07.05.1985
Sameinað þing: 79. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4866 í B-deild Alþingistíðinda. (4138)

441. mál, brunavarnir

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Ég vil vinsamlegast vara við fullyrðingum á borð við þær sem hér hafa verið settar fram af hv. 4. landsk. þm. Mér finnst ástæðulaust að menn kasti svona fullyrðingum fram um ákveðin fyrirtæki eða ákveðin byggðarlög án þess að hafa kynnt sér niður í kjölinn hvernig eðli málsins er.

Ég vil fullyrða að það er ekki til nokkur aðili hér á landi í atvinnurekstri eða einkarekstri sem viljandi hefur starfsemi með höndum og gerir sitt til að hafa hana þannig útbúna að það sé slysahætta eða eldsvoðahætta á hverju strái. Ég held, eins og ég sagði í svari mínu áðan, að það sé ákaflega skiljanlegt að mörg fyrirtæki eigi erfitt með að fullnægja vissum atriðum til úrbóta á þeirri stundu sem úttekt er gerð. Þau þurfa sinn aðdraganda til þess og þau þurfa að hafa fjármagn til þess. Það eru engir lánasjóðir hér í landinu sem lána til þess að gera fyrirbyggjandi aðgerðir á þessu sviði sérstaklega, því miður. Það er eitt af þeim atriðum sem ég talaði um áðan að nauðsynlegt væri að vinna að. Ég hef þegar rætt það við ýmsa menn, bæði Brunabótafélag Íslands, sem hefur einkarétt á brunatryggingum í landinu, og eins við Lánasjóð sveitarfélaga á hvern hátt væri hægt að byggja upp sjóð til að mæta þessu nauðsynlega verkefni, að aðstoða fyrirtæki í einkaeign og félaga til þess að ráða bót á svona nauðsynlegum aðgerðum sem við erum sjálfsagt allir sammála um.

Ég þekki það persónulega, ég veit ósköp vel um það hvernig það er að standa í því að fyrirskipa fyrirtækjum í rekstri, kannske eina eða svo til eina fyrirtækinu í viðkomandi byggðarlagi, að gera hlutina og setja þeim tímamörk og fylgja því eftir að staðið verði við það. Ég veit hvað það gildir. Ég veit að menn gera ekki að gamni sínu í þessum efnum þó að hins vegar ég geti viðurkennt að þarna er um gífurlega alvarleg mál að ræða.

Af því að minnst var á forstjóra Brunabótafélags Íslands í máli hv. þm., sem er bæði forstjóri Brunabótafélagsins og formaður brunaeftirlits ríkisins, vil ég geta þess að ég hef rætt það við hann hvort ekki væri kominn tími til að Brunabótafélag Íslands hefði þann hátt á í fyrsta lagi að reyna að mynda sjóð til að styrkja fjárútvegun til að efla brunavarnir og reyna að koma til móts við fyrirtæki sem þurfi að gera ákveðnar ráðstafanir og einnig hitt að ef um er að ræða trassaskap eða fyrirtæki sem sýnilega vilja ekki fullnægja vissum reglum og vissum skilyrðum sé beitt ákvæði trygginganna, eins og hv. þm. kom hér inn á.

Þetta er erfitt mál þar sem engin samkeppni er á þessu sviði hér á landinu. Það er einkaréttur Brunabótafélags Íslands að sjá um brunatryggingar, skyldutryggingar í landinu og menn hafa ekki verið sammála um aðgerðir að þessu leyti til. En ég tel að það sé verulegur skriður á þessum málum og ég tek undir það með forstjóra Brunabótafélagsins í þessari umræddu grein að tjónin hér á landi eru ískyggilega mikil, eins og t. d. dæmin sýna frá 1983. En ég mótmæli því að hægt sé að einhæfa málið á þann hátt sem hv. þm. gerði hér áðan og ég tel að bæði Brunamálastofnunin og sveitarfélögin í landinu hafi fullan skilning á því að reyna að ná eðlilegum tökum á þessum málaflokki. Eins og ég sagði áður reikna ég með því að sú samhæfða vinna og athugun þessara aðila sem ég nefndi áðan muni áreiðanlega leiða til árangurs.