07.05.1985
Sameinað þing: 80. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4922 í B-deild Alþingistíðinda. (4182)

394. mál, atvinnumál á Norðurlandi eystra

Flm. (Kolbrún Jónsdóttir):

Herra forseti. Ég þakka þeim þm. sem hér hafa tekið til máls og sýnt þessari till. velvilja. Meðflm. minn styður vitanlega till.

Það eru örfá atriði sem ég vildi drepa á jafnframt því sem ég sagði áðan. Það er t. d. um ástandið í Grímsey sem mér finnst mjög alvarlegt. Það er bein afleiðing af gerðum ríkisstj., hinu svonefnda kvótakerfi. Þar eru menn búnir með sinn kvóta þessa dagana og verða að bíða til næstu áramóta eftir að mega veiða fisk úr sjónum, en það er þeirra eina afvinnugrein. Þeir verða að sitja út allt árið án þess að mega draga bein úr sjó, nema á bátum undir tíu tonnum að stærð, nema þeir fái keyptan kvóta annars staðar frá. Þetta er óþolandi ástand, og það á lítilli eyju norður í Dumbshafi, að mega enga björg sér veita vegna aðgerða af völdum ríkisstj.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon minntist áðan á fjölgun ungmenna úti á landi miðað við þéttbýli og finnst mér gott að hann nefndi þetta. Eins og kemur fram í grg. eru einstaklingar á aldrinum 15–19 ára um 541 að meðaltali í árgangi, en fjölgun starfa 1983 var aðeins 60 það árið. Þessar tölur sýna okkur að eftir því sem árin líða verður meiri hætta á auknu atvinnuleysi, miðað við það sem nú er, verði ekki snögg breyting á.

Hv. þm. Björn Dagbjartsson nefndi hérna verð á fasteignum og að það þyrfti að byggja upp stóriðju hið snarasta til þess að snúa þessu við. Í því sambandi langar mig til þess að benda á að það eru fleiri atvinnutækifæri en stóriðja sem hægt er að byggja upp og sem hafa áhrif á verð á fasteignum. Þar er gleggsta dæmið Sauðárkrókur. Þar er ekki verið að byggja upp neina stóriðju. Þar er verið að reisa steinullarverksmiðju. Þar hefur verð á fasteignum rokið upp. Og ríkissjóður á þar stóran hlut að máli. Ef ég man rétt mun ríkissjóður m. a. verja 130 millj. kr. í þá uppbyggingu á þessu ári, 1985. Þau eru ansi víða áhrifin af ákvörðunum ríkisvalds sem fólki verða annaðhvort til góðs eða ills. Það er ekki sama hvar fjármununum er eytt eða hvar er drepið niður. Ég vil aðeins nefna þetta þar sem hv. 5. þm. Norðurl. e. talaði um stóriðju sem eina kostinn. Þetta er ekki sagt í þeim skilningi að nú verði að byggja aðra steinullarverksmiðju og að hún eigi að vera staðsett á Akureyri eða í nágrenni. Sú er alls ekki meiningin með þessum orðum.

Eitt atriði er nefnt í þessari till., mér þótti ekki ástæða til að lesa hana upp þar sem hún er á prentuðu þskj., en það er varðandi iðngarða. Ég hef trú á því að sú tilhögun að byggja iðngarða sem víðast þar sem menn gætu fengið leigt húsnæði til að koma upp atvinnustarfsemi mundi létta mönnum mjög róðurinn varðandi fjármögnun því að það er ansi hart að þurfa að byrja á því að byggja hús fyrir takmarkað fjármagn og berjast fyrir því að fá lán fyrir húsnæðinu, en standa svo uppi slyppur og snauður þegar þarf að byggja upp sjálfa atvinnustarfsemina. Ég held að með því móti að reisa iðngarða geti ríkið líka stutt verulega við bakið á einstaklingum varðandi atvinnuuppbyggingu.

Það má svo sannarlega nefna margt fleira í þessu sambandi en ég tel ekki ástæðu til þess á þessu stigi.