08.05.1985
Efri deild: 67. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4976 í B-deild Alþingistíðinda. (4226)

355. mál, starfsheiti og starfsréttindi heilbrigðisstétta

Stefán Benediktsson:

Virðulegi forseti. Auðvitað fer ekkert á milli mála að þess eru víða fordæmi að finna að slík ákvæði, sem fram koma í 5. gr. þess frv. sem hér um ræðir, eru fyrir hendi og að alltaf þegar slík ákvæði eru sett í lög kemur upp sú spurning hvort ákvæði sem þessi stangist e. t. v. á við 69. gr. stjórnarskrárinnar. Samþykki menn lög með ákvæðum sem þessum eru þeir um leið að samþykkja að hér ráði almenningsheill og þannig með óbeinum hætti líka að skuldbinda stjórnvöld til að uppfylla nægjanlegt framboð af starfskröftum á viðkomandi sviði því að ella er ekki hægt að framfylgja lögunum. Ef óheimilt er að ráða til starfa aðra en þá sem undir þessi lög heyra verða stjórnvöld að sjá til þess að alltaf sé til nægilega stór hópur fólks með tilskilda menntun í landinu þannig að aldrei komi til þess að menn geti ekki ráðið í stöður, jafnvel þó að fólk bjóðist til þessara starfa, bara af því að ekki sé fyrir hendi tilskilin réttindi skv. þessum lögum.

Ég hef lýst því áður hér í þessum ræðustól að ég er mótfallinn þessari sérréttindalöggjöf, sem Alþingi er farið að afgreiða á seinni árum á færibandi, og tel það óþarfa þróun í jafnfámennu og strjálbýlu landi sem Íslandi. Það hlýtur að koma í veg fyrir eðlileg og óþvinguð samskipti manna þegar farið er að lagskipta starfsstéttum með þessum hætti, sem gert er með löggjöf þessari sem tekur ekki mið af raunveruleikanum í strjálbýli eins og er hér á landi þar sem menn verða oft og tíðum að sinna ýmsum störfum sem þeir ekki endilega eru sérmenntaðir eða sérhæfðir til. Þó að ástandið sé kannske ekki eins og það var á dögum Stephans G. búum við Íslendingar enn við það í dreifbýli að menn vinna þar mjög fjölbreytt störf, bæði á tæknilegu sviði og menningarlegu sviði og ég tel það mjög heilbrigt ástand. Ég held að það sé okkur Íslendingum ekki til farnaðar að flytja inn það mjög svo leiðinlega menningareinkenni iðnaðarþjóðfélagsins að lagskipta starfsstéttum þannig að samband og samgangur milli þeirra sé gerð ómöguleg, og þá á ég við samstarf, þar sem réttindi boða að óheimilt sé að fara inn á starfssvið annars aðila. Ég býst við að allir þeir sem hér eru inni átti sig á því að fátt hefði gerst á þessu landi á þessari öld ef við hefðum búið við svipaða löggjöf og þessa á öllum sviðum atvinnulífs.