08.05.1985
Efri deild: 66. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4964 í B-deild Alþingistíðinda. (4203)

146. mál, sjómannalög

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Það hefur verið mjög fróðlegt að fræðast hér við 3. umr. um nefndarstörf í hv. samgn. og hvað þar hefur komið fram og hvað ekki.

Það virðist vera orðin hálfgerð dauðasynd í þessu máli að ábendingar skuli ekki hafa komið fram fyrr í þá veru sem ég hef hér vakið máls á og er þar ekki um neitt annað að sakast en það að fulltrúi Kvennalistans í hv. Ed. á ekki sæti í hv. samgn. Hvað þetta sérstaka atriði varðar hafði ég tal af formanni nefndarinnar og bauð honum, og það reyndar í votta viðurvist, að ef hann hefði hug á að hafa samráð við mig um þetta atriði væri ég til þess fús, en mér hefur hingað til ekki verið boðið á fund í þessari hv. nefnd.

Það er rétt sem hv. formaður nefndarinnar, hv. þm. Egill Jónsson, sagði. Sú brtt. sem hér er fram borin er tillaga sem Páll Sigurðsson dósent í lögum orðaði við mig og fannst mér þá heldur skammt gengið. Ég hef síðan endurskoðað hug minn og gert grein fyrir þeirri breytingu sem á afstöðu minni hefur orðið. Hvað hv. þm. sagði varðandi sjúkdóma og slys, þ. e. að það væri ekki verið að ræða um sjúkdóma og slys í þessari grein og þar af leiðandi gilti ekki staðgengilsregla, þá kemur staðgengilsregla að mínu viti ekki þessu máli á neinn hátt við.

Hv. þm. Kolbrún Jónsdóttir taldi að hér væru almennar hugleiðingar um mannleg samskipti á ferðinni. Mig langar til að benda hv. þm. á að lög fjalla mjög oft um mannleg samskipti. Þau eru ekki almennar hugleiðingar heldur leitast þau við að tryggja réttindi annars vegar og skyldur hins vegar, m. a. í mannlegum samskiptum. Þessi brtt. er fram borin til þess að tryggja réttindi kvenna á þeim tíma sem þarna um ræðir.

Hvað varðar aðrar athugasemdir hv. þm. Kolbrúnar Jónsdóttur tel ég þær ekki svaraverðar.