07.05.1985
Sameinað þing: 80. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4868 í B-deild Alþingistíðinda. (4145)

271. mál, varnir gegn fisksjúkdómum

Frsm. (Birgir Ísl. Gunnarsson):

Herra forseti. Atvmn. hefur haft til meðferðar till. til þál. á þskj. 449 um varnir gegn fisksjúkdómum í fiskeldisstöðvum og vötnum. Till. þessi var flutt af hv. þm. Vigfúsi G. Jónssyni og fleirum fyrr á þessu þingi.

Nefndin hefur fengið umsagnir allmargra aðila um þetta mál, frá Búnaðarfélagi Íslands, yfirdýralækni, veiðimálastjóra og Tilraunastöð Háskólans í meinafræðum.

Nefndin hefur orðið sammála um að mæla með því að till. verði samþykkt með breytingu sem flutt er á þskj. 796. Brtt. er svohljóðandi:

„Tillögugreinin orðist svo:

Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að gera ráðstafanir til að fiskisjúkdómarannsóknir og varnir gegn fisksjúkdómum í fiskeldisstöðvum og veiðivötnum verði efldar, m. a. með því að gera það mögulegt að ráðið verði hæft starfsfólk í þessu skyni.“

Ég vil vekja sérstaka athygli á því að í umsögn veiðimálastjóra kom fram hversu margar fiskeldis- og hafbeitarstöðvar eru hér á landi. Það kemur í ljós að þær eru 50 talsins, að vísu mjög mismunandi stórar og reyndar sumar ekki nema að nafninu til, en þó má telja líklegt að þær hefji framleiðslu og fleiri bætist í hópinn. Hér er því greinilega um mjög mikilvægt mál að ræða. Brtt. miðast fyrst og fremst við það að gera mögulegt að ráðið verði hæft starfsfólk í þessu skyni en slíkt hlýtur að verða í mjög náinni samvinnu við fiskeldisstöðvarnar sjálfar. Brtt. miðar að því að það sé ekki einungis lagt á ríkið að sjá um þetta, heldur hljóti stöðvarnar sjálfar að koma að einhverju leyti inn í þessa mynd.