08.05.1985
Neðri deild: 65. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4979 í B-deild Alþingistíðinda. (4241)

424. mál, erfðalög

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Mér þykir ekki stætt á öðru en að leiðrétta vissan misskilning og vissar rangfærslur í máli hv. 10. landsk. þm. Það dettur engum í hug að koma í veg fyrir að maki haldi öllum eigum sínum. Slíkt er ekki yfir höfuð á dagskrá að leggjast gegn því að maki haldi öllum eigum sínum. Spurningin er sú hvort hann eigi að geta haldið arfi fyrir stjúpbörnum. Ef við tækjum það upp að taka ákvörðun um að hann gæti haldið arfi fyrir stjúpbörnum væri það lagasetning sem væri í algerri andstöðu við lagasetningu á öllum Norðurlöndunum og e. t. v. víðar. Þetta veit hv. 10. landsk. þm. mætavel, enda margrætt í nefndinni. Allar hugmyndir í þá veru að leggja til að sú brtt. sem hér er flutt verði samþykkt gengur þess vegna mjög á eignarrétt vissra einstaklinga.

Það má oft líta svo á að maki sem eftir lifir ásamt sínum börnum og þeirra beggja njóti sameiginlega þess heimilis sem þar er. En stjúpbörn víðs fjarri eru þá gjarnan þar fyrir utan. Séu þau aftur á móti til staðar á heimilinu er ekkert ólíklegt að þau muni gera það, eins og mörg þeirra hafa löngum gert, að samþykkja að makinn sitji í óskiptu búi og þeirra hlut verði ekki skipt út frekar en annarra. Ég vil þess vegna taka mjög eindregið undir það sem 1. þm. Vesturl. sagði um þetta mál og tel að hin mikla vinna sem allshn. er búin að leggja í málið væri unnin fyrir gýg ef sú brtt. yrði samþykki sem hér er flutt.