07.05.1985
Sameinað þing: 80. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4875 í B-deild Alþingistíðinda. (4156)

12. mál, leit að brjóstakrabbameini

Frsm. (Ólafur Þ. Þórðarson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. heilbrrh. fyrir innlegg hans í þessar umræður og þær upplýsingar sem hann hefur flutt hér. Einnig vil ég þakka hv. 3. landsk. þm. fyrir þær upplýsingar sem hann jók við. En ég vil leiðrétta einn misskilning sem fram kom í hans ræðu. Þó að tillögugreinin sé orðuð á þann veg að skorað er á ríkisstj. þá teljum við að sá skilningur ríki innan stjórnarinnar og ekki sú samkeppni um að taka á móti þáltill. að allar líkur séu til þess að málið fari til hæstv. heilbrrh. En vissulega má segja sem svo að með því að hafa þetta á þennan hefðbundna hátt, að skora á ríkisstj., þá sé minnt á það einnig að hæstv. fjmrh. muni trúlega koma inn í myndina á vissan hátt.