08.05.1985
Neðri deild: 65. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4995 í B-deild Alþingistíðinda. (4258)

5. mál, útvarpslög

Frsm. 2. minni hl. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég hefði kosið vegna þeirrar umr. sem hér fór fram áðan að hæstv. forsrh. yrði kallaður til að vera viðstaddur umr. Ég sé að hæstv. menntmrh. er hér nærstaddur og vildi biðja virðulegan forseta að kanna hvort hæstv. forsrh. er ekki í húsinu.

Ég ætlaði að gera örfá atriði að umtalsefni og m. a. þær gagnstæðu yfirlýsingar sem hér hafa komið fram frá talsmönnum ríkisstjórnarflokkanna í þessu máli og þ. á m. af hálfu hæstv. menntmrh. og hæstv. forsrh. Hér við framhald umr. kvaddi sér fyrst hljóðs hv. skrifari þessarar deildar, hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson, 5. þm. Vestf., og hann átti það erindi helst hér í ræðustólinn að greina frá því að forsrh. hefði lýst því yfir að það samkomulag sem talsmenn Sjálfstfl. hafa greint frá að gert hafi verið í sambandi við þetta frv. til útvarpslaga hafi alls ekki verið gert, það samkomulag við hæstv. menntmrh.

Síðan talaði hér við umr. hv. 4. þm. Reykv., virðulegur forseti Nd. á þessum fundi, Birgir Ísl. Gunnarsson, og rakti það hvernig hann hefði skilið yfirlýsingar hæstv. menntmrh. og var raunar að hlaupa undir bagga með hæstv. menntmrh. í sambandi við hennar yfirlýsingar um túlkun á meintu samkomulagi við Framsfl. í þessu máli.

Hv. þm. Birgir Ísl. Gunnarsson talaði hér við 2. umr. málsins þann 11. mars s. l. og greindi þar frá því, sem hann fór síðan yfir efnislega í umr. áðan, að hann hefði tekið það gott og gilt að gert hefði verið samkomulag milli stjórnarflokkanna um að þm. þeirra hefðu óbundnar hendur í sambandi við 4. gr. laganna og brtt. þar að lútandi varðandi auglýsingar. — Ég vildi inna hæstv. forseta eftir því hvort von er á forsrh. (Forseti: Mér skilst að hann sé í húsinu. Hann hefur fengið boð og mun væntanlega koma innan skamms.) Já, þá mun ég bíða með það að inna hann eftir þáttum sem varða þetta efni.

Nú gengur hæstv. forsrh. í salinn. Hann sá ástæðu til þess að gefa yfirlýsingar af sinni hálfu í sambandi við stefnumót það sem hann hefði átt í stigagangi við hæstv. menntmrh. á liðnum vetri í sambandi við þetta mál. Hæstv. forsrh. taldi að þegar leiðir þeirra ráðherranna lágu saman — nú stendur yfir annað stefnumót viðkomandi ráðh. í okkar viðurvist í þingsal — á liðnum vetri í sambandi við þetta mál, þá hafi brtt. á þskj. 514, frá varaformanni Sjálfstfl., hv. þm. Friðrik Sophussyni, ekki verið komin fram. Ég held að ástæða sé til þess, vegna þess að þetta er greinilega mjög viðkvæmt mál í Framsfl. eins og kom fram hjá hæstv. forsrh., allt sem snertir brtt. varðandi 4. gr. frv. og spurningu um auglýsingar, að upplýsa það hér að brtt. á þskj. 514 var lögð fram hér í þinginu 21. febr. s. 1., en það er hins vegar 11. mars sem hv. þm. Birgir Ísl. Gunnarsson tekur hér til máls við 2. umr. málsins og segir þar, með leyfi forseta, eftirfarandi:

„Ég tel hins vegar rétt að geta þess hér, þannig að það komi glöggt fram, að hæstv. menntmrh. hefur skýrt frá því í þingflokki sjálfstæðismanna að skv. samkomulagi. sem hún og hæstv. forsrh. hafa gert, hafi þm. beggja flokka, Framsfl. og Sjálfstfl., óbundnar hendur í atkvgr. um þennan þátt málsins. Ég á fyllilega von á því að þm. Sjálfstfl. styðji þær brtt. sem hv. 2. þm. Reykv. hefur hér flutt um það efni.“

Þetta voru orð hv. þm. Birgis Ísl. Gunnarssonar þann 11. mars og hann greindi frá því hér við umr. áðan að hann hefði innt hæstv. menntmrh. nánar eftir þessu og fengið það staðfest einmitt þennan sama dag, 11. mars, þ. e. nær 20 dögum eftir að brtt. á þskj. 514 var hér lögð fram, hvort slíkt samkomulag hafi verið gert. Nú hefur hæstv. forsrh. túlkað þetta með allt öðrum hætti, sem sagt þannig, að meint samkomulag við menntmrh. hafi verið fólgið í því að Framsfl. gæti unað því að greidd yrðu atkv. um 4. gr. frv. eins og það liggur fyrir í frv. eins og það kom fram, en ekki hins vegar um óskert frelsi til auglýsinga. Ég innti eftir því hér fyrr við umr. hver væri í raun afstaða Framsfl. til þessa máls ef svo færi að brtt. Friðriks Sophussonar á þskj. 514 yrði hér samþykkt og ég vil inna hæstv. forsrh. eftir því hér við umr. hvert sé hans viðhorf í þessu efni og þingflokks Framsfl. til málsins því að það hlýtur að ráða miklu um framhald þessa máls.

Hitt er svo annað mál hvernig boð hafa gengið innan Framsfl. Það ber engan veginn saman því sem hér var greint frá af hæstv. forsrh. og hv. þm. Ólafi Þ. Þórðarsyni í sambandi við þau efni, en ég ætla ekki að gera það að umtalsefni frekar.

Það mál sem er í brennipunkti í sambandi við umr. nú, 3. umr. þessa máls, varðar auglýsingar og svokallað óskert frelsi til auglýsinga og hæstv. menntmrh. talaði mjög heitt og ákveðið fyrir þeirri brtt. sem varaformaður Sjálfstfl. hefur flutt um þetta mál og taldi að það skæri úr um það hvort sól frelsisins fengi að rísa í þessu máli, frelsishugsjón sem liggi til grundvallar í íslensku þjóðfélagi eins og ráðh. orðaði það. Það sker úr um hvort sú sól rennur hvort Rolf Johansen og aðrir, sem hafa í hyggju að hefja hér rekstur auglýsingaútvarps, fái fullt og óskorað frelsi til þess.

Ég hef greint frá afstöðu Alþb. fyrr við umr. um þetta mál og við fluttum raunar um það brtt. við 2. umr. málsins að þrengd yrðu ákvæði 4. gr. frv. í sambandi við auglýsingar, en sú till. náði ekki fram að ganga. Ég tel mjög líklegt að þegar þetta mál kemur til lokaafgreiðslu hér í hv. Nd. fari svo að samþykkt verði brtt. Friðriks Sophussonar. Þá getum við Alþb.-menn ekki greitt fyrir framgöngu þessa máls hér í deildinni. Við teljum að spurningin um óskertar auglýsingar, spurningin um óskert markaðslögmál fyrir einkastöðvar, spurningin um það hvort þær fái óskerta möguleika til samskipta við Ríkisútvarpið skipti það miklu að það hljóti að ráða afstöðu þegar til lokaafgreiðslu kemur í þessu máli hér í deildinni.

Hæstv. menntmrh. ræddi um það og skýrði sína afstöðu til auglýsinganna og hversu mjög ráðh. legði upp úr því að þar yrðu engar hömlur á. Hæstv. ráðh. fór alla leið austur í Kínaveldi í sambandi við sitt mál í þessu efni og lýsti því hversu ágætlega málum væri þar fyrir komið með útgáfu á China Daily sem væri ágætisblað sem leysti þar allar þarfir. Ég skynjaði það á milli línanna, þótt ráðh. nefndi það ekki sérstaklega, hversu ágætlega málum væri komið hér ef Morgunblaðið gegndi því hlutverki sem China Daily gegnir austur í Kína að mati ráðh.

Hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson gerði hér grein fyrir brtt. sem hann er flm. að, en raunar eru Alþb. og Bandalag jafnaðarmanna sameiginlega flm. tiltekinna brtt. sem ég hef þegar gert grein fyrir. Hv. þm. gerði að umtalsefni sérstaklega boðveitur og tillögur sínar þar að lútandi. Ég minni á að við 2. umr. málsins gengu til atkv. tillögur af hálfu Alþb. varðandi boðveitur. Við lögðum þar til að þær yrðu í opinberri eigu. Þetta er í rauninni sama sjónarmiðið og fram kemur hjá hv. þm. Jóni Baldvini Hannibalssyni. Við teljum það skipta mjög miklu að úr því verði skorið í sambandi við afgreiðslu þessa máls að boðveitukerfið verði í opinberri eigu. Þar með erum við ekki að leggja mat á hvort þar verði um ríkið, Póst- og símamálastofnun, að ræða eða sveitarfélög. Ég lít svo til að hvort tveggja geti komið til greina og ekki sé skynsamlegt að kveða á um að skylda sveitarfélögin með lögum til þess að verða rekstraraðili slíkra boðveitna, en hins vegar sé það velkomið þar sem sveitarfélög vilja færast slíkt í fang. Ég skildi hv. þm. þannig, að hann liti á það sem úrslitaatriði hvort till. hans að þessu leyti næði fram að ganga um opinbert eignarhald á boðveitum. Varðandi afstöðu til frv. í heild og sérstaklega varðandi auglýsingar færi svo að ef ekki yrðu samþykktar tillögur hans varðandi boðveiturnar skilyrti Alþfl. stuðning sinn við hugmyndir um fullt og óskorað frelsi til auglýsinga. Ég er að vísu algerlega andvígur því sjónarmiði sem fram hefur komið af hálfu Alþfl. um að opna fyrir slíkt auglýsingafrelsi hjá einkastöðvum, en ég tel það þó skömminni skárra að afstaða sem þessi hefur hér komið fram af flokksins hálfu. Ég átta mig hins vegar ekki á þeim rökum sem hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson flutti hér um gildi þess að boðveiturnar væru í opinberri eigu og hvernig það ætti að koma fram sem vernd gagnvart þeirri aðstöðu sem útvarpsréttarhafar fengju með óskoruðu frelsi til auglýsinga. Mér finnst að þarna sé ekkert beint samhengi á milli og tel að slíkt svigrúm einkaaðila, sem fengju slíkt frelsi til þess að keppa eftir lögmálum markaðarins og afla tekna skv. auglýsingum, sé óeðlilegt og samkeppni við Ríkisútvarpið, jafnvel þótt um opinbert eignarhald sé að ræða á boðveitum sem ég tel hins vegar afar mikilvægt að lögfest verði.

Þetta mál er orðið allsögulegt í samskiptum ríkisstjórnarflokkanna og rakti ég í fyrri ræðu við þessa umr. um málið hvernig það hefur þróast, hvernig yfirlýsingar hafa gengið milli flokka, hvernig mótsagnir eru í yfirlýsingum ráðh. um þetta efni, og þar hef ég sérstaklega innt eftir afstöðu Framsfl. fari svo að brtt. á þskj. 514 nái fram að ganga. Ég ítreka þá fsp. hér, og vænti að hæstv. forsrh. geti upplýst þingheim og þd. um það, hver afstaða Framsfl. verður til framhalds málsins ef svo fer að nefnd brtt. yrði samþykkt í deildinni.