07.05.1985
Sameinað þing: 80. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4869 í B-deild Alþingistíðinda. (4148)

76. mál, endurreisn Viðeyjarstofu

Frsm. (Ólafur Þ. Þórðarson):

Herra forseti. Allshn. hefur fjallað um till. til þál. um endurreisn Viðeyjarstofu. Í þeim umsögnum sem nefndinni bárust kom það fram að verk þetta væri vel á vegi statt að mörgu leyti. En samt er það svo að ýmsir þættir þess liggja utan garðs, m. a. sá þáttur hvernig hægt væri að auðvelda almenningi að komast til eyjarinnar. Koma þar inn í m. a. lendingarbætur á eynni.

Nefndin varð því sammála um að mæla með samþykkt þáltill. með örlítið breyttum texta. Vil ég, með leyfi forseta, lesa hann:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta gera áætlun um endurreisn Viðeyjarstofu og lendingarbætur á eynni í samráði við borgarstjórn Reykjavíkur. Áætlunin verði við það miðuð að verkinu verði að fullu lokið fyrir 18. ágúst 1986. Kostnaðaráætlun verksins verði lögð fram í tæka tíð fyrir afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1986.“

Undir þetta nál. skrifa Ólafur Þ. Þórðarson, Stefán Benediktsson, Guðrún Helgadóttir, Jóhanna Sigurðardóttir og Pétur Sigurðsson. Fjarverandi við afgreiðslu málsins voru Eggert Haukdal og Birgir Ísl. Gunnarsson.