08.05.1985
Efri deild: 66. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4968 í B-deild Alþingistíðinda. (4212)

355. mál, starfsheiti og starfsréttindi heilbrigðisstétta

Frsm. (Davíð Aðalsteinsson):

Hæstv. forseti. Heilbr.- og trn. Ed. hefur haft til meðferðar frv. um starfsheiti og starfsréttindi heilbrigðisstétta. Eins og fram kemur í nál. voru nokkrir nm. fjarverandi afgreiðslu málsins, þau hv. þm. Kolbrún Jónsdóttir, Árni Johnsen og Karl Steinar Guðnason.

Ég held að það væri rétt að fara a. m. k. að nokkru yfir þá grg. sem fylgir þessu frv., til þess að hv. dm. glöggvi sig fremur á því hvaða mál er hér um að ræða, og mun ég gera það áður en ég geri grein fyrir örfáum brtt. sem n. flytur við frv. Með leyfi virðulegs forseta ætla ég að lesa upp hluta þeirrar grg.:

„Með bréfi, dags. 28. jan. 1985, til heilbr.- og trn. Nd. óskaði heilbr.- og trmrh. eftir því að nefndin flytti meðfylgjandi frv. á yfirstandandi þingi.

Nefndin varð sammála um að verða við þeim tilmælum, en mun athuga frv. betur milli umræðna.

Frv. fylgdi svohljóðandi grg.:

Á undanförnum árum hefur mjög færst í vöxt að hinar ýmsu heilbrigðisstéttir hafi sótt um lögverndun starfs og starfsheitis. Hefur þá ýmist verið gripið til þess ráðs að setja sérlög um hinar einstöku stéttir eða kveða á um þær í reglugerðum sem settar hafa verið með stoð í lögum nr. 64 frá 1971, um tæknimenntaðar heilbrigðisstéttir, þ. e. hafi verið um tæknimenntaðar heilbrigðisstéttir að ræða eins og röntgentækna og lyfjatækna svo að dæmi séu tekin. Skv. þessu nægir reglugerð sé um tæknimenntaðar heilbrigðisstéttir að ræða, en að öðrum kosti þarf sérlög.

Nú er augljóst að sífelld setning sérlaga um einstakar heilbrigðisstéttir gengur ekki til lengdar og reyndar er spurningin sú hvort ekki hafi þegar verið gengið of langt í þeim efnum. Það hefur lengi verið skoðun heilbr.- og trmrn. að nær væri að útbúa heildstæða löggjöf um heilbrigðisstéttir sem gæfi heimildir til setningar reglugerðar um hina einstöku hópa þar sem tekið yrði á sérmálum þeirra, svo sem hverrar menntunar sé nauðsynlegt að krefjast, í hverju starfið skuli fólgið og þar með hver réttindi þeirra skuli vera og ekki síst hvaða skyldur þeir skuli bera. Forsenda fyrir því, að hægt sé að viðurkenna starfsstétt sem heilbrigðisstétt, hlýtur að vera sú að fyrir liggi markvisst og skipulegt nám í skóla innanlands eða utanlands sem heilbrigðisyfirvöld viðurkenna. Slíkt nám verður að miðast við ákveðna sérhæfingu vegna mikilvægis starfans svo og að hann sé leystur af hendi á sem farsælastan hátt, enda ábyrgð heilbrigðisstétta meiri en gerist yfirleitt vegna þess hve mistök í starfi eða vanræksla geta orðið afdrifarík.

Haustið 1982 fól þáv. heilbr.- og trmrh. Svavar Gestsson Ingimar Sigurðssyni, deildarlögfræðingi í heilbr.- og trmrn., og Ólafi Ólafssyni landlækni að gera tillögur að frv. til l. um heilbrigðisstéttir, þ. e. tillögur að rammalögum sem tækju yfir heilbrigðisstéttir almennt, ekki aðeins tæknimenntaðar heilbrigðisstéttir, að svo miklu leyti sem ekki hefðu þegar verið sett sérlög um viðkomandi stéttir. Þeir Ingimar og Ólafur skiluðu áliti í búningi frv. til l. um starfsheiti og starfsréttindi heilbrigðisstétta í septembermánuði s. l. Höfðu þeir áður leitað umsagna ýmissa heilbrigðisstétta sem ekki búa við löggildingu, svo sem Félags ísl. læknaritara og Sjúkranuddarafélags Íslands, svo og ýmissa félaga sem njóta löggildingar, t. d. Sjúkraliðafélags Íslands, Ljósmæðrafélags Íslands, Röntgentæknafélags Íslands, Félags ísl. sjúkraþjálfara og Lyfjatæknafélags Íslands. Lýstu allir þessir aðilar sig ýmist sammála frumvarpsdrögunum eða höfðu engar aths. fram að færa, þ. e. töldu þau í engu skerða starfssvið sitt.

Til ráðuneytisins hafa borist, bæði formlega og óformlega, beiðnir frá nokkrum félögum um löggildingu sem liggja í rn. óafgreiddar þar sem rn. vill freista þess að vinna að setningu heildarlaga um heilbrigðisstéttir eins og áður hefur fram komið. Sem dæmi má nefna beiðni frá Félagi ísl. læknaritara, Sjúkranuddarafélagi Íslands, Félagi matvæla- og næringarfræðinga, Félagi heyrnarfræðinga og talmeinafræðinga og frá líffræðingum starfandi í heilbrigðiskerfinu, þ. e. sem sérmenntað hafa sig eftir líffræðinám í heilbrigðisgreinum.“

Heilbr.- og trn. flytur nokkrar brtt. við þetta frv. Þær eru ekki miklar að vöxtum, en mér þykir rétt að gera grein fyrir þeim.

1. brtt. varðar 2. gr. frv. Þar er fyrst og fremst um að ræða hnitmiðaðra orðalag, en nefndin leggur þó til viðbótarmgr. við þessa grein sem er svohljóðandi:

„Gerist Ísland aðili að milliríkjasamningi um gagnkvæma viðurkenningu á starfsréttindum heilbrigðisstétta er undir lög þessi falla skal fara eftir ákvæðum þessarar greinar eftir því sem við getur átt og samrýmst viðkomandi milliríkjasamningi.“

Þessi mgr., sem hér er lagt til að bætist við 2. gr., er að sjálfsögðu til komin vegna þess að við Íslendingar erum bundnir Norðurlandasamningi um viðurkenningu á starfsréttindum innan heilbrigðisþjónustunnar og dýralæknaþjónustunnar og þarf ekki að skýra frekar þessa till. nefndarinnar.

2. brtt. frá nefndinni varðar 6. gr. frv. þar sem nefndin leggur til að 3. mgr. 6. gr. verði numin brott. Okkur þykir óþarft að hafa þá mgr. af þeim sökum að í 2. mgr. sömu greinar er vitnað til læknalaga um viðurlög.

3. brtt. n. varðar 8. gr. frv. þar sem nefndin leggur til að greinin orðist þannig:

„Lög þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi lög nr. 64/1971, um tæknimenntaðar heilbrigðisstéttir.“ Sú breyting, sem þarna er á ferðinni, er eingöngu á þá lund að orðin „að undanskildum ákvæðum um tannsmíði“ í lögum nr. 39/1980 verði numin brott úr þessari grein, enda teljast tannsmiðir til iðnaðarstétta.

Virðulegi forseti. Ég hef ekki um þetta fleiri orð. Nefndin leggur að sjálfsögðu til að frv. verði samþykki ásamt með þeim brtt. sem ég hef gert grein fyrir.