til þessara mála.

Síðar í þessu viðtali, sem er ekki tími til þess að fara grannt ofan í, eru fimm dæmisögur um stórkostlega bruna. Það er talað um eldsvoða í þakpappaverksmiðju á höfuðborgarsvæðinu, í frystihúsi á Suðurnesjum í maí 1983, örfáum mánuðum síðar í frystihúsi í kauptúni á Snæfellsnesi og í lok síðasta árs í frystihúsi norður í Þingeyjarsýslu. Þarna hefur orðið tugmilljóna tjón. Í öllum tilfellum telur Ingi R. Helgason að um sé að kenna annaðhvort hreinni íkveikju eða stórfelldu gáleysi og enginn kallaður til ábyrgðar.

Ég vil taka dæmi af því sem hefur komið í ljós í sambandi við bruna frystihúss á Hellissandi. Skv. skoðun sérfróðra manna í skoðunarskýrslu 1977 er sagt:

„Hraðfrystihús Hellissands. Eldnæm einangrun er óvarin í lofti pökkunarsalar. Í ísvélarklefa er eldnæm einangrun á veggjum óvarin. Ekki er búið að koma upp trekvart tommu brunaslöngu við umbúðalager í gamla húsinu. Viðgerðarverkstæði: Þar er eldnæm einangrun óvarin.“

1978, ári síðar, koma sömu skoðunarmenn á sama vettvang. Þeir segja:

„Hraðfrystihús Hellissands. Plast er allt við það sama í pökkunarsal, ísvélarklefa og viðgerðarverkstæði. Sjá skýrslu okkar 1977. Slöngukeflið er komið en eftir að setja keflið upp.“ — Þetta eru nú efndir á eldvarnamálum þar. Hér segir: „Vélasalur ekki eldtraustur frá frystihúsi, þar er opið með leiðslum og timburhurð. Kyndiklefi er eldtraustur í hólf og gólf,“ er þó sagt.

Hvað gerist síðan næst fréttnæmt í frystihúsinu á Hellissandi? Það sem gerist næst fréttnæmt er að þar verður gífurlegur eldsvoði, tugmilljóna tjón. Hvað kemur síðan í ljós við rannsókn á þessum bruna? Það sem kemur í ljós er að skv. brunamálareglugerð frá 8. júní 1978 er 17 atriðum ábótavant í brunavörnum þar. Hús er ekki hólfað niður með brunatraustum veggjum eins og ætti að gera, brunamótstaða burðarvirkja í þaki er ekki eins og hún ætti að vera. Þar er brennanleg einangrun óvarin. Svona get ég talið upp 17 atriði. Samt gera forsvarsmenn frystihúss á Hellissandi sér leið suður til Reykjavíkur, hitta forsvarsmann brunabótasjóðsins og fá tékka líklega fyrir einar tuttugu og fimm milljónir.

Hver er ábyrgur? Er kannske enginn ábyrgur í svona atriðum? Það lendir náttúrlega á þeim sem alltaf þurfa að borga, þ. e. okkur sjálfum, skattþegnunum, að borga þessi tjón.

Það mætti hafa um þetta langt mál. Í maí 1983 verður bruni í frystihúsi á Suðurnesjum. Aftur verður tugmilljóna tjón. Hvað kemur í ljós? Þar kemur í ljós að rannsóknarlögreglan í Keflavík, sem á að taka skýrslu af vitnum, hún tekur skýrslurnar 28. júní 1983, en það brann 17. maí. Rannsóknarlögreglan tekur skýrslur af vitnum tæpum einum og hálfum mánuði eftir að kviknaði í og tugmilljóna tjónið varð.

Það kemur líka í ljós að Rannsóknarlögregla ríkisins var aldrei kölluð á vettvang, sem þó er kölluð á vettvang þegar stórtjón verða. Aftur hafa einhverjir gert sér för og fengið stóran tékka og enginn er ábyrgur. Í skýrslum brunasérfræðinga um tjónið í Keflavík er sagt að þar sé sterkur grunur um íkveikju. Enn þá er enginn kallaður til ábyrgðar. Svona er málum háttað í sambandi við brunamálin okkar. Þess vegna hef ég beint fsp. til félmrh. um það hvort hann sé sammála Inga R. Helgasyni um ástand í brunamálum atvinnuhúsnæðis, hverjar hann telji helstu orsakir og hvað hann telji helst til úrbóta.