08.05.1985
Neðri deild: 65. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4980 í B-deild Alþingistíðinda. (4242)

424. mál, erfðalög

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég skal ekki tefja þetta mál mikið lengur. Ég vil aðeins benda á að hér er ekki verið að taka arf frá neinum. Það er einungis frestað að greiða hann út þangað til báðir makarnir eru látnir, þannig að hér er auðvitað bara um orðhengilshátt að ræða hjá hv. 5. þm. Vestf.

Varðandi það sem hv. 1. þm. Vesturl. sagði að þessi brtt. væri einungis til að tefja fyrir afgreiðslu málsins, þá er það alrangt. Um þetta verður að greiða hér atkvæði og falli brtt. mín er hún úr sögunni og málið heldur auðvitað áfram sinn gang. Það er engin ástæða til að tefja þá afgreiðslu þannig að ég held að ástæðulaust sé af minni hálfu að tala frekar fyrir þessu máli. Ég er búin að gera það mjög rækilega og vænti þess að hv. þm. taki þátt í þessari atkvgr. og skeri úr um þetta efni.

En ég vil enn og aftur leggja áherslu á að mér finnst það sé forneskja í hugsun að gera þennan mismun á afstöðu foreldra til barna eða stjúpbarna. Á Íslandi munu þúsundir barna búa hjá öðru foreldra sinna, ýmist í nýjum hjúskap eða ekki, og sem betur fer hefur löggjafinn unnið að því leynt og ljóst að tryggja ekki einungis rétt foreldra til umgengni við börn sín hvort sem foreldrarnir búa saman eða ekki, heldur ekki síður rétt barna til að umgangast foreldra sína. Þessi breyting, sem hér er lögð til, er því beinlínis í framhaldi af þeirri löggjöf. Og sem betur fer held ég að allur andi í þjóðfélaginu sé í þá veru að fólk vilji í sem flestum tilfellum bera ábyrgð á börnum sínum hvernig sem heimilið er að öðru leyti saman sett. Þetta held ég að sé rétt stefna og þessi breyting er m. a. byggð á því.

Ég skal ekki orðlengja þetta frekar. Ég vænti þess að hv. þm. skeri úr um þetta, og ég lýt auðvitað vilja hv. þd. Að minni brtt. fallinni, ef svo fer, mun ég að sjálfsögðu standa að því frv. sem fyrir liggur.