08.05.1985
Neðri deild: 65. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4978 í B-deild Alþingistíðinda. (4239)

424. mál, erfðalög

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Á fundi hv. Nd. s. l. föstudag var fjallað ítarlega um þetta mál, en þar voru fæstir þm. viðstaddir svo að ég tel ástæðu til að skýra ofurlítið stöðu þessa máls, þó að ég muni ekki endurtaka ræðu mína frá því þá.

Eins og kunnugt er þá er það frv., sem hér er verið að fjalla um, fram komið vegna annars frv. sem flutt var á síðasta þingi og aftur nú í haust þar sem gert var ráð fyrir að breyta erfðalögum í þá veru að við fráfalli maka megi sá makinn sem lengur lifir ævinlega sitja í búi sínu óskiptu að því er tekur til heimilis og húsmuna, eins og þar stendur, við lát makans. Um frv. varð ekki samkomulag í nefndinni, en að ráði varð fyrir tilstilli Bjarna Bjarnasonar borgardómara, sem sendi nefndinni hugmynd að málamiðlunartillögu, að nefndin flytti hana óbreytta. Ég hef kosið að vera meðflm. þeirrar till. þar sem ég tel, þótt hvergi nærri sé náð því marki sem ætlað var með frv. okkar fimmmenninganna, sem liggur hér fyrir á öðru þskj. og ég man ekki númerið á í augnablikinu, að hér sé færst í áttina að því marki.

Að mínu viti er hins vegar á þessu nýja frv. einn galli sem ég vil freista að fá breytt og þess vegna hef ég tekið til máls aftur, og hann er sá að í frv. eins og það liggur fyrir er gert ráð fyrir að með erfðaskrá geti hvor makinn sem er leyft hinum sem lengur lifir að sitja í óskiptu búi með niðjum beggja. Þetta þýðir að jafnvel þó að gerð sé erfðaskrá nær þetta leyfi ekki til þeirra tilvika þar sem um stjúpbörn er að ræða. Ég hef raunar aftur og aftur rakið ástæður mínar fyrir því að ég tel fráleitt að setja stjúpbörn þar í einhverja sérstöðu. Ég held að það sé gagnstætt anda þeirra laga sem við höfum verið að setja á undanförnum árum, svo sem barnalaga, að gera verulegan mun á afstöðu foreldra, eins og það hét í fyrri lögum, til óskilgetinna eða skilgetinna barna. Nú geta auðvitað stjúpbörn jafnt verið skilgetin sem óskilgetin, en að okkar viti er það fráleitt að skipta börnum fólks upp í þessa flokka og gera stjúpbörnum leyfilegt að hrekja maka úr búi sínu fremur en börnum beggja.

Þess vegna hef ég flutt á þskj. 740 brtt. sem er ósköp einföld. Í staðinn fyrir að í frv. á þskj. 696 þar sem stendur „með niðjum beggja“, þá standi „með niðjum annars eða beggja.“ Þar með hefur ekkert barn, hvorki stjúpbarn eða börn beggja, leyfi til að krefjast búskipta hafi hinn látni gefið leyfi sitt með erfðaskrá. Ég vænti þess að hv. þm. skilji þetta. Þetta frv. er allflókið, en ég held að þetta eigi að vera alveg gersamlega skýrt.

Ég held að öllum hv. þm. hljóti að vera kunnugt um að úti í þjóðfélaginu er beðið eftir afgreiðslu þessa máls. Fólk hefur fylgst vandlega með því, vegna þess að enginn vafi er á því að í mörgum tilfellum hafa orðið hin verstu vandræði vegna búskipta sem kannske eitt barn af barnahópi heimtaði. Við höfum átt um þetta verulegar umræður hér í þinginu og eins og ég sagði, sú umræða fór m. a. fram á fundi hv. Nd. á föstudaginn var og ég get ekki lagt það á virðulegan forseta að endurtaka hana. Um þetta mál er auðvitað ágreiningur, og það var ágreiningur um það í nefndinni líka. En ég vil leggja áherslu á að hér er um afstöðu að ræða og sú afstaða snýst um þetta: Hún snýst um það hvort þingheimur vill veita börnum, erfingjum, forréttindi umfram þann sem í fyrsta lagi hefur meiri rétt til búsins lagalega og auðvitað allan siðferðilega. Hér getur, held ég, tæplega verið um pólitískt mál að ræða. Ég held að þm., hafi þeir skoðað þetta mál, hljóti að vera búnir að gera það upp við sig hvort þeir telji makann, sem á og hefur skapað umræddar eignir og unnið fyrir þeim, eiga meiri rétt til þeirra eða börn hans. Um þetta er ég ekki í neinum vafa. Mér finnst sjálfsagt að makinn eigi rétt á sínum eigin eignum umfram erfingjana. Mér þykir a. m. k. málin vera farin að snúast skrýtilega ef hv. ríkisstjórnarflokkar, ekki síst annar þeirra, Sjálfstfl., er farinn að hirða svo lítið um eignarréttinn að hann geti sætt sig við að börn í okkar þjóðfélagi, sem hafa væntanlega velflest haft þó nokkra möguleika á að afla sér menntunar og sæmilegs lífs, eigi að hafa rétt til að rífa upp eignir og heimili foreldra sinna um leið og annað þeirra er látið. Ég vil biðja hv. þdm. að taka þessa afgreiðslu alvarlega og taka afstöðu, því að ég get alveg lofað hv. þm. að þjóðinni verður skýrt frá því hvernig þessi atkvgr. fer. Það er ekki oft sem almenningur úti í þjóðfélaginu bíður eftir afgreiðslu einstakra þingmála. Það gildir um þetta frv. og það skal enginn fara í neinar grafgötur með það hvernig þessi afgreiðsla fór og hverjir kusu að hafa mál eins og hér er gert ráð fyrir.

Að öðru leyti vil ég endurtaka þakkir mínar til hv. allshn. Ég tel að hún hafi fjallað um málið og hafi reynt að finna lausn á því, og ég tel hana betri en enga þó að þetta frv. gangi því miður miklu skemmra en við ætluðumst til. En ég held samt að með því fáum við þó árangur og ef brtt. mín verður samþykkt tel ég að um verulegan árangur sé að ræða.