07.05.1985
Sameinað þing: 80. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4910 í B-deild Alþingistíðinda. (4177)

Skýrsla um utanríkismál

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það fór þó aldrei svo að ég kæmist ekki í stólinn í þessari tilraun, ég fékk orðið hvort sem var þó um annað væri. Við gerum þá hér, hv. þm. og viðstaddir hæstv. ráðh., eina lotuna enn að ræða utanríkismál, skýrslu hæstv. utanrrh. Þetta er orðinn nokkuð slitróttur ferill hjá okkur. En allt er gott ef endirinn er góður, segja þeir, og vonandi verður hann það hér í þessum umr. vorum um utanríkismál.

Hæstv. utanrrh. fór að vonum skilmerkilega yfir þær spurningar sem til hans hafði verið beint og svaráði þeim eftir atvikum. Ég hef lítillegar aths. að gera við nokkur svör og óska kannske frekari skýringa á fáeinum atriðum.

Hæstv. utanrrh. gerði lítið úr þeim upplýsingum sem ég vitnaði til um áform um að reisa risaradarstöðvar hér á norðurslóðum, hugsanlega á Íslandi, af þessari OTH-gerð eða ROTH-gerð, sem þá eru færanlegar risaratsjárstöðvar, taldi heimildir þær sem til væri vitnað misgóðar og sitt úr hverri áttinni og ekki allt merkilegt og hafði nú hvergi séð haft eftir hinum dáða manni Wesley McDonald að þetta ætti að gerast hér á Íslandi. Það hef ég reyndar ekki heldur og hef heldur aldrei haldið því fram. En það er hægt að raða saman þeim vísbendingum sem maður hefur og því miður verður það að segjast að margt bendir til þess að Ísland sé nú mjög fyrir sjónum þeirra manna sem skipuleggja þessi áform.

Ég vitnaði áður í umr. á Alþingi og einar fimm heimildir sem ég hef komist yfir og allar nokkuð merkar. Ég get endurvitnað í þær og þá sérstaklega í vitnaleiðslur Wesley McDonalds fyrir öldungadeild Bandaríkjaþings 23. febr. s. l., en hann var þar, blessaður maðurinn, að rökstyðja beiðni flotans fyrir fjárveitingum til þessara mannvirkja. Ég veit ekki hvort ég á að lesa þetta á enskri tungu eða lesa óburðuga þýðinguna sem ég hef hér, sem er ekki eftir löggiltan skjalaþýðanda, en ég les þetta fyrst, með eyfi forseta, á ensku í ljósriti upp úr þingtíðindunum frá öldungadeild Bandaríkjaþings eins og mér hefur borist það í hendur. Þetta er sá hluti skýrslunnar sem fjallar um Norður-Atlantshafsvarnarkerfið, eins og það er þarna kallað, North Atlantic Defence System, og þar segir svo:

„The upgrade of Iceland air defense radars is an integral part of the planned improvements in north Atlantic defence. Continued modernization of Iceland air defense is essential to the accomplishment of the UsCINCLANT mission. The delay or cancellation of already approved modernization programs would result in a decreased capability to defend Iceland and would have a major impact upon the defense of the north atlantic lines of communication.“

Og síðan kemur ný málsgrein:

„Installation of an over-the-horizon radar as part of the north atlantic defense system will provide wide-area surveillance and SLOC protection in the late 99's for the Norwegian sea and the northeast atlantic. Congress deleted RDT & E funds for this projeet from the air force fiscal year '85 budget. Funding support in fiscal year '86 is needed to place this surveillance program back on track.“

Þá hafa menn það. Í lauslegri þýðingu, herra forseti, gæti sá þátturinn sem þarna fjallar um OTH-ratsjárstöðvarnar — sem sagt ratsjárstöðvar sem sjá yfir sjóndeildarhringinn — verið svo að þær muni skapa víðáttumikla könnunargetu og vernd fyrir samgönguleiðir á sjó innan varnarkerfis Norður-Atlantshafsins, North Atlantic Defence System, bæði fyrir norska hafið og norðaustanvert Atlantshafið, á næsta áratug. Þingið tafði fjárveitingar til rannsókna á þessu verkefni á fjárlögum flughersins á árinu 1985 eða fyrir fjárlagaár 1985. Fjárveiting til þessa verkefnis á fjárlagaárinu 1986 er nauðsynleg til þess að koma eftirlitsstarfinu á réttan kjöl á ný.

Nú er það svo með þetta Norður-Atlantshafsvarnarkerfi eða Norður-Atlantshafsvarnaráætlunina að það hefur lítið farið fyrir umfjöllun um hana í skýrslum hæstv. utanrrh. og í málflutningi öllum og lítið vilja menn við þetta kannast á þeim bæ. En það er alveg borin von að horfa fram hjá tilvist þessarar áætlunar, svo víða er til hennar vitnað og svo mikinn þátt sem hún virðist leika í öllum þessum áformum. Bestu heimildir sem ég hef um hvað heyri undir þetta Norður-Atlantshafsvarnarkerfi eru þær að það séu fyrst og fremst Færeyjar, Ísland, Grænland og hafsvæðin þar í kring. Þegar komið er yfir á Bretlandseyjar eða til Noregs eru yfirleitt notaðar aðrar skammstafanir þar um.

Nú er það svo að í sumum af þessum heimildum er talað um að reistar verði færanlegar radarstöðvar og radarstöðvar af þessari gerð munu þurfa allmikið landrými vegna þess að þar er um umfangsmikið loftnet að ræða, ég tala nú ekki um ef meining er að reisa slíkan búnað á nokkrum stöðum, en hafa sjálfan radarbúnaðinn færanlegan eins og hér virðist áformað. En nú er ekki mikið undirlendi í Færeyjum og af fleiri ástæðum tel ég fremur ólíklegt að augu manna beinist að Færeyjum. Hugsanleg staðsetning væri á Norðaustur-Grænlandi eða austurströnd Grænlands, en líti maður á landakort er það því miður svo að Ísland virðist falla vel inn í þá mynd sem að öðru leyti er hægt að draga af öðrum upplýsingum og m. a. af þeim radarbúnaði sem þegar er kominn hingað og fyrirhugað er að koma upp. Það fellur nokkuð vel saman við þá þekju sem þessir risaradarar hafa.

Það eru fleiri stórmenni andans og vísindanna en Wesley McDonald. — Það væri gaman að fá að berja þann höfðingja augum einhvern tíma, svo oft sem til hans er vitnað, og ekki ónýtt að fá hann einhvern tíma í opinbera heimsókn svo að maður gæti fengið að spjalla við hann. (ÓÞÞ: Heldurðu að hann sé lifandi?) Ja, hann er a. m. k. orðinn að goðsögn, en hann gæti verið lifandi fyrir það. — Þannig er að einn af sérfræðingum bandaríska þingsins, Bernhard Cooper, ritaði greinargerð fyrir bandaríska þingið og það á árinu 1983. Þar er einmitt fjallað um þessar OTH-rafsjárstöðvar og í beinu framhaldi af umfjöllun um viðbúnaðinn hér á Íslandi vikið að þessum OTH-ratsjárstöðvum, talað um að vissar truflanir frá norðurljósunum takmarki verulega notagildi þessarar tækni á allra nyrstu svæðum jarðarinnar yfir vetrarmánuði. Nú virðist að það sé verið að vinna að því og það horfi þannig að hægt sé að komast fyrir þessar truflanir að verulegu leyti. Ljóst er að hér er ekki um takmörkun að ræða nema á allra nyrstu breiddargráðum og það einungis yfir vetrartímann, sem eðlilegt er, þannig að þær viðbárur að af tæknilegum ástæðum sé þetta ekki hægt hér virðast veikar. Því miður, liggur mér við að segja.

Ég vil t. d. spyrja hæstv. utanrrh.: Telur hann þessar tvær heimildir, annars vegar skýrslu McDonalds til öldungadeildar Bandaríkjaþings 23. febrúar og hins vegar greinargerð Coopers, sem vinnur fyrir Bandaríkjaþing, Congress Research Service, ómarkfækar heimildir? Telur hann ekki ástæðu til þess að kanna hvað liggi að baki þegar tvær opinberar heimildir, önnur frá hernum og hin frá Bandaríkjaþingi sjálfu, fjalla á opinskáan hátt um þessi áform.

Ef ég má nú koma með tillögu til hæstv. utanrrh. legg ég til að hann skrifi bréf og hann getur byrjað það svona: Þar sem athygli vor hefur verið vakin á því að uppi séu áform um að reisa risaradarstöðvar á norðlægum slóðum viljum vér óska skýringa yðar á þessum áformum og það hvernig þær á hugsanlegan hátt tengist Íslandi. (Gripið fram í: Hvernig er það á ensku?) Jú, ég get svarað þessu ef menn vilja, en ég veit að utanrrh. hefur á sínum snærum marga knáa menn og þeir eru oft ekki fjarri honum þegar þessi mál eru hér til umræðu. Og svo er hægt að ráða löggilta skjalaþýðendur til að snara þessu yfir á löggilt mál.

En hvað um það. Ég vil sem sagt ekki sætta mig við að hér sé um einhverjar óábyrgar heimildir sitt úr hverri áttinni að ræða sem ég hafi af einhverri meinfýsni tínt saman og sé eitthvað að reyna að rugla hæstv. utanrrh. og aðra í ríminu með því að fjalla um þetta hér. Ég tel fulla ástæðu til þess að grafast fyrir um hvað þarna er á ferðinni, m. a. í ljósi þeirra heimilda sem ég vitnaði í.

Það var vikið hér að þyngdarmælingum sem ég nefndi og hæstv. utanrrh. taldi sig ekki vita að þær væru á neinn hátt frábrugðnar þeim þyngdarmælingum sem áður hefðu farið fram. Ég tel mig þvert á móti hafa um það upplýsingar að þær séu talsvert annarrar náttúru þar sem, eins og ég sagði, meiningin sé að mæla fyrst og fremst þau áhrif þyngdarsviðsins sem vita upp frá yfirborði jarðarinnar en ekki reyna að nota upplýsingar um þyngdarnomalíur til að lesa í jarðlög, sem sagt niður frá yfirborðinu. Á þessu er grundvallarmunur og það gefur auga leið að þær þyngdarmælingar, sem eiga að koma að gagni við umferð loftfara, beinast einmitt upp á við og beinast að því að meta áhrif þyngdarsviðsins upp í loftið. Auðvitað eigum við ekki að láta neita okkur um það, hæstv. utanrrh., að framkvæma vísindalegar rannsóknir þó að þær geti einnig, eins og ég held að það hafi verið orðað, þjónað hernaðarlegum tilgangi. Ég spurði ósköp einfaldlega: Hvers vegna eru Bandaríkjamenn að fjármagna þessar dýru mælingar nú? Hvaða hernaðarlegur tilgangur liggur þar að baki? Ég sætti mig ekki við sem svar getgátur um að það sé sjálfsagt einhver hernaðarlegur tilgangur á bak við þetta eða hann geti verið á bak við þetta. Hann er auðvitað gerandinn í þessu máli. Það er þess vegna sem þessar mælingar eiga að framkvæmast og þess vegna er borgað fyrir þær af stofnunum hersins. Þetta er engin góðgerðarstarfsemi. Ég hef aldrei orðið var við að þeir stæðu fyrir góðgerðarstarfsemi. Það getur vel verið að þeir séu að mæla Amazon-svæðið, en ég er ekki viss um að það sé góðgerðarstarfsemi heldur. Ég held þvert á móti að það sem hér er á ferðinni sé ósköp einfalt, þ. e. að leiðrétta fyrir þeim áhrifum sem þyngdarsviðið hefur upp frá sér þegar hlutir eins og gervihnettir, stýriflaugar og langdrægar eldflaugar fljúga þar yfir. Ef þetta er svo er þarna ákveðinn hernaðarlegur tilgangur á ferðinni. Ég er að öðru leyti ekki að leggja mat á þessa framkvæmd, enda veit ég of lítið um hana til þess að geta tjáð mig að þessu leyti, en mér finnst ástæðulaust að vera að skjóta sér hjá því að viðurkenna það að hér hlýtur einhver hernaðarlegur tilgangur að liggja að baki og ágætt væri fyrir okkur að vita hver hann er.

Síðan var aðeins vikið enn að umræðum um herskipakomur og nú er túlkun hæstv. utanrrh. á eigin ummælum nokkuð á annan veg en ég og fréttamenn og sérfræðingar út um allan heim túlkuðum hans orð hér þegar hann hafði gefið sín svör í fyrirspurnatíma á Alþingi um daginn. Mér er ómögulegt að túlka þau orð hans að herskipum sem beri kjarnorkuvopn sé óheimilt að koma til Íslands, inn í íslenska lögsögu, inn í íslenskar hafnir og að þeirri stefnu verði framfylgt öðruvísi en svo, að herskipaheimsóknir séu óhugsandi inn í íslenska lögsögu eða íslenskar hafnir nema vissa liggi fyrir því að þær brjóti ekki þessa stefnu. Þannig hafa aðrir og skilið þetta. Það er í ljósi þeirrar ósveigjanlegu stefnu Bandaríkjamanna að játa hvorki né neita tilvist kjarnorkuvopna um borð í skipum sínum sem þetta skiptir máli og er í raun og veru grundvallaratriði.

Ég vitnaði áðan til leiðtoga kommúnistaflokksins í Kína, Hu Yaobang, sem sagði í viðtali við blaðamenn fyrir líklega einum þremur vikum að alþýðuríkið eða lýðveldið eða hvað það nú heitir, Kína, og Bandaríki Norður-Ameríku hefðu komið sér saman um að amerísk skip sem ætla að koma í kínverskar hafnir innan nokkurra vikna mundu ekki bera kjarnorkuvopn. Þetta sagði sá góði maður. En það var auðvitað uppi fótur og fit fyrir vestan og þessu var harðlega mótmælt. Við gefum auðvitað aldrei neinar slíkar tryggingar sagði Edward P. Djerejian, sem þarna talaði fyrir utanrrn., og hann sagði: Stefna okkar í þessu efni er algert grundvallaratriði, fundamental, sagði hann, og að lokum sagði hann: Það getur ekki verið um neinar bandarískar herskipaheimsóknir að ræða, hvergi í veröldinni þar sem þessi stefna er við lýði. Og ef ég má enn einu sinni lesa hér eina málsgrein á ensku, með leyfi forseta: „No US ship visit can take place anywhere in the world except under this policy“, þ. e. þeirri stefnu Bandaríkjamanna að játa hvorki né neita tilvist kjarnorkuvopna um borð í skipum. Ég skil það svo, að ef utanrrh. ætlar að framylgja þessari stefnu sinni á þann hátt að það sé alveg ljóst að hingað komi ekki skip með kjarnorkuvopn séum við lausir við herskipaheimsóknir um aldur og ævi og ætla ég ekki að harma það.

Utanrrh. hæstv. sagði að það væri auðvitað þannig að þó að skip gætu borið kjarnorkuvopn þyrftu þau ekki endilega að hafa þau og þess vegna væri allt í lagi þó að hingað kæmu skip með eldflaugageyma, kannske tvær snyrtilegar raðir eftir dekkinu, 16, 18, 24 hólf eða eitthvað svoleiðis. Þetta væri allt í lagi því að þau þyrftu ekki endilega að hafa kjarnorkuvopn. Þetta er alveg rétt. En að sama skapi geta þau haft þau og hafa þau mjög oft. Og ég hef hérna þann lista sem ég vitnaði til um þessa tundurspilla af Spruance-gerð sem eru mjög margir í Norður-Atlantshafsflotanum og heita ýmsum fögrum nöfnum eftir alls konar hetjum og hafa auk þess númer og eru númeraðir DD-963 — DD-999. Öll þessi herskip, þessir spillar, hafa sem sagt þessa kjarnorkuvopnagetu og eins og ég sagði áðan er vitað og viðurkennt að verulegur hluti þeirra á hverjum tíma ber kjarnorkuvopn. Það er svo um kjarnorkubúinn flota yfirleitt að reiknað er með, það er gengið út frá því í umfjöllun um þessi mál, að svo og svo stór hluti hans á hverjum tíma beri þessi vopn. Það er inni í útreikningum og það er inni í umfjöllun um kjarnorkuvopnastyrk á hverjum tíma, þannig að það hefur öðlast ákveðna viðurkenningu þar með að svo sé.

Það hefur kannske ekki mikið upp á sig að ræða þetta enn frekar. Ég tel óhjákvæmilegt og ég fyrir mitt leyti mun krefjast þess að gengið verði úr skugga um það þegar fyrir dyrum standa herskipalieimsóknir, hvenær það verður, ef það verður, hvort í þeim flota eigi þá að vera skip sem geti borið kjarnorkuvopn. Þá reynir að sjálfsögðu á það hvort eða hvernig utanrrh. mun framfylgja þessari stefnu sinni. Því get ég alveg lofað hæstv. utanrrh. að ef ég verð ofar moldu mun ég beita mér fyrir því að það verði látið á það reyna hvort þetta kjarnorkuvopnabann okkar Íslendinga hvað þetta varðar heldur.

Ég vil lýsa ánægju minni, svo langt sem það nær, yfir þeim orðum sem hæstv. utanrrh. hafði um viðskiptabann Bandaríkjanna á Nicaragua, en í framhaldi af því tel ég eðlilegt að spyrja hvort sé að vænta einhverra yfirlýsinga eða einhverra aðgerða af hálfu hæstv. utanrrh. eða af hálfu hæstv. íslensku ríkisstjórnarinnar hvað þetta varðar. Nú er ekki ólíklegt að á næstu dögum heyrist frá ýmsum, víða í hinum vestræna heimi a. m. k. og kannske víðar, þar sem þessu viðskiptabanni verður harðlega mótmælt og jafnvel gripið til einhverra aðgerða. Ég vil spyrja hæstv. utanrrh.: Er þess að vænta að við fáum að heyra eða sjá meira frá honum á næstu dögum en einungis það að hann harmi þetta í umr. á hv. Alþingi þó að það sé út af fyrir sig skref í rétta átt?

Hæstv. utanrrh. gerði frekar lítið úr samtökum, sem ég er félagsmaður í og er þess vegna ákaflega hörundsár fyrir, sem eru samtök þm. um nýtt heimsskipulag eins og það heitir í Morgunblaðinu, og því átaki leiðtoga í þeim fimm heimsálfum, sex þjóðarleiðtoga í fimm heimsálfum, sem samtökin hafa beitt sér fyrir. Hann á væntanlega með ummælum sínum við Delhi-yfirlýsinguna þar sem hann segir að hún sé gölluð, þar sem sé ekki kveðið á um framkvæmdir og eftirlit. En alvarlegast af öllu taldi hann þó að tvö ríki, Argentína og Indland, hefðu ekki fullgilt sáttmála Sameinuðu þjóðanna um bann við útbreiðslu kjarnorkuvopna og þess vegna væri allt þeirra tal í þessum efnum marklaust. Nú er það svo, eins og hæstv. utanrrh. væntanlega veit, að sá samningur var á sínum tíma undirritaður af mörgum aðilum og reyndar gerður með það í huga að þau ríki, sem þá tækju á sig skuldbindingar um að taka ekki kjarnorkuvopn, fengju í staðinn yfirlýsingar stórveldanna um að þau mundu afvopnast, þau mundu á ákveðnum tíma losa sig við þau vopn. Gagnrýni hefur farið vaxandi á undanförnum árum að vegna þeirrar stöðu sem þessi mál eru í, vegna vanefnda stórveldanna og kjarnorkuveldanna hvað þetta varðar og algers getuleysis þeirra til að standa við þessa hlið málanna sé það samkomulag úr gildi fallið, marklaust, vegna þess að þetta var hugsað eins og ákveðinn tvíhliða gerningur ef ég kann rétt að fara með. Það afsakar þó ekki að auðvitað er slæmt að þessi tvö ríki skuli ekki hafa fullgilt þennan samning, en að mínu viti gerir það ekki þá þjóðarleiðtoga sem þar eru við völd nú og vilja leggja góðu málefni lið algerlega marklausa og meiningarlausa hvað þetta varðar. Ég segi bara við hæstv. utanrrh.: Mér er enn þá sama hvaðan gott kemur ef þessir ágætu menn vilja beita sér fyrir aðgerðum í þessu efni og þeirra ríki eru þó enn þá kjarnorkuvopnalaus að því er best er talið og er það gott og vel og við skulum fagna því.

Ég er enn óánægður með hversu litla trú hæstv. utanrrh. hefur á kjarnorkuvopnalausum svæðum. Hugsanlega endist mér ekki kvöldið til þess að sannfæra hann endanlega í þeim efnum. En nú er það svo að Ísland er eitt af þessum kjarnorkuvopnalausu svæðum skv. opinberri stefnu. Það hefur sjálfur hæstv. utanrrh. margítrekað að það sé okkar opinbera stefna að hafa hér ekki kjarnorkuvopn, sömuleiðis ekki í okkar lögsögu og okkar höfnum, þannig að það skýtur skökku við að við sem slíkir skulum þá ekki hafa trú á því að reyna að hafa fleiri lönd og stærri einingar kjarnorkuvopnalaus og gera um það bindandi alþjóðlega samninga.

Ég verð að segja alveg eins og er að ég hef ekki heyrt nógu haldgóð rök fyrir því að menn skuli ekki vera tilbúnir til að reyna að ná alþjóðlegu samkomulagi um slíkar skuldbindingar. Því er iðulega haldið fram að vegna þess að Norðurlöndin séu kjarnorkuvopnalaus sé þetta ástæðulaust. Ég segi: Auðvitað á þvert á móti, vegna þess að Norðurlöndin eru kjarnorkuvopnalaus í dag, að nota tækifærið og lýsa því formlega yfir og reyna að ná með því árangri. Ég get ekki séð að það geri annað en styrkja stöðu okkar frekar en hitt í þessum efnum.

Herra forseti. Það er aðeins eitt sem ég vildi svo að síðustu spyrja hæstv. utanrrh. út í, ég geri ráð fyrir að hann geti átt leið hingað einu sinni enn í kvöld, og það er um byggingu stjórnstöðvar í Keflavík. Nú er maður alltaf að reyna að læra af reynslunni og ég hef reynt að læra af þeirri reynslu sem ég hef upplifað í tengslum við málefni þessarar stjórnstöðvar. Ég var búinn að þráspyrja um þetta ákveðna málefni og reyna að draga fram einhverjar upplýsingar um hvað hér væri á ferðinni, fullyrða þetta í ræðum á hv. Alþingi o. s. frv., en hef lítið haft upp úr því krafsinu fyrr en nú í vetur allt í einu að það upplýstist í fyrirspurnatíma að teikningar að þessu mannvirki væru komnar í utanrrn. Þetta var þá raunveruleiki eftir allt saman, þessi áform voru raunveruleg eins og haldið hefur verið fram og nú er ekki lengur hægt að neita þeim. Hér er svo fjallað um þessa stjórnstöð í þessari skýrslu og er það út af fyrir sig vel. Í ljósi þess sem við höfum heyrt og séð í sambandi við ákvarðanatöku um framkvæmdir á vegum Bandaríkjahers hér á landi hlýt ég að spyrja hæstv. utanrrh.: Er það á döfinni að hann taki ákvörðun í sínu rn. um að heimila Bandaríkjamönnum að hefja þessar framkvæmdir og mun hann þá standa þannig að því að hann muni einfaldlega tilkynna ríkisstj. að hann ætli að veita þetta leyfi? Það hefur einnig komið fram hér í umr. að þannig gerast oft hlutirnir á þessum bæ. Það er bara sagt frá því í ríkisstj.utanrrh. hafi leyft eða ætli sér að leyfa þessa eða hina framkvæmd og við það situr. Er þess til að mynda að vænta að einhver ákvörðun í þessu máli verði tekin á næstu mánuðum, til að mynda á meðan Alþingi er í sumarfríi eða hvað er annars að frétta af því? Því miður bendir allt til þess að þetta sé næst á listanum góða yfir óskir Bandaríkjamanna um framkvæmdir hér, þetta sé næsta skref sem þeir vilji fá að stíga hér og engan veginn það síðasta. Það verður ákveðinn mælikvarði á framkvæmdahraðann hversu langt um líður frá því að síðustu framkvæmdir voru leyfðar þangað til ákvörðun verður tekin um þessa.

Það verður mjög fróðlegt að vita, herra forseti, hvort við eigum eftir að upplifa atburðarás eitthvað svipaða þeirri sem gerðist með stjórnstöðina í sambandi við þær risaradarstöðvar sem ég hef hér gert að umræðuefni. Því miður finnst mér að ég sé að mörgu leyti að upplifa sömu söguna aftur. Heimildir úti í heimi, ábyggilegar heimildir, færa manni heim sanninn um að svona áform séu á döfinni. Enginn kannast við neitt. Hæstv. utanrrh. hefur ekki heyrt neitt, kannast ekki við neitt. Svo líður ár, svo liða tvö ár og þá allt í einu er þetta komið á prent. Jú, þeir eru búnir að fá teikningar og þeir vilja helst fara að drífa í þessu á næsta ári. Ég ætla svo sannarlega að vona að uggur minn um þetta efni sé ástæðulaus því einhver verstu tíðindi, held ég, sem ég gæti nú fengið í þessum málum væru að eitt stykki svona mannvirkja ætti að rísa hér. Ég held að utanrrh. hljóti nú að skilja, ef hann hugleiðir það augnabliksstund, að þegar maður hefur endurtekið orðið fyrir reynslu eins og þeirri sem ég rakti hér í sambandi við stjórnstöðina og rekja má í sambandi við margar fleiri framkvæmdir sem hér hefur verið ráðist í hljóti manni að leyfast að vera tortrygginn og gagnrýninn og vilja fá skýr svör. Þess vegna hef ég gert þetta mál jafnítarlega að umfjöllunarefni hér og raun ber vitni. Ég sætti mig ekki við að því sé einfaldlega vísað frá á grundvelli þess að heimildir sem maður vitnar í séu ekki marktækar, ekki síst þegar þær eru frá þeim aðilum sem ég hef í vitnað.

Herra forseti. Þá ætla ég að fara að hætta þessu í bili. Þetta er orðið allgott. Því miður virðist mér það vera svo hjá þessari hæstv. ríkisstj. að þar sé bókstaflega allt galopið í þessum herstöðva- og vígbúnaðarmálum. Það hefur sjaldan ef nokkurn tíma á síðustu áratugum verið jafnlítið viðnám hér, jafnlítið reynt að sporna eitthvað við því að við flækjumst endanlega í þetta vígbúnaðarnet. Ef maður setti upp Íslandskort þar sem merktir yrðu inn allir þeir staðir, öll þau mannvirki sem á einhvern hátt tengdust hernaði sýnist mér að ef svo haldi sem horfi verði það eitt blikkandi ljósahaf innan nokkurra ára. Ekki er það nú falleg framtíðarsýn, a. m. k. ekki fyrir mig.

Ég ætla þá ekki að hafa þetta fleira en ég ítreka spurningar mínar til hæstv. utanrrh. og vona að hann geti gefið mér einhver skýr svör við þeim.