12.10.1984
Sameinað þing: 4. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 171 í B-deild Alþingistíðinda. (42)

Skýrsla ríkisstjórnarinnar um kjaradeilurnar

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Það var ekki ætlun mín að hefja hér umr. um kjarasamninga, sem vonandi verða nú senn í höfn, og ekki heldur um einkarétt Ríkisútvarpsins eða þær deilur sem sprottið hafa vegna verkfallsvörslu. Ég vil þó segja að mig undrar hve margir hafa látið sig dreyma um að þjóðfélagið gæti gengið eðlilega ef starfsmenn ríkisins færu í verkfall og að slíkt verkfall þyrfti ekki að valda óþægindum. Ég veit ekki um neitt verkfall sem ekki hefur valdið óþægindum. Auðvitað veldur þetta verkfall miklum óþægindum í þjóðfélaginu vegna þess að þeir sem eru í verkfalli gegna mikilsverðum störfum.

Það gerðist aftur á móti í gær að hæstv. fjmrh. hóf umr. um ákveðna stétt í þjóðfélaginu. Ég treysti mér ekki til að sitja undir þeim athugasemdum, sem þar komu fram, án þess að mótmæla þeim. Sú stétt, sem vikist var að, var kennararnir á Íslandi. Það vill svo til að ég hef sinnt kennslustörfum nokkuð langan tíma og tel mig m.a. þess vegna vita gjörla hvað ég ræði um. Ég er jafnframt einn af þeim þjóðfélagsþegnum íslenskum sem hafa unnið við nokkuð margt um dagana. Hæstv. fjmrh. er þekktari að því að leggjast gegn því að deilt sé á heilar stéttir eða hópa manna og hefur þá löngum reynt að finna málsbætur og ekki viljað dæma hópinn þó hann gæti kannske fundið einn svartan sauð. Einnig hafa ummæli hæstv. ráðh. vegna þeirrar stöðu sem hann gegnir miklu meira vægi en nokkurs annars á þessu sviði.

Hæstv. ráðh. gat þess að kennaralaun væru lág. Hann hafði engan heimildarmann að þeirri yfirlýsingu. Hann vissi það einfaldlega vegna sinnar þekkingar á íslensku þjóðfélagi. Hins vegar bætti hann því við að vinnuskylda kennara væri ekki sambærileg við aðra hópa í þjóðfélaginu og bar fyrir því heimildarmenn sem hann nafngreindi ekki. Þau rök, sem hann færði fram, voru þau að kennslustundin væri 40 mín. og kennslustundafjöldi á viku væri um 30 klst. Nú er það svo að þetta er ekki fjarri sanni. (Fjmrh.: Kennslustundir.) Kennslustundir, já. Þetta er ekki fjarri sanni svo langt sem það nær. En hverjum dytti í hug að dæma leikara og vinnu þeirra eftir þeim tíma sem þeir standa á fjölum Þjóðleikhússins eða í Iðnó og segja að þetta væri tíminn sem þeir ynnu? Hver ætlar að kalla vinnuskyldu presta þann tíma sem þeir eru í kirkju að flytja þar guðsorð? Hver ætlar að halda því fram að knattspyrnumaður, sem spilar á leikvelli erlendis eða innlendis í keppni, hafi aðeins unnið þann tíma sem hann var í þessum keppnisleik? Hverjum dettur í hug að halda slíku fram? Það er jafn fráleitt að halda því fram að vinnuskylda kennara sé hið sama og sú kennsluskylda sem verið er að tala um. Þetta hefur engum samningamanni af hálfu ríkisins dottið í hug, enda geri ég ráð fyrir að nemendur yrðu nokkuð fljótir að losa sig við þann kennara sem aldrei teldi sig þurfa að búa sig undir kennslustundir.

Ég hygg að hæstv. ráðh. hafi ekki verið ráðið heilt þegar hann kom þessum boðskap á framfæri. Þó hafa þeir vafalaust verið greindir og vel menntaðir sem fræddu hann um þetta. — En það hvarflar að mér að sagan hafi endurtekið sig frá þeim dögum þegar Guðmundur ríki trúði orðum Einars Þveræings, bróður síns, en þeir voru þá báðir ungir drengir norður í Eyjafirði. Það var sumar og sól. Fóstri Guðmundar hafði sofnað og það sat fluga á skallanum á honum. Einar ráðlagði bróður sínum að drepa fluguna með handexi sem hann hafði undir höndum. Guðmundur fylgdi þeim ráðum. Flugan slapp, en fóstri hans vaknaði með andfælum og spurði hvort hann ynni á sér. Guðmundur kvað ekki svo vera, en sagðist finna að Einar bróðir sinn réði sér ekki heilt. Það hygg ég að þeir hafi vissulega gert sem komu þeim boðskap til hæstv. fjmrh. að kennsluskylda kennara væri nánast það sama og vinnuskylda þeirra.

Það er ekki við hæstv. fjmrh. að sakast þó að laun kennara séu jafnlág og raun ber vitni. Þar er löng þróun að baki og saga sem rétt er að rifja upp því fráleitt er og með öllu ósæmandi að skella þeirri skuld á hæstv. ráðh. sem hefur aðeins stuttan tíma verið í embætti.

Kennarar unnu, eins og launþegar almennt í þessu landi, eftir tímamælingu og tímakaup var það sem öll launagreiðsla grundvallaðist á. En það hefur orðið mikil breyting í þeim efnum. Stórir hópar þjóðfélagsins hafa annars vegar grunnlaun og hins vegar álag ofan á þau, annaðhvort vaktaálag eða þá „bónus“ eða hafa komið sér upp ákvæðisvinnukerfi. Þess vegna má segja að grunnlaunin séu ef til vill í nokkuð réttu hlutfalli miðað við það sem þau voru áður, en vegna hinna breyttu aðferða við að reikna út laun hjá mjög mörgum öðrum stéttum hafi kennarar gjörsamlega dregist aftur úr.

Ég hygg að hið flókna launakerfi, sem við höfum komið okkur upp, þurfi athugunar við á ýmsan hátt. Þegar menn vilja halda því fram að ekki sé réttlætanlegt að breyta kjörum kennara eru það ekki rök að þeim hafi fjölgað það mikið. Sannleikurinn er sá að búið er að hlaða ýmsum verkefnum á kennara eða þá hópa sem vinna að uppeldismálum, þar á ég einnig við félagsráðgjafa og sálfræðinga.

Það hefur einnig orðið gífurleg fjölgun á starfsliði heilbrigðisstétta ef það er borið saman við þann sjúklingafjölda sem það sinnir. Þegar Eysteinn Jónsson var fjmrh. var það nokkurs konar þumalputtaregla að það væri einn sjúklingur á móti einum starfsmanni. Nú hygg ég að niðurstaðan sé sú að það séu rúmir tveir starfsmenn á móti hverjum sjúklingi. Engum dettur þó í hug að áfellast heilbrigðisstéttirnar fyrir þetta og bera því við að vegna þessarar þróunar beri ekki að greiða þeim eðlileg laun. Sannleikurinn er sá að kröfur okkar um þjónustu hafa stöðugt verið að aukast og í sumum tilfellum eru þær orðnar óeðlilega miklar.

Það er opinber staðreynd og vitað af öllum Íslendingum að þegar konur fóru að vinna jafnmikið utan heimilisins og þær gera í dag hlaut það að koma niður á uppeldi æskunnar. Þau vandamál sem m.a. hafa orðið til vegna þess flytjast beinustu leið inn í skólastofurnar og auka þar álag. Kennara er ætlað að vinna að kennslu, þ.e. að fræðslustörfum, og koma ákveðnum boðskap á framfæri, en honum er einnig ætlað að vinna að uppeldismálum og jafnframt lögð sú skylda á herðar, og ég hygg að prestar sitji uppi með þá skyldu einnig, að vera til fyrirmyndar innan skólans sem utan í sínum frítímum.

Kannske er það svo, eins og hæstv. fjmrh. sagði í gærkvöld um þetta mál, að nokkuð stór hópur í þjóðfélaginu haldi fram sömu skoðun og hann. Mér er það ekki ljóst. En ef svo er stöndum við frammi fyrir því að kennarastéttin sem heild er vanmetin og afleiðingar þess vanmats hygg ég að eigi eftir að birtast í ýmsum myndum.

Ég hef aldrei verið hlynntur því að fara í meting á milli stétta. Ég minnist þess að ég las það sem ungur maður að indversk heimspeki boðaði að sérhver væri mikill á sínum stað. Þar var átt við að sérhver þjóðfélagsþegn ynni þarft verk, væri ómissandi í þeirri keðju sem þjóðfélagið myndar.

Ég vænti þess að hæstv. fjmrh. hugleiði það, sem ég hef hér sagt, í fullri vinsemd. Engum er ljósara en mér það erfiða starf sem hann gegnir á þeim erfiðu tímum sem við lifum á. Kannske er það meðal annars þess vegna sem nauðsyn er að vera varkár í yfirlýsingum og egna menn ekki til átaka að ástæðulausu.