08.05.1985
Efri deild: 66. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4970 í B-deild Alþingistíðinda. (4213)

355. mál, starfsheiti og starfsréttindi heilbrigðisstétta

Kolbrún Jónsdóttir:

Virðulegi forseti. Eins og kom fram hjá hv. frsm. var ég ekki á þeim nefndarfundi sem afgreiddi þetta mál. Þegar þetta mál var til umr. áður í hv. heilbr.- og trn. gerði ég aths. við 5. gr. frv. og ég hef enn þær efasemdir þrátt fyrir að ég sé ekki búin að bera upp mótaða brtt. hér í hv. deild.

Ég vil vitna í bréf, sem barst frá Vinnuveitendasambandi Íslands. Þar koma einmitt fram efasemdir varðandi slík ákvæði. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Forsvarsmenn Vinnuveitendasambands Íslands leyfa sér hér með að tjá áhyggjur sínar vegna fyrirhugaðrar lagasetningar á sviði heilbr.- og trmrn. um lögskipan einokunarréttar til tiltekinna handverka og starfa. Telja verður eðlilegra, sbr. 69. gr. stjórnarskrárinnar, um atvinnufrelsi, að lögvernda starfsheiti en ekki starfsréttindi nema í undantekningartilvikum og að endursemja beri frv. það um starfsheiti og starfsréttindi heilbrigðisstétta sem nú er til meðferðar á Alþingi í ljósi þessa. Af hálfu Vinnuveitendasambands Íslands er litið svo á að stofnanir þær sem um er getið í 4. gr. frv. séu eingöngu opinberar stofnanir, en það mætti kveða skýrar á um í texta verði ekki fallist á endursamningu frv. skv. framangreindum aths.“

Þetta eru einmitt þær efasemdir sem ég hef varðandi 5. gr., en hún hljóðar svo, með leyfi forseta: „Óheimilt er að ráða til þeirra starfa, sem undir lög þessi heyra, aðra en þá sem heilbrrh. hefur veitt löggildingu skv. lögum þessum og reglugerðum sem settar kunna að verða skv. þeim.“

Gangi þetta ákvæði í gildi verður óheimilt að hafa starfandi fjölda manna innan heilbrigðiskerfisins, sem nú eru starfandi, nema þeir fái löggildingu. Þar er t. d. um að ræða læknaritara sem hér var áður minnst á ef skortur er á læknariturum einhvers staðar úti á landi. Því ætti það að brjóta í bága við lög að hæf starfsmanneskja, sem gæti sinnt þessu, gæti starfað sem læknaritari þar til hún hefði öðlast nægilega reynslu og þekkingu eða annar læknaritari kæmi til þeirra starfa? Svona gætum við lengi talið.

Í lögum um sjúkraliða er hvergi kveðið á um að öðrum sé óheimilt að starfa við hjúkrun eða vera í störfum sjúkraliða. Það væri líka ansi slæmt að kveða á um slíkt í lögum. Við eigum ekki menntað starfsfólk í hverja stöðu hvar sem er. Þar af leiðandi tel ég að slíkt ákvæði yrði aðeins til þess að undanþágur yrði að veita strax. Þetta ákvæði yrði þar með ekki jafngilt. Ella yrði að hafa þetta ákvæði rýmra þannig að það væri hægt að starfa undir þessum lögum um leið og þau væru gengin í gildi.