31.10.1984
Efri deild: 8. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 633 í B-deild Alþingistíðinda. (423)

85. mál, rannsóknarnefnd til að rannsaka afskipti ráðherra og embættismanna af rekstri ólöglegra útvarpsstöðv

Valdimar Indriðason:

Virðulegi forseti. Till. sú til þál. sem liggur hér fyrir og er til umr. í þessari hv. deild er nokkuð sérstæð. Hún kveður á um að skipa skuli hér rannsóknarnefnd til að rannsaka starfshætti ráðherra vegna rekstrar á ólöglegum útvarpsstöðvum í nýafstöðnu verkfalli — ég vona að ég megi segja það — og hver afskipti ráðh. hafi verið af þeim málum. Hv. 5. landsk. þm. flutti framsöguræðu sem 1.flm. að þáltill. á miðvikudaginn var og fór þá nokkuð vítt yfir völl í þessum efnum. Ég ætla ekki að taka hans málflutning sérstaklega fyrir að svo komnu máli.

Áðan hélt ræðu hv. 3. þm. Norðurl. v. og fór mjög geyst. Hans ræða gekk svo að segja öll út á það að tilkynna hve Sjálfstfl. væri brotlegur í þessum efnum. Ég held að ég hafi skilið hv. þm. rétt. Það var megininntakið í hans ræðu. (RA: Það er rétt.) Hann sagði t.d., ef ég hef rétt eftir honum, að formaður Sjálfstfl. hefði tekið lögin í sínar hendur í nokkra daga, Sjálfstfl. staðið fyrir rekstri sjóræningjastöðvar í húsi sínu og annað eftir þessu. Þetta held ég að sé orðrétt eftir haft.

Ég ætla ekki að afsaka Sjálfstfl., en ég hef ekki séð það koma fram neins staðar... (Gripið fram í.) Ég held að hv. 3. þm. Norðurl. v. haldi það. Hvar er sönnunin á því að rekin hafi verið ólögleg útvarpsstöð í Sjálfstæðishúsinu? Ég spyr. Og því mætti jafnvel hv. 5. landsk. svara. Það eru miðaðar út sendingar, en það finnst þar engin stöð. Þá er beðið um að mega fara upp á þak að leita að loftneti, en neitað um það. En þetta hlýtur að koma fram þegar málið er rannsakað. Ég hefði alls ekki á móti því. Fullyrðingum hér í hv. þd. um að þetta sé á ábyrgð Sjálfstfl. mótmæli ég algerlega hreint. Rannsókn mun leiða í ljós þegar að því kemur hvort þetta er rétt. En slíkar fullyrðingar kann ég ekki við hér í hv. deild þó að þm., sumir hverjir, í stjórnarandstöðunni haldi annað og vilji trúa öðru. (RA: Hverju trúir þm.?) Þm. trúir engu í þessum efnum fyrr en staðreyndir liggja fyrir. Ég veit ekki til að þar hafi verið rekin útvarpsstöð á vegum Sjálfstfl., alls ekki. Ég lýsi því hér með yfir að ég veit ekki til þess. Það kemur þá fram ef það hefur verið gert á vegum Sjálfstfl., en það veit ég bara ekki um. (RA: Það er gott að loka augunum.) Þau eru sæmilega vel opin í mér en ég hef ekki orðið var við þessa stöð. Það á ekki að fullyrða neitt þegar rannsókn liggur ekki fyrir.

Það er veist hér sérstaklega að ráðh. Ég er ekki að mæla með því að brotin séu lög. Það gerir held ég enginn okkar hér. En það hafa verið brotin lög, eins og sagt hefur verið hér, á ýmsum sviðum undanfarnar vikur. Ég held að allir geri sér ljóst að svo hefur verið gert. Við skulum þá láta reyna á þetta fyrir réttum aðilum. Þessi mál hafa verið kærð og eru í rannsókn og við skulum láta rannsaka þau til hlítar hvert á sínu sviði og fá það rétta upp. En ég kann ekki við það að hér séu hafðar uppi fullyrðingar um atvik sem leikur kannske grunur á en ekkert liggur fyrir um þessi mál fyrr en þau hafa verið rannsökuð af dómsvaldinu.

Til viðbótar þessu vildi ég geta um það að talað er um að fólk hafi brugðist ólöglega við í frjálsum útvarpsstöðvum. Þetta má vel vera rétt og ég viðurkenni að það er lögbrot að reka slíkar útvarpsstöðvar skv. útvarpslögum sem nú eru í gildi. En hvað skeður þegar á mánudagsmorgni 1. okt. uppi í útvarpinu, Ríkisútvarpinu, sem hefur þá einokunaraðstöðu að miðla landslýð fréttum og öðru efni? Þar er haldinn starfsmannafundur fyrir hádegi og okkur hlustendum tilkynnt kl. tæplega eitt að nú sé lokað, þremur dögum áður en boðað verkfall skellur á. Þetta finnast mér vera vinnubrögð fyrir neðan allar hellur. Sem betur fer tók hv. 5. landsk. þm. undir það í sinni framsöguræðu. Hann telur þetta ranga aðferð. Ég er honum algerlega sammála og þjóðin er honum og mér sammála um að þarna er rangt að staðið. Það var lágmark að bíða fram á verkfallsdag með vinnustöðvun, en láta hana ekki skella á fyrirvaralaust. Þá brýst út þessi reiði sem myndar jarðveg fyrir frjálsu útvarpsstöðvarnar, sem við hlustuðum öll sömul meira og minna á, einmitt af því að engar fréttir var að fá. Þetta er ólöglegt, það skal ég taka fram, en það hefur tíðkast áður.

Ég þarf ekki að minna hv. 1. flm. á það hvernig ástandið er í okkar kjördæmi, Vesturlandi. Við höfum vitað það báðir í langan tíma að þar eru lög brotin í sambandi við kapalsjónvarp. Ég held að nær 100% íbúðarhúsa í Ólafsvík tengist kapalsjónvarpi. Líkt er á komið í Borgarnesi og tíðkast töluvert mikið á Akranesi. Ég fer ekki lengra. Þetta hefur hv. þm. horft á undanfarin ár.

Hann sagði í ræðu, ef ég man rétt á öðrum degi þingsins, í Sþ. að hann hefði minnst á þessi mál í útvarpsráði, sagt frá þessu þar og reifað hvað ætti að gera varðandi kapalsjónvarp. En ég veit að innst inni er hann jafnsammála mér um það að ekki hvarflar að okkur að fara að loka fyrir þetta hjá fólkinu þar vestur á Snæfellsnesi. En við vitum báðir að þetta eru lögbrot og það er hægt að ásaka okkur fyrir að hafa ekki sagt frá þessu fyrr. (Gripið fram í.) Sagt frá því já, en látið það viðgangast, hv. þm. Í þessu felst tvískinnungurinn í þeim málflutningi sem hér er hafður í frammi. Það er núna, í þessu sérstaka tilfelli hugsanlega til þess að afla sér pólitískra vinsælda í stjórnarandstöðu, reynt að klekkja á þeim ráðherrum sem hafa með þessa málaflokka að gera og sagt að þeir hafi ekkert gert meðan þetta útvarp var rekið, en það var aldrei kvartað áður. Ég þori ekki að fara með það hvort hv. 3. þm. Norðurl. v. var menntmrh. þegar kapalsjónvarpið byrjaði. (Gripið fram í: Hvers vegna hlutu þeir að klekkja á?) Að klekkja á? Ég kalla það svo vegna þess að fólkið vill hafa þetta svona. Það vill hafa sitt frjálsræði í sínu sjónvarpi vestur á Snæfellsnesi og annars staðar. Það vill ekki að þm. skipti sér af því. Ég vona að við getum samið sem fyrst hér á Alþingi um það að koma á frjálsari rekstri en hefur verið í þeirri einokunarstofnun sem þarna hefur ráðið undanfarið.