07.05.1985
Sameinað þing: 80. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4923 í B-deild Alþingistíðinda. (4185)

394. mál, atvinnumál á Norðurlandi eystra

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Mig langar að leiðrétta þann hvimleiða misskilning sem aftur gerir vart við sig í Sjálfstfl. um eðli þessa hlutafélags. Þetta er ósköp einfaldlega þannig að ríkið ætlar að beita sér fyrir stofnun hlutafélags. Það ætlar að leggja til obbann af hlutafénu í upphafi. Í öllu falli verður það mjög stór hluthafi, sennilega stærsti hluthafinn, og það ætlar að greiða fyrir um lán handa hinum hluthöfunum. Síðan ætlar ríkið, og það stendur í grg., að beita sér fyrir því að ýmis ákvæði verði sett inn í stofnsamning hlutafélagsins og það er ekkert því til fyrirstöðu að ríkið hafi eitt af þessum ákvæðum um aðsetur fyrirtækisins. Ef þm. á hv. Alþingi treysta sér ekki til þess að setja það bókstaflega í lög getur ríkið að sjálfsögðu bundið þátttöku sína í þessu félagi þessu skilyrði eins og öðrum sem það ætlar að binda þátttöku sína við. Það er nákvæmlega ekkert því til fyrirstöðu. Það væri í öllu falli mjög skrýtið ef stærsti hluthafinn gæti ekki haft áhrif á þetta atriði.

Ég styð hv. þm. í því að drífa Byggðastofnun norður. Það er ekkert mál. Við skulum sameinast um það.